08.02.1972
Sameinað þing: 35. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3370)

16. mál, öflun skeljasands til áburðar

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Allshn. tók þetta mál til athugunar og var sammála um afgreiðslu þess. Till. hefur verið send Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Búnaðarfélagi Íslands til umsagnar. Á fundinum. sem málið var afgreitt á, var lögð fram umsögn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sem mælti með því, að till. yrði samþ., en ekki lá þá fyrir umsögn frá Búnaðarfélagi Íslands, en hún hefur eigi að síður komið fram, og þar er einnig mælt með samþykkt till.

Það er eðlilegt, að það sé gert, sem þessi till. ætlast til, að rannsakað verði, hvort hagkvæmt sé að vinna skeljasand til kölkunar túna. Það má kannske segja, að þetta sé síður nauðsynlegt, eftir að Áburðarverksmiðjan fer að framleiða blandaðan áburð og þá einnig með kalki, en talið er, að jafnvel þótt það komist í framkvæmd, sem verður, þá geti verið nauðsynlegt að afla skeljasands og kalka túnin meira en hægt er að gera með þessum áburði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta meira. Allshn. leggur til, að till. verði samþykkt.