26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (3334)

24. mál, ráðstafanir til að auðvelda umferð fatlaðra

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Till. á þskj. 24 fjallar um mál, sem vekur vaxandi athygli víða um heim. Þegar Roosevelt var forseti Bandaríkjanna, var þeirri þjóð það ljóst, að þeir, sem voru í hjólastólum, gátu líka verið nýtir þegnar, en henni var líka ljóst um leið, að mikið vantaði á, að þjóðfélagið byggi að þeim eins og öðrum þegnum.

Ráðstafanir til þess að gera umferð fatlaðra auðveldari eru fyrst og fremst skipulagsatriði eða byggingarfræðilegs eðlis. Þeir umferðarþröskuldar, sem einkum torvelda fötluðum að komast leiðar sinnar, eru m.a. kantsteinar við gangstéttir, illa staðsett bílastæði, tröppur við inngangsdyr, skortur á lyftum í margra hæða húsum og ótalmargt fleira, þ.á.m. sú staðreynd, að mjög víða eru dyr inn í snyrtiherbergi mjórri en 80 cm og því útilokað fyrir hjólastólafólk að hagnýta salernin.

Þetta virðast kannske í ykkar augum ekki stórmál, en þau geta gerbreytt lífsviðhorfi þessa fólks, og einmitt þetta atriði takmarkar umferðarmöguleika fatlaðra mjög mikið. Til þess að geta lifað sem eðlilegustu lífi er fötluðu fólki nauðsyn að geta ferðazt um innan húss og utan. Það þarf að geta notið þjónustu almenningsstofnana, komizt hjálparlaust í skóla, á vinnustað, í verzlanir, í leikhús o.s.frv. Háar tröppur framan við anddyri slíkra stofnana gera það að verkum, að þetta fólk verður hjálparþurfi. Það er því fullkomin nauðsyn, að þau ákvæði komist inn í lög um byggingar og inn í byggingarsamþykktir sveitarfélaga, að tekið sé tillit til þarfa fatlaðra við hönnun bygginga og gerð skipulags. Slíkum umbótum fylgir oft lítill kostnaðarauki. En enda þótt um kostnaðarauka kunni að vera að ræða, þá verður að hafa það í huga, að nýting mannvirkjanna eykst og verður fullkomnari.

Um síðari hluta till. er það að segja, að lagfæring á eldri byggingum kostar að vísu allmikla fjármuni. Aftur á móti eigum við fjölda einstaklinga, sem verða að fara um í hjólastól. Margir þeirra eru nýtir þegnar, er vinna merk störf í þjóðfélaginu. Daglega angra þessar hindranir hjólastólafólk, valda því kostnaðarauka og varna því, að hæfileikar þess nýtist til fullnustu í þjóðfélaginu. Umbætur á eldri byggingum mundu því hafa mikla þýðingu, og þótt ekki megi vænta þess, að bætt verði úr til fulls, þá mætti vafalaust ná allmiklum árangri á fáum árum.

Fatlaðir eru margir í okkar þjóðfélagi. Þeir eru fatlaðir af ýmsum ástæðum, og þeir eru á öllum aldri. Börn fötluð frá fæðingu eru mörg hjá okkur, og þrátt fyrir aukna þekkingu á orsökum slíkra örkumla, tekst ekki að fækka tilfellunum. Slysaöryrkjum fer stöðugt fjölgandi, og öll þekkjum við ástæðurnar fyrir því. Allmikill fjöldi af fólki er fatlaður vegna sjúkdóma í miðtaugakerfi, og sumir lungna– og hjartasjúklingar þurfa að ferðast um í hjólastólum árum saman. Blindir og heyrnardaufir þurfa líka sínar sérstöku aðstæður í umferðinni.

Meðalævi okkar er að lengjast, og þess vegna er vaxandi fjöldi aldraðra í þjóðfélaginu. Og nú leggst gamla fólkið ekki í kör lengur. Með því að nota stafi, hækjur, hjólastóla og öll hjálpartæki tekst því að verða sjálfbjarga miklu lengur en áður. Loks er það vaxandi fjöldi sjúklinga og slasaðra, sem þarf að dvelja í hjólastólum nokkrar vikur eða nokkra mánuði. Þetta fólk þarf oft að dvelja í dýrum sjúkrahúsum lengur en ella vegna umferðarhindrana í og kringum heimilin.

Stefna nútímasamfélags er að skapa sem flestum sem bezt lífskjör. Það er hins vegar lítill grundvöllur fyrir góðum lífskjörum fyrir þá, sem ekki geta komizt leiðar sinnar hjálparlaust. Leiði þessi till. til þess, að umferð fatlaðra verði gerð auðveldari, þá mun það auka nýtingu á orku einstaklinganna og auka jafnrétti þegnanna á sama tíma og það eykur lífshamingju fjölda fólks.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði vísað til hv. allshn.