20.12.1971
Efri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Inga Birna Jónsdóttir:

Herra forseti. Með frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins er verið að hleypa af stokkunum ábyrgðarmikilli og um margt mjög viðamikilli ríkisstofnun. Í því sambandi og þá aðallega til glöggvunar langar mig að spyrja um tvennt, ég vona, að það verði til upplýsingar, en ekki til tafar: Ég leyfi mér að spyrja að því, hvort það er einvörðungu þriggja manna framkvæmdaráð, sem á að vera skipað af þingmeirihluta hverju sinni, eða hvort svo skal einnig vera um forstöðumenn hinna ýmsu deilda, hvort þeir verða einnig skipaðir að nýju í hvert sinn, sem ný ríkisstj. tekur við völdum.

Fsp. þessa byggi ég á aths. við frv., en þar segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta: „Framkvæmdastofnunin lýtur yfirstjórn þingkjörinnar stjórnar, en stjórn á daglegum rekstri er í höndum framkvæmdaráðs og forstöðumanna deilda.“ Ég verð að játa það, að ég óttast, að hér sé á ferðinni enn ein silkihúfan á ríkisreksturinn.

Í öðru lagi spyr ég: Hver er áætlaður stofnkostnaður Framkvæmdastofnunar ríkisins og árlegur rekstrarkostnaður?