20.12.1971
Efri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. minni hl. (Geir Hallgrímsson):

Herra forsetl. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég veit ekki, hvort hv. 9. þm. Reykv. finnst fsp. sinni hafa verið svarað með þeirri grg., sem hv. 4. þm. Norðurl. v. hafði hér yfir áðan, en ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég er litlu nær, og mér finnst fram koma af þeim svörum, sem hv. þm. gaf, að heldur hafi aðstandendur þessa frv. gert sér litla grein fyrir efni málsins.

Þær brtt., sem Nd. hefur gert við frv., eru að vísu sumar hverjar alla vega til bóta, en þær breyta ekki aðalatriðum málsins, þannig að afstaða okkar þm. Sjálfstfl. til málsins er óbreytt. Við erum andvígir þessari Framkvæmdastofnun ríkisins og erum sammála hv. 9. þm. Reykv., að þetta er ein ný silkihúfan í ríkisrekstrinum, og þó vildi ég raunar taka það fram og sterkar til orða, að hún er ekki eingöngu til skrauts, heldur er líklegt, að hún verði til mikils skaða.

Ég vildi aðeins, herra forseti, láta þetta koma fram um afstöðu okkar sjálfstæðismanna til frv., þegar það kemur hingað á ný til d. Í þeim breytingum, sem Nd. hefur gert, eru sum atriðin hin sömu og við reyndum að fá breytt hér í d., ýmist innan n. eða með brtt. hér í d., og hv. stuðningsmenn stjórnarinnar í d. tóku þá ekki í mál að breyta. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, að stjórnarsinnar hafa séð að sér í Nd. um sum atriðin, eins og t.d. breyt. á 6. gr., að gera hagrannsóknadeild að sjálfstæðri deild, er heyri beint undir ríkisstj. En þó er ekki um svo veigamiklar breytingar, eins og ég gat um áðan, að ræða, að meginefni frv. sé enn ekki svo andstætt stefnu okkar sjálfstæðismanna, að við getum ekki fylgt málinu fram, og við munum því greiða atkv. gegn því.