04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (3367)

16. mál, öflun skeljasands til áburðar

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Við hv. 4. þm. Norðurl. e. fluttum á síðasta Alþ. till. til þál. um öflun skeljasands til áburðar. Við flytjum þessa till. nú á ný, óbreytta, þar sem hún náði ekki afgreiðslu á síðasta þingi.

Það er öllum kunnugt, að um árabil hafa Íslendingar einkum notað kalksnauðan áburð. Og sá tilbúni áburður,. sem hér hefur verið framleiddur, er kalksnauður. Það er að mínum dómi mjög alvarlegt, hversu lítið var fylgzt með því, þegar byrjað var að nota tilbúinn áburð hér á landi, hverjar verkanir hans væru á jarðveginn og á uppskeruna. Það er ekki fyrr en á seinni árum. sem rannsóknir og tilraunir voru teknar upp á þessum sviðum. Nú er það vitað, að ræktunarlönd þurfa kalks við, og það liggur sterkur grunur á því, að kalkskortur sé meðverkandi orsök í því gífurlega túnakali, sem orðið hefur hér á landi á síðari árum. Nú eru menn að rannsaka þessa hluti, en svo mikið er þó vitað, að kalkþörf er fyrir hendi á ýmsum stöðum, þó að menn viti ekki gjörla, hversu mikil hún er á hverjum stað. Og þá, virðist það gefa auga leið, að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir því, hvernig hagkvæmast sé að fullnægja kalkþörfinni.

Nú er unnið að stækkun og endurbyggingu áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, og e.t.v. kann einhver að halda, að áburðurinn frá þeirri nýju verksmiðju, sem þar er að rísa, leysi þennan vanda, að hann geti fullnægt kalkþörfinni. En svo er ekki. Þegar ég hafði seinast fréttir af, þá var það ekki alveg fullráðið, en kom til greina að framleiða í Gufunesi kalkblandaðan köfnunarefnisáburð. Þó er talið, að sá áburður yrði mjög dýr, vegna þess að framleiðsla á honum yrði aldrei í það stórum stíl, að hægt yrði að koma við fullkominni hagræðingu við framleiðslu hans, og m.a. þess vegna hefur fram undir þetta verið talinn nokkur vafi á því, hvort ráðizt verði í að framleiða kalkblandaðan köfnunarefnisáburð í hinni nýju verksmiðju. Þessi nýja verksmiðja á m.a. að framleiða svo kallaðan þrígildan áburð. Nú er það svo, að hann verður kalklaus, og það er ekki hægt af tæknilegum ástæðum að framleiða slíkan áburð kalkblandaðan. Nú eru allar líkur til þess, sbr. þá reynslu, sem fengizt hefur af því, hvernig bændur hafa notað þrígildan áburð, þegar hann er fáanlegur, að slíkur áburður verði mjög mikið notaður, þegar hann er til. Og það er af þeirri einföldu ástæðu, að hann er ákaflega handhægur. Það er hægt að bera hann á óblandaðan, og hann er tiltölulega ódýr miðað við aðrar áburðartegundir. Og m.a. af þeim sökum. að það er alveg fyrirsjáanlegt, að þessi þrígildi, kalklausi áburður verður alltaf notaður mjög mikið, þá má fullyrða, að það er alveg útilokað, þó að framleiddur yrði kalkblandaður köfnunarefnisáburður í Gufunesi, að hann fullnægði einn kalkþörfinni. Það má segja, að það er raunverulega alveg útilokað, og þá þarf að íhuga aðrar leiðir til þess, að kölkun ræktunarlanda geti farið fram.

Nú er það vitað, og reynsla er fyrir því, að skeljasandur sá, sem dælt er upp úr Faxaflóa og notaður er til sementsgerðar, er kalkríkur, og hann er vel nothæfur til kölkunar ræktunarlanda eins og hann kemur upp úr sjónum. En það er víðar til skeljasandur með ströndum Íslands en við Faxaflóa. Og þó að það hafi ekki verið kannað. þá er mjög líklegt, að hann sé til að því marki t.d. við Suðausturlandið, Norðurland og á Vestfjörðum. að unnt sé að dæla honum þar upp á sama hátt og gert er hér við Faxaflóa. Þetta hefur ekki verið rannsakað. En það eru miklar líkur til þess. En þó að þessi okkar íslenzki skeljasandur sé kalkríkur og þess vegna nothæfur til áburðar, þá þarf mikið magn af honum, og það er þess vegna mikilsvert, að hægt sé að hafa aðgang að honum sem víðast um landið. Flutningar á skeljasandi á milli landshluta verða ákaflega dýrir, vegna þess hve mikið magn þarf af honum. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli, ef unnt reyndist að hafa þetta áburðarefni tiltækt víðar á landinu en bara við Faxaflóa, t.d. austan- og norðanlands og á Vestfjörðum. Það mætti sjálfsagt vel hugsa sér það, að sama skipið og nú aflar skeljasands fyrir Sementsverksmiðjuna á Akranesi gæti annazt það verkefni að dæla einnig upp sandi annars staðar og dæla honum á land, þar sem hentast þætti. Síðar væri hægt að flytja hann þaðan með miklu, miklu minni tilkostnaði en ef þarf að sjóflytja hann héðan sunnan frá Faxaflóa.

Flm. þessarar till. telja það nauðsynlegt og skynsamlegt að kanna sem fyrst möguleika á því að leysa þetta mál og athuga, hvar og með hverjum hætti væri hagkvæmast að afla skeljasands til kölkunar ræktunarlanda. Það er ótvírætt, að skemmdirnar í túnunum hafa valdið bændum gífurlegu tjóni, þar sem þær hafa varað árum saman og menn hafa misst töðufenginn ekki aðeins niður í helming, heldur jafnvel enn þá neðar miðað við meðaluppskeru áður. Eins og ég sagði áðan, leikur a.m.k. sterkur grunur á því, að kalkvöntun sé meðverkandi orsök þessara túnaskemmda, og þess vegna er enginn vafi á því, að það er mikið fyrir það gefandi, ef unnt reyndist að auðvelda og ýta undir það, að menn kalki lönd sín eins og tilraunir og athuganir sýna, að nauðsynlegt reynist.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.