18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (3326)

49. mál, endurskoðun laga um byggingarsamvinnufélög

Flm. (Sigurður E. Guðmundsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem við hv. 5. þm. Reykn. höfum lagt fram þess efnis, að ríkisstj. láti semja ný lög um starfsemi byggingarsamvinnufélaga, er ekki lögð fram að ástæðulausu. Er hvort tveggja, að margir og miklir vankantar eru á lögunum, enda er skemmst frá því að segja, að starfsemi félaganna er fjarri því að vera slík sem hún væri, ef allt væri með felldu, og engan veginn með sambærilegum hætti við það, sem tíðkast í þeim nágrannalöndum okkar, þar sem þessi félög starfa bezt og vinna mest gagn.

Núgildandi lög um byggingarsamvinnufélög voru sett í febr. 1952 og eru því nú tæpra 20 ára gömul. Á þeim langa tíma hefur ekkert verið við þeim hreyft, svo að ég viti, og hefur þó löngum verið þörf mikilla endurbóta. Tilraunir í þá átt hafa þó verið gerðar, bæði af nefndum er starfað hafa á vegum félmrn„ og af einstökum alþm., er lagt hafa fram lagafrv. og þáltill. Allt hefur þó komið fyrir ekki, og enn situr við það sama og forðum. Er því meiri þörf á því nú en nokkru sinni fyrr, að félögunum verði fengin ný lög til að starfa eftir. Munu allir sammála um það, er það mál hafa kannað, að núgildandi lög séu félögunum allt að því óviðunandi starfsgrundvöllur, enda er þeim ekki framfylgt í öllum meginatriðum og eins eru þau á margan hátt orðin úrelt. Er líka skemmst frá því að segja, að aðeins sárafá byggingarsamvinnufélög eru starfandi í landinu í dag. Utan Reykjavíkur er mér vitanlega ekkert slíkt félag við lýði nú, ekki einu sinni á Akureyri, þar sem samvinnufélögin blómstra þó á flestum öðrum sviðum. Á Reykjavíkursvæðinu eru hins vegar starfandi nokkur slík félög, en tæpast fer fjöldi þeirra yfir hálfan tuginn, þótt mun fleiri séu við lýði að nafninu til. En af þessum fimm félögum eða svo, sem starfandi eru í landinu nú, er aðeins eitt með íbúðir í smíðum um þessar mundir. Minna gat það varla verið.

Þegar þessi mál hefur borið á góma við þá byggingarfélagsmenn og vandræði þeirra komið til umr., hafa þeir um of að mínum dómi einblínt á þörf félaganna fyrir að selja þau ríkistryggðu skuldabréf, er þeir gefa út vegna byggingarframkvæmda sinna. Þetta kom t.d. greinilega fram í grg. fyrir því lagafrv., er þeir núv. hæstv. ráðh., Ólafur Jóhannesson og Einar Ágústsson, fluttu um starfsemi byggingarsamvinnufélaga á þinginu 1967—1968. Í því frv. vildu þeir láta skylda Seðlabankann til að kaupa ríkistryggð skuldabréf af byggingarsamvinnufélögunum fyrir 75 millj. kr. árlega. Í grg. þess frv. er annað atriði nefnt, sem talið er valda miklu um slæma rekstursaðstöðu þessara félaga. Er það lóðaskortur, a.m.k. á stærri þéttbýlissvæðunum. Mun þar einkum hafa verið átt við það, að byggingarsamvinnufélög væru sett hjá eða a.m.k. látin mæta afgangi við ráðstöfun lóða fyrir fjölbýlishús hér á Reykjavíkursvæðinu. Kann að vera, að það eigi sér einhverja stoð. En hvað sem því líður, er það víst, að hér með eru vandkvæði byggingarsamvinnufélaganna engan veginn talin. Þau eru mun fleiri. Hér verða þau talin af handahófi, og er þó engan veginn sagt, að öll kurl komi til grafar í þeirri upptalningu. Það er þó rétt, að auðvitað eru fjármagnsvandamál þeirra mikill vandi, ekki aðeins að því er varðar skuldabréfasölu þeirra, því að vonandi hefur talsvert rætzt úr í því efni með skuldabréfakaupum sífellt fleiri og sterkari lifeyrissjóða. Vandinn er einnig í því fólginn, að félögin geta ekki eignazt sitt eigið fjármagn, fé, sem kalla mætti eigið framkvæmdafé. Í lok hverrar byggingar standa þau uppi slypp og snauð, ef svo mætti segja, og hafa ekki handbært neitt fjármagn til að halda áfram starfsemi sinni, nema til komi nýr byggingarflokkur, er hefji greiðslur sínar. Höfuðvandinn er því sá, að félögin verði fjármögnuð, ekki aðeins með skuldabréfasölu fyrir hvern byggingarflokk, heldur einnig og jafnframt með myndun eigin fjármagns. Í annan stað er áreiðanlega mikilvægt, að á sviði byggingarsamvinnufélaganna sem og einkaframtaksins í byggingariðnaðinum komi upp fáir en sterkir og hæfir aðilar í stað þess fjölda smáaðila. sem nú eru þar fyrir hendi. Í þriðja lagi hlýtur að koma vel til greina, að félögin bjóði út framkvæmdir sínar í stað þess að annast framkvæmdirnar sjálf, eins og þau gera nú oftast nær, sbr. einmitt þá þróun á sviði verkamannabústaðanna. Þá er mikilvægt. að miklu hæfari stjórnun komi til sögunnar í byggingarsamvinnufélögunum, þegar um íbúðabyggingaframkvæmdir á þeirra vegum er að ræða, rétt eins og í öðrum byggingarfyrirtækjum á sviði íbúðabygginga, þannig að tryggt verði, að fyrir hendi sé strax í upphafi fullkomin skipulagning verksins og því síðan stjórnað í samræmi við hana. Í þessu sambandi má líka minna á nauðsyn þess, að byggingarsamvinnufélögin bindi enda á það í eitt skipti fyrir öll, að svo kallaðir bakreikningar vegna íbúðabygginganna dynji lengi vel á íbúðakaupendum eftir að smíði þeirra er lokið og íbúðirnar hafa verið afhentar. Núverandi ástand í þeim efnum er með öllu óþolandi og hefur spillt stórlega fyrir starfsemi félaganna. Á því er áreiðanlega unnt að ráða bót að mestu eða öllu leyti, ef rétt er að málum staðið.

Margt fleira mætti benda á, sem þyrfti að koma til sögunnar á þessu mikilvæga sviði íbúðabygginganna, þótt ég láti hér staðar numið. En ég ítreka, hve nauðsynlegt er að hefjast nú þegar handa um samningu nýrra laga um starfsemi þessara byggingaraðila og þar með endurskipulagningu þeirra. Í dag er það svo í flestum tilfellum, að því er manni virðist, að byggingarsamvinnufélag er nánast eins og lausmyndaður samstarfshópur manna, er hyggst koma þaki yfir höfuð sér. Þeir njóta ríkistryggingar að verulegu leyti að því er varðar útgáfu skuldabréfa, annað ekki. Ákvæðin um endursölu íbúðanna munu í flestum eða öllum tilfellum fallin fyrir borð í ólgusjó verðbólgunnar auk fjölmargra annarra atriða, sem ekki eru lengur í neinu samræmi við gerbreytta tíma og nýjar aðstæður. Óhætt er að fullyrða, að núgildandi lög um byggingarsamvinnufélög eru bæði óviðunandi starfsgrundvöllur fyrir þau, óviðunandi fyrir félagsmenn þeirra og þröskuldur í vegi fyrir frekari og hæflum framkvæmdum á þeirra vegum. Er því þess að vænta, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþykkja þessa till. og ríkisstj. bregði síðan knálega við um samningu nýrra laga um þessa mikilvægu starfsemi.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari þáltill. verði að umr. lokinni vísað til heilbr.— og félmn.