20.12.1971
Efri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég sé nú, að það hafa orðið þó nokkrar breytingar á frv. í Nd., og sérstaklega er ég ánægður með breyt. í 6. gr., og ég vil undirstrika það, sem síðasti ræðumaður sagði, að við reyndum að fá þetta fram í n., en fengum þá ekki hljómgrunn fyrir því. Ég undirstrikaði það í ræðu minni, að hagrannsóknadeildin ætti að vera óháð og það yrði leitazt við, að störf hennar væru þannig, að báðir aðilar á vinnumarkaðinum hefðu traust á því, sem þaðan kæmi, þannig að það væru ekki sífellt deilur um það, hvort þetta væri rétt eða rangt eða litað um of frá annarri hliðinni. Það er mjög mikilsvert.

4. gr. kemur hér aftur. Ég lýsti strax andstöðu minni við það, sem þar kemur fram, og það er auðheyrt og er enn einu sinni undirstrikað, að margir stjórnarsinnar eru mjög á móti þessu fyrirkomulagi. Samt er það nú barið í gegn áfram. En það er alveg auðheyrt, að margir stjórnarsinnar eru mjög á móti þessu fyrirkomulagi að hafa þessa þrjá sérstöku fulltrúa. Og það var athyglisvert, sem kom fram áðan í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v., að hann taldi deildarstjórana raunverulega embættismenn, og þá lá í hlutarins eðli, að hinir væru ekki raunverulegir embættismenn, og er það enn undirstrikað, að þeir eru sérstakir útsendarar viðkomandi ríkisstj. Auðvitað verður þessu ákvæði þegar í stað breytt, ef ný ríkisstj. verður mynduð. Það verður hennar fyrsta verk að fella þessa gr. burtu, svo að hún er hreinn hortittur í frv., sem ég annars styð, og þeirri þróun, sem ég styð. Og ég harma það enn einu sinni, að þetta skuli vera látið fylgja með í frv.

Svo er annað atriði hérna, sem mér finnst óþarfi, að hafi verið sett. Það er 29. gr. En að tilstuðlan hv. 3. þm. Austf. var á sínum tíma komið inn þessum orðum í nál. okkar eða hreyt. við 29. gr.: „og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum.“ Þetta rökstuddi hann mjög vel í n., og okkur fannst sjálfsagt að taka þetta inn. En svo er nú eins og sagt er í vísunni: „Einn var að smíða ausutetur“, og þá bæta þeir við í Nd.:„og koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“ Ef byggðirnar eru nú svona lífvænlegar, eins og segir í grg., þarf þá að afla þeim jafnvel milljónatuga? Það var aldrei hugsun okkar, og það var ekki hugsun 3. þm. Austf. Hins vegar geta atvik legið þannig, að það sé sjálfsagt að hjálpa til, en það er þá á þeim stöðum, þar sem fólk vill vera. Endalaust er ekki hægt að pína fólk til að vera. Þá er þetta orðatiltæki, „að koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði“, hortittur að mínu mati, og mér finnst leiðinlegt að afgreiða svona hortitti í frv. og gera það að lögum. Það verð ég að segja.

Að öðru leyti skal ég ekki lengja þessar umr.