09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (3377)

21. mál, landhelgismál

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég tel óþarft að halda langa ræðu um efni þessarar þáltill. um landhelgismálið, því að öll meginefni hennar hafa verið ítarlega rædd af hæstv. forsrh. og einnig af hæstv. sjútvrh. Ég vil þó fara örfáum orðum um nokkur atriði. Ég vil í fyrsta lagi lýsa yfir ánægju minni yfir því, að af hendi hv. stjórnarandstöðu er haldið svo á þessu máli, að það er einsætt, að þar er vilja að mæta til þess, að ágreiningur um meiri háttar atriði rísi ekki um málið, og veit ég, að það er byggt á þeim rökum, að rísi deilur innanlands á Íslandi um einhver meiri háttar atriði landhelgismálsins, þá gæti íslenzku þjóðinni orðið að því óbætanlegt tjón. Það væri það hrapalegasta, sem gerzt gæti í landhelgismálinu, ef andstæðingar okkar á erlendum vettvangi gætu sagt: Íslendingar eru ekki einhuga um þetta mál. Þeir eru í hárinu hver á öðrum út af því, rífast um það, og hvaða mark er þá takandi á þeirra afstöðu? Það sem öllu máli skiptir fyrir okkur í hinni tvísýnu glímu við mikið ofurefli í þessu máli, er það, að öllum sé ljóst, að þessar kröfur, sem uppi eru hafðar í landhelgismálinu af hendi íslenzku ríkisstj. nú, mundu vera kröfur Íslendinga á hverjum tíma, af hvaða ríkisstj. sem væri á Íslandi.

Hv. 1. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, vék að því, að hann harmaði enn, eins og hann hafði gert fyrir kosningar, að stjórnarflokkarnir núv., fyrrv. stjórnarandstöðuflokkar, hefðu fallið í þá freistni að gera landhelgismálið að kosningamáli. Ég álít, að þetta hljóti að vera á misskilningi byggt hjá hv. þm. Það var ekki hægt og var ekki verjandi fyrir þjóðinni, að leiða þetta höfuðmál allra mála, sem kosningarnar hlutu að meira eða minna leyti að snúast um og dómur þjóðarinnar í raun og veru að fjalla um á kjördegi, það var ekki hægt að leiða það hjá sér í kosningum. Um hvaða hégóma áttu menn þá að tala, stjórnarandstæðingar og stjórnarsinnar þáv., ef ekki um höfuðmál þjóðarinnar? Auðvitað varð að gera það upp, og kjósendur urðu að kveða upp sinn dóm um afstöðu þáv. stjórnar og stjórnarandstöðu í málinu. Það var það, sem gerðist, og það var alveg ástæðulaust að harma það.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, einnig að hann harmaði, að nú væri flutt alveg óbreytt efnislega sú till., sem stjórnarandstaðan stóð að og lagði fyrir þingið fyrir kosningar. Ég er ekki sammála honum um þetta. Ég tel, að það sé algerlega rökrétt og alveg sjálfsagt einmitt gagnvart íslenzkum kjósendum að leggja fram alveg óbreytta að meginefni þá till. um lausn landhelgismálsins, sem fékk hljómgrunn, fékk jákvæðan dóm hjá kjósendum í kosningunum. Það er einmitt skylda Alþ. að leggja málið fyrir í þeim sama búningi sem kjósendur á Íslandi dæmdu um málið. Hins vegar tel ég algjörlega sjálfsagt, sem hv. þm. vék einnig að, að þegar málið er nú í þessum búningi, þessum sjálfsagða búningi komið fyrir Alþ., þá sé ræðzt við um sérhver smærri atriði þess í þeim tveimur nefndum. sem um það geta eðlilega komið til með að fjalla, þ.e. landhelgisnefnd, sem skipuð er fulltrúum allra flokka, og e.t.v. einnig í utanrmn. Þar getum við deilt um allt, sem máli skiptir og okkur finnst ástæða til að deila um. Það gerist innan fjögurra veggja á Íslandi, á innlendum vettvangi, og þau ágreiningsatriði, sem þar verða rædd, þurfa ekki að koma á opinheran vettvang, ekki einu sinni í þingsali, því að annaðhvort hafa menn lagt til hliðar þau ágreiningsmál eða fundið á þeim sameiginlega lausn, þannig að merkið sé borið hátt og hiklaust fram eitt á erlendum vettvangi og einnig í heyranda hljóði á Alþingi.

Menn hafa hér rætt um það, hvort samningurinn við Breta og Þjóðverja sé uppsegjanlegur eða ekki, og allir eru nú á þeirri skoðun, að svo sé, hann sé uppsegjanlegur. En fyrir kosningar var a.m.k. í mörgum kjördæmum landsins ágreiningur milli stjórnarsinna þáv. og stjórnarandstæðinga um það, hvort hann væri uppsegjanlegur eða ekki, og svo mikið er víst, að kjósendur töldu það ekki öruggt, ekki víst, að þáv. stjórnarflokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., væru fáanlegir til uppsagnar á þessum samningi. Það lá ekki ljóst fyrir kjósendum. Þetta var í raun og veru annað meginatriðið, sem menn og flokka greindi á um fyrir kosningar. Hitt var það, að stjórnarflokkarnir þáv. gerðu það ekki ljóst í sínum málflutningi, að þeir vildu setja ákveðin tímamörk fyrir ákveðnum, hiklausum aðgerðum í landhelgismálinu. Þeir fóru nokkuð undan í flæmingi með það, og að þessu leyti er það staðreynd, að eins og stjórnarflokkarnir þáv. lögðu málið fyrir, var afstaða þeirra óljósari og óákveðnari um þessi tvö atriði, og það líkaði kjósendum greinilega miður. Það var þess vegna, sem menn tóku nokkuð almennt afstöðu í kosningunum. einmitt með tilliti til landhelgismálsins.

Þáv. stjórnarandstæðingar gerðu það alveg ljóst, að þeir vildu hafa komið málinu fram fyrir ákveðin tímamörk og settu alveg fram skýrar kröfur um það, hvaða mörk þeir vildu setja í málinu. Það hefur verið gert alveg ljóst, hvers vegna við eigum mikið á hættu með að draga aðgerðir okkar fram yfir alþjóðlegu hafréttarráðstefnuna. Það gæti svo farið, að 12 mílna fiskveiðilögsaga yrði ofan á, stórveldin bæru sigur úr býtum með þá stefnu, þó að það sé að vísu rétt, að það virðist eins og þau séu farin að slaka til á fyrri afstöðu sinni nú. En þó hygg ég, að stórveldin gefi hana ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Ég held því, að enn sem áður sé ekki á það hættandi fyrir Ísland að hafa ekki komið landhelgismálinu algerlega í höfn fyrir hafréttarráðstefnuna 1973. Ég held, að það hafi verið, eins og málið blasti við á s.l. vori, algjört óráð að eiga það á hættu. Það hygg ég, að hafi komið með í dóm kjósenda um þetta mál og að það sé enn óráð að bíða. Ég vil a.m.k. spyrja hv. 1. þm. Reykv. að því. Telur hann slíka breytingu hafa orðið á viðhorfum stórveldanna hvað þetta atriði snertir, að hann telji á það hættandi fyrir Ísland að bíða fram yfir hafréttarráðstefnuna 1973? (Gripið fram í.) Ekki um það, nei. Mér fannst rökstuðningurinn hníga að því, að hv. þm. teldi jafnvel á það hættandi. Má vera, að ég hafi ekki skilið hann rétt, og þá bið ég afsökunar á því.

Það er okkur lífsnauðsyn að tryggja það að svo miklu leyti sem við getum, að lokaafgreiðsla málsins dragist ekki. Fiskstofnarnir ganga til þurrðar, gjöreyðast hver á fætur öðrum, og það er rétt, sem einn af stærri útgerðarmönnum landsins spurði um í Morgunblaðinu fyrir nokkru: Eigum við að bíða eftir því, að þorskstofninn eyðist líka? Það er einmitt á þessum forsendum, sem við getum fótað okkur með uppsögn þessa samnings, er ekki hefur nein uppsagnarákvæði. Það eru gjörbreyttar forsendur frá því, sem var, þegar samningurinn var gerður, og að lífsnauðsyn þjóðar liggur við, að við séum ekki bundnir af ákvæðum þess samnings. Það er augljóst mál og mun vonandi fást viðurkennt af flestum þjóðum, að ef ákvæði alþjóðlegs samnings standa í vegi fyrir lífshagsmunum þjóðar, þá verði slíkar skuldbindingar samninga milli ríkja að víkja, einkanlega þegar allar meginforsendur hafa breytzt, frá því að samningur var gerður. Við hljótum því á þessum tvennum röksemdum að tilkynna, að við teljum okkur lausa af brezk-þýzka samningnum, og held ég; að varla sé hægt að finna traustari grundvöll undir þá afstöðu en þá sjálfsögðu röksemd.

Það er rétt, að það kom fram á síðustu dögum fyrir kosningar af hendi þáv. stjórnarflokka, að það væri máske rétt að gera meiri kröfur til stærðar landhelginnar en fælist í tiltögu þáv. stjórnarandstöðuflokka, sem gerði ráð fyrir að binda stærð landhelginnar við 50 sjómílur frá grunnlínupunkti. En þetta kom fram aðeins dagana fyrir kosningarnar, og það var þá, sem ég einmitt bauð meðframbjóðendum mínum á Vestfjörðum upp á það, að ég skyldi þá þegar í stað skrifa undir skuldbindingu ásamt þeim um að beita mér fyrir allt að 70 mílna landhelgi, ef þeir væru reiðubúnir til þess, — og þær mundu aldrei fara svo þessar kosningar, að þeir tveir úr liði fyrrv. stjórnarmeirihluta og ég úr þáv. minni hl. á Alþ„ ef við kæmumst inn á Alþ. eftir kosningar, að við gætum ekki ráðið úrslitum um það, — en þeir vildu ekki skrifa undir slíkt samkomulag í áheyrn þess fjölmenna fundar, sem við vorum þar staddir á. Ég held, að þetta hafi líka verið talið yfirboð á síðustu stundu af kjósendum og ekki verið tekið alvarlega, og ég er því miður hræddur um það nú, þegar málið hefur verið birt opinberlega og kröfur okkar túlkaðar á erlendum vettvangi við Breta og Þjóðverja og raunar um heim allan, að þá sé það nokkuð seint fram komið að breyta ákvæðunum um víðáttu landhelginnar. Þar held ég, að gildi hið sama og hjá þjóðkirkjunni forðum, þegar lýst var til hjónabands, að þá var skýrt fram tekið af klerkunum, að menn skyldu segja til í tíma, ef þeir vissu meinbugi á hinum fyrirhugaða ráðahag, en þegja síðan. Ég held, að það sé ákaflega erfitt fyrir okkur að koma með fyllri kröfur, eftir að við höfum lagt málið fyrir þær þjóðir, sem það snertir mest, og bæta þá kröfum við. A.m.k. hafa þær kröfur ekki blasað við í svo ákveðnu formi sem nú felst í till. Alþfl. sem breyting við till. stjórnarinnar. Það er líka staðreynd, að það er tvennt, sem mælir móti því að taka landgrunnskröfurnar inn í þetta mál. Í fyrsta lagi það, hversu óreglulega línu landgrunnið mótar. Það mundi vera ákaflega erfitt í framkvæmd að halda uppi landhelgisgæzlu, ef landgrunnslínan eftir ákveðinni dýptarlínu ætti að vera mörkin, en hitt vegur þó kannske þyngra og meira, að skilgreining landgrunns á alþjóðamælikvarða er nú nokkuð á reiki. Lengi töluðu þjóðir um, að 200 m dýptarlína væri mörk hafdýpis og landgrunns, og hálendi á landi hefur verið talið 200 m yfir sjó, en að því er snertir þessi mörk varðandi hafdýpi og landgrunn, virðast þjóðir nú vera með ýmiss konar skilgreiningar á því, og ég veit ekki, hversu sterkt það yrði hjá okkur að taka einir sér upp sérstaka skilgreiningu á landgrunnshugtakinu, áður en alþjóðlegri reglu væri þar slegið fastri um það atriði.

Ég skal ekki hafa miklu fleiri orð um þetta mál nú. Ég fagna þeim einhug, sem er um málið. Það er eins og sagt var einu sinni áður, „þagni dægurþras og rígur.“ Það var einmitt stórmál á ferðinni þá, og mér virðist þjóðar gæfa okkar vera sú, að þegar við ræðum um landhelgismálið, þó að okkur greini á um ýmis smærri atriði í því, þá er það afstaða íslenzkra stjórnmálaflokka nú, að mér virðist, að láta allt dægurþras og allan ríg þagna í sambandi við landhelgismálið. Ég vona a.m.k., að við berum til þess gæfu að standa svo að málinu, að það sé öllum ljóst, að sú stefna, sem við endanlega mörkum í því, sé stefna, sem öll íslenzka þjóðin standi að, sem sérhver ríkisstjórn á Íslandi mundi fylgja fram til hins ýtrasta.