27.04.1972
Efri deild: 73. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (3300)

236. mál, Rannsóknastofnun fiskræktar

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ágreiningur um þetta mál kemur mér alls ekki á óvart, því að eins og sagt hefur verið og fram hefur komið, þá eru veiðimálin ágreiningsmál af ýmsum eðlilegum ástæðum. Ég vil aðeins leyfa mér að fara fáeinum orðum um nokkur atriði, sem fram komu hjá hv. þm., sem hér hafa talað. Ég er alveg sammála því, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Sunnl., að það skiptir ekki öllu máli, hvort kaflinn er langur eða stuttur, enda var það alls ekki ætlun mín að gefa það til kynna. Hitt held ég, að fari ekki á milli mála, að þeir kaflarnir, sem fjalla um veiðirétt og lögskipan þeirra mála, eru vitanlega aðalefni þessa mikla lagabálks um lax- og silungsveiði. Það held ég, að sé alveg ljóst. Ég hef talið og tel, að rannsóknastarfsemin hverfi þar í skuggann.

Það er alveg rétt hjá hv. 3. þm, Reykn., að það stendur mikill styrr um veiðimálin eins og um landamerkjamálin, enda væri það nú laglegt ástand, ef við fælum Rannsóknastofnun landbúnaðarins að annast það mál. Ég býð ekki í það. Og þetta er einmitt ein af ríkustu ástæðunum fyrir því, að við teljum eðlilegra að skilja þetta í sundur. Ég fagna því, sem fram kom hjá hv. þm., að það komi vel til greina að gera hér nokkra endurskoðun á því fyrirkomulagi, sem er, og reyndar kom það fram hjá báðum hv. þm. Minnzt var á það, að e. t. v. mætti skipta þessu í sérstaka deild og skilja það þannig betur í sundur. Það má vel vera, að slík athugun mundi lagfæra það ástand, sem nú er. Þar kemur fram skilningur á því, að lagfæringa geti verið þörf. Það finnst mér töluvert spor og viðurkenning á þessu máli okkar.

Vitanlega má mikið um það deila, hvort það eigi að vera sérstök rannsóknastofnun eða ekki. Ég nefndi þetta sjálfur í framsögu minni. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að ef ekki er vilji til þess að setja á fót sérstaka rannsóknastofnun, væri betra að tengja þessa rannsóknastofnun öðrum rannsóknastofnunum frekar en Veiðimálastofnuninni. En þó er ég sammála því, og reyndar kemur greinilega fram í frv., að við teljum, að þar verði einnig tengsl að vera á milli. Að sjálfsögðu gegnir allt öðru máli, hvort veiðimálastjóri sé í stjórn stofnunar eða hann sé framkvæmdastjóri þessarar starfsemi, og get ég ekki fallizt á það, sem í því sambandi kom fram hjá hv. 6. þm. Sunnl.

Hv. 3. þm. Reykn. fór nokkrum orðum og allmörgum um kostnað við eldisstöðina í Kollafirði. Vitanlega má mikið um það deila og lengi, hvort hann sé gífurlegur eða ekki, en það má vel vera, að of djúpt sé í árinni tekið hér í þessari grg. Ég hafði satt að segja heyrt allmiklu hærri tölu og því miður hef ég ekki getað fengið staðfestar tölur, þó að ég sé ekki að vefengja það, sem þarna kom fram, langt frá því. En það er, held ég, óumdeilanlegt, að hún fór mjög mikið fram úr áætlun, og aðalatriðið hjá okkur er, að það sé rangt að ætla eldisstöðinni að gefa tekjur til að standa undir þessum kostnaði. Við teljum, að það komi ekki til mála og slík stefna gerði ekkert annað en gera stöðina nálægt því lítils virði til rannsóknastarfsemi. Starfsemin beinist þá fyrst og fremst að því að standa undir greiðslum vaxta og afborgana, og það er ekki hentugt fyrir neina rannsóknastarfsemi að standa í slíku. Ég þekki þessa ekki önnur dæmi, nema e. t. v. eitt í landbúnaði, það er fjárræktarbúið að Hesti, sem gerir það þó aðeins að litlu leyti og hefur aldrei verið aðalmarkmið þess. Tekjur, sem hafa komið inn, hafa að sjálfsögðu fallið inn í almennan rekstrarkostnað, en ekki í þeim mæli, sem hér er gert ráð fyrir, enda hefur mér sýnzt, að stjórn þeirrar stofnunar sé öll þannig skipuð, að við það sé miðað, að hún sé fremur rekin sem „business“-fyrirtæki, ef má nota það orð, heldur en rannsóknastofnun.

Það var nokkuð rætt um stjórn stofnunarinnar. Ég get vel fallizt á, að það sé kannske rétt, að stjórn Búnaðarfélagsins eigi að tilnefna þarna mann, og ég er vissulega til viðtals um þá breytingu, geri þar ekki neinn ágreining á þessu stigi, er tilbúinn að athuga það. Að forstjóri sé sérmenntaður, við töldum nú alls ekki þörf á því. Það er stundum dálítið umdeilt. Ég er nú þeirrar skoðunar, að þarna hlyti að vera maður með háskólapróf, og engum dytti satt að segja í hug að ráða mann sem forstöðumann rannsóknastofnunar, nema hann hefði háskólapróf í þeirri grein, og það má vel vera, að nauðsynlegt sé að setja það inn, ef stjórninni er ekki til þess treyst að sjá svo um.

En fyrst og fremst stóð ég upp til að andmæla því, að það sé þriðji megintilgangur frv. að setja hömlur á veiði erlendra manna hér á landi. Ég skal ekki leyna því, að ég tel þá þróun, sem nú er, stórkostlega varasama, að erlendir menn eru að meira og minna leyti að gleypa, ef ég má orða það svo þessi lífsgæði okkar Íslendinga, sem við eigum í okkar fámenna landi, og ég hygg, að það muni fljótlega verða almennari skoðun en nú er, að þarna sé stefnt inn á afar hættulega braut og það sé ekki aðeins laxveiðin, sem þarna er um að ræða, heldur jafnvel fjölmargt annað, sem við höfum; rjúpan, gæsin, jafnvel gönguslóðir í okkar dásamlegu náttúru og okkar dásamlega umhverfi.

Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar, að þetta land okkar sé félagsbú og við eigum að standa saman að því, við eigum að efla okkar landbúnað sameiginlega og hann eigi að hafa fyrsta aðgang að okkar mörkuðum. Og eins eigum við Íslendingar yfirleitt sjálfir að hafa nokkurn forgang að okkar landi, hvar sem er, og gildir þar yfirleitt svipað, hvort sem landið er leigt til herstöðvar eða til laxveiði. En ég ætla alls ekki að fara út í þetta mál. Ég hef alls ekki litið á þetta mál sem tengt því, sem hér er um að ræða, og satt að segja þótti mér það undarlegt, hvað hv. þm. varði miklu af sinni ræðu í að ræða um stangaveiði. Það er ekki aðallega stangaveiðin, sem við erum með í huga. Það er fyrst og fremst sú sannfæring okkar, að þetta geti orðið öflug atvinnugrein, fiskeldi og fiskrækt, geti orðið mjög öflug atvinnugrein, og þar á ég vitanlega við þá grein, sem ég nefndi, sem þróazt hefur í fjarlægum löndum og er nú í mikilli framför í nálægum löndum okkar, þar sem þessi verðmæti fiskur, lax og silungur, er í vaxandi mæli ræktaður í t. d. lokuðum tjörnum eða jafnvel búrum, eins og ég nefndi til slátrunar og stórfyrirtæki leggja gífurlegt fjármagn í þróun þeirrar tækni, eða honum er sleppt og tekinn aftur, en við eigum fyrst og fremst við þetta sem atvinnugrein. Ég er ekki að gera lítið úr stangaveiðinni. Hún er vissulega mikilvæg. En það er sannfæring mín, að hún er hverfandi miðað við þennan þáttinn, sem við höfum hér fyrst og fremst í huga. Raunar held ég, að 5 þús. kr. gjald sé litlar hömlur. Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það er leigt allt upp í 200 dollara á dag. Það er ekki allt svo hátt, en ætli það sé ekki víðast hvar 100–200 dollarar eða kringum 9–18 þús. kr. á dag, og fáa útlendingana þekki ég, sem hingað koma til eins dags veiði. En það getur vel verið, að það þurfi að endurskoða upphæð þessa gjalds, ef við höfum það í huga, að þetta fer allt saman óðum hækkandi með hverju ári, og grunur minn er sá, að þessi upphæð verði talin lítil eftir skamman tíma, ef svo heldur áfram sem nú horfir, og engar líkur eru til, að á verði breyting.

Ég ver vissulega hagsmuni bænda, þeir eiga að hafa verulegar tekjur af þessu. En eins og ég segi, þá get ég alls ekki séð, að þetta skerði þær, og ég hef rakið það og þarf ekki að fara um það fleiri orðum, þótt ég telji eðlilegt, að nokkuð verði þar af mörkum lagt til þeirrar rannsóknarstarfsemi, sem hér er um að ræða.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það, sem kom fram í löngum ræðum.