26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (3312)

35. mál, samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samtarf á sviði menningarmála

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Sá samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, sem hér er lagður fyrir til fullgildingar, er árangur af samþykkt, sem gerð var á 18. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í febrúar 1970. Þar var gerð ályktun um ráðstafanir til að efla skipulag norræns samstarfs í menningarmálum með því að undirbúa menningarsáttmála, sem kæmi til framkvæmda frá 1. jan. 1972 og tæki til samvinnu um fræðslumál, vísindi og almenn menningarmál. Síðan var að þessu máli unnið í samræmi við ályktun Norðurlandaráðs á menntamálaráðherrafundi Norðurlanda í apríl 1970, þar sem sett var á laggirnar norræn embættismannanefnd til undirbúnings sáttmála, og á fundi menntmrh. í Kaupmannahöfn í ársbyrjun 1971. Síðan kom til afgreiðslu á 19. þingi Norðurlandaráðs í febrúar 1971 í Kaupmannahöfn frv. embættismannanefndarinnar að þeim sáttmála, sem síðan var afgreiddur á menntamálaráðherrafundi með þeim breytingum, sem bent hafði verið á, á almennum fundi Norðurlandaráðs. Loks var samningurinn undirritaður í Helsingfors I5. marz 1971.

Í stórum dráttum er það höfuðmarkmiðið með þessum sáttmála að koma hinu norræna menningarmálastarfi, sem eins og hv. þm. vita, er mjög víðtækt, í fastari farveg en það hefur haft til þessa. Og í öðru lagi að gera áhrifaríkar ráðstafanir til þess, að það fjármagn, sem til menningarmálasamstarfsins fer, komi að sem beztum og hagkvæmustum notum. Þetta er ætlunin að gera með því að setja á stofn norræna menningarmálaskrifstofu með föstu starfsliði. Ákveðið hefur verið, að þessi skrifstofa hafi aðsetur í Kaupmannahöfn, og þar er ætlunin, að starfi embættismenn frá Norðurlöndum öllum, svo að þar sé jafnan tiltæk málakunnátta og staðþekking, sem nauðsynleg kann að vera til þeirra starfa, sem skrifstofan þarf að leysa af höndum. Þessi skrifstofa á síðan að búa í hendur embættismannanefnd, ráðherrafundum og Norðurlandaráði till. um framkvæmd norrænnar menningarmálasamvinnu í fræðslumálum, í vísindum, í listum og á öllum öðrum sviðum, sem til menningarmála teljast. Auk þessa starfs, þessa skipulags á framkvæmdum og undirbúningi, er gert ráð fyrir í þessum sáttmála, að felld verði í skipulegar skorður viðleitni Norðurlanda til þess að móta stefnu sína í menntamálum og menningarmálum, þannig að hún komi að sem beztu haldi á þeim margvíslegu sviðum, þar sem reynzt hefur hagkvæmt og æskilegt að halda uppi menningarsamstarfi. Það á bæði við um próf, fullnaðarpróf í greinum og áfangapróf, og einnig er um það fjallað, að þar sem ástæða er til verði komið á sameiginlegri sérmenntun á Norðurlandagrundvelli. Það er rætt um Norðurlandastofnanir í rannsóknamálum, þar sem hagkvæmt þykir, að ein stofnun, sem öll Norðurlönd standi að, njóti fjárfestingarfjármagns frá þeim öllum, vegna þess að það yrði hagkvæmara en að hvert land um sig færi að starfa á eigin spýtur.

Það hefur komið í ljós við undirbúning þessara mála, að fjárframlög til norræns menningarmálasamstarfs á fjárlagaárinu 1970—1971 námu 29 millj. danskra króna. Næsta fjárlagaár, 1971—1972, var gert ráð fyrir aukningu upp í 32 millj. d.kr. Með þessum samningi er stefnt að verulegri samstarfsaukningu, og með hliðsjón af því hafa menntmrh. Norðurlanda áætlað, að fjárveitingaþörfin á fjárhagsárinu 1972—1973 nemi 42 millj. d.kr. Þar af er gert ráð fyrir, að 6.5 millj. d.kr. verði ráðstöfunarfjárveiting, ekki tengd þeim verkefnum, sem þegar eru á döfinni, heldur ætluð til nýrra verkefna, sem komi til framkvæmda á vegum hinnar nýju samstarfsskrifstofu. Eftir 1972 á svo að meta fjárveitingaþörfina ár frá ári á grundvelli starfsáætlana samstarfsskrifstofunnar í Kaupmannahöfn. Gert er ráð fyrir því og samþykkt af hálfu menntmrh. Norðurlanda, að á fyrsta samstarfsárinu verði útgjöldum skipt í sömu hlutföllum og gilda um framlög Norðurlanda til menningarsjóðs Norðurlanda, sem sé, að Danmörk greiði 23% útgjalda, Finnland 22%, Ísland 1%, Noregur 17% og Svíþjóð 37%.

Herra forseti. Ég mun ekki að þessu sinni hafa fleiri orð um þá þáltill. um fullgilding menningarmálasáttmálans, sem hér liggur fyrir, en geri að till. minni, að henni verði vísað til utanrmn.