09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (3380)

21. mál, landhelgismál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. benti á það í ræðu sinni, að nauðsyn væri á þjóðareiningu um þetta mál og sem betur fer tel ég, að hann þurfi ekki þar undan neinu að kvarta, stjórnarandstaðan hefur ekki í neinu sýnt það, að hún vilji rjúfa þá samstöðu; sem er um málið í grundvallaratriðum.

Ég tel það ómaklegt, þegar hæstv. ráðh. fór að tala hér um úrtölumenn í sambandi við þetta mál. Ef hann á við þm. stjórnarandstöðuflokkanna, þá tel ég það mjög ómaklegt. Hitt er annað mál, að þm. stjórnarandstöðuflokkanna, sem stóðu að þeirri samþykkt, sem gerð var hér á s.l. vori og borin fram af þáv. ríkisstj., þeir hljóta að reyna að þoka málinu eins og það liggur nú fyrir í þá átt, sem þeir telja eðlilegast. Ég verð að segja, að ég get ekki talið það í neinu ósamræmi í reyndinni við upphaf eða formála þeirrar till. sem hér liggur fyrir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkv. viðurkenndum alþjóðareglum ber strandríkjum einkaréttur til nýtingar á auðæfum hafsbotnsins til endimarka landgrunnsins. Rétturinn til nýtingar á auðæfum hafsbotnsins og sjávarins yfir honum verður ekki aðskilinn.“

Þetta er nákvæmlega það, sem við viljum halda fram að eigi að gerast, að við eigum í einum áfanga að fara eftir því, sem nú er viðurkennt, og slaka þar í engu til, að eins og auðæfi hafsbotnsins fyrir landinu öllu séu viðurkennd eign strandríkja, þá eigum við einnig að halda okkur að því, að auðæfin í hafinu yfir landgrunninu séu einnig okkar eign og að við eigum einir þar yfir að ráða. Ég tel ekki, að við séum á nokkurn hátt með þessu móti að stofna til ófriðar eða óeiningar um málið, heldur viljum við stíga feti lengra en kemur fram í till. stjórnarinnar, og tel ég það ósköp eðlilegt og í fullu samræmi við það, sem við höfum áður haldið fram.

Hæstv. sjútvrh. taldi í sinni ræðu till. okkar ótímabæra og óheppilega og gæzlu í sambandi við landgrunnið óframkvæmanlega. Ég er honum þarna mjög ósammála. Í því kynningarriti, sem dreift hefur verið út og þar sem málstaður okkar er túlkaður, eru mjög greinargóð kort, bæði yfir fót landgrunnsins og einnig yfir landgrunnið, þar sem 400 m dýptarlínan er merkt inn á. Ég vil undirstrika það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það virðist eftir því korti, sem fyrir liggur, vera mjög auðvelt einmitt með því að setja fasta grunnlínupunkta að verja landgrunnið, þannig að það ætti ekki í neinu að vera til fyrirstöðu útfærslu, að ekki væri hægt að verja það, eins og hæstv. sjútvrh. vildi halda fram í sinni ræðu.

Í sambandi við þetta mál vil ég halda því fram, að því miður sé málstaður okkar nú túlkaður á miklu veikari grundvelli erlendis en þurft hefði að vera. Ég vitna til þess, sem ég sagði hér áðan um rétt strandríkja til landgrunnsins og þá um leið rétt strandríkja til auðæfanna yfir landgrunninu. Ég tel, að það hefði verið miklu sterkara, hefði málið í upphafi verið undirbúið t.d. af utanrmn., þar sem reynt hefði verið að ná samstöðu um það á einhverjum slíkum grundvelli og þannig farið með það á erlendan vettvang í stað þess að fara með það í því formi, sem gert er, og byggt þar á till. ríkisstj., þar sem aðeins er talað um 50 sjómílur. Ég held, að við séum að veikja okkur mjög í allri túlkun í sambandi við þetta mál á erlendum vettvangi, þar sem það liggur alveg ljóst fyrir, eins og margoft hefur verið sagt og bent á í till. ríkisstj., að þjóðirnar viðurkenna orðið landgrunnsbotninn sem yfirráðasvæði strandríkja. Því miður var þetta ekki gert, og ég fyrir mitt leyti harma það, af því að ég er sannfærður um það, að það veikir okkar málstað erlendis, en styrkir hann ekki.

Þá tel ég, eins og hv. 5, þm. Reykv. rakti í sinni ræðu, þegar hann gerði grein fyrir till. okkar í sambandi við landhelgismál og verndun fiskimiða, að það hefði verið mjög sterkt fyrir þá íslenzku fulltrúa, sem þurfa að túlka þetta mál við erlenda aðila, ef inn í þetta mál hefði einnig verið tekið það, sem þar er bent á, og þá sérstaklega í sambandi við friðunarsvæðin. Og ég segi það, að þetta er stærra málefni en svo, að það hefði aðeins komið að notum í sambandi við túlkun á málinu erlendis. Þetta er mjög stórt mál fyrir okkur sjálfa hér innanlands í sambandi við fiskveiðarnar. Ég er ekki viss um, að allir hv. þm. geri sér grein fyrir, í hvaða aðstöðu við erum að komast eða erum komnir í, í sambandi við þessi mál. Ég hygg, að flestum sé kunnugt um þær upplýsingar, sem fiskifræðingar okkar hafa látið okkur í té í sambandi við þann fisk, sem veiðist hér á vetrarvertíð við suður-, suðvestur- og vesturströndina, en þeir fiskstofnar, sem þangað sækja, koma til landsins úr tveimur áttum. Annars vegar er sá stofn, sem kemur frá Grænlandi, sækir vestur fyrir landið og gengur upp með landinu þar og suður fyrir það og austur með því, hins vegar er sá fiskstofn, sem elst upp fyrir Norður-, Norðaustur- og Austurlandi, sækir einnig suður fyrir landið og gengur allt vestur fyrir það. Að sjálfsögðu ráðum við ekki við uppeldisstöðvar þess fisks, sem elst upp við Grænland. Við höfum ekki aðstöðu til þess að hafa nein áhrif þar, nema þá að litlu leyti. Hins vegar er það okkar eigið mál og okkar eigið mat, hvernig við högum okkur í sambandi við uppeldisstöðvarnar við strendur landsins. Ég tel það orðið mjög tímabært, þar sem þarna er um það að ræða, hvort veiðar geti haldið áfram með eðlilegum hætti hér við land, þá tel ég orðið mjög tímabært, að þegar sé farið að huga að því og að það verði ekki látið dragast að gera viðunandi ráðstafanir til þess, að ekki geti verið um ofveiði eða rányrkju að ræða á þeim miðum fyrir Norður-, Norðaustur- og Austurlandi, þar sem ungfiskur elst upp. Ef okkur henti sú ógæfa að ganga of langt í veiðum á þessum stöðum, mundi það vissulega hefna sín um land allt, því að þetta er það, sem er undirstaða vetrarvertíðar hér annars staðar við landið.

Nákvæmlega það sama má segja um hrygningarstöðvarnar við suðurströndina. Mér er vel kunnugt um það, að margir sjómenn, sem veiðar stunda á þessu svæði, eru orðnir mjög uggandi yfir því, að verið sé að ganga of langt á stofninn í sambandi við netaveiðar á vetrarvertíð. Ég vil benda á það, að þegar á árinu 1957 gerði skipstjórafélagið í Vestmannaeyjum samþykkt um það, að tímabært væri orðið að friða tiltekin hrygningarsvæði, og var þá eingöngu um að ræða svæði, sem Vestmanneyingar veiddu einir á. Þessi samþykkt var send stjórnvöldum, en því miður áttu engar aðgerðir sér stað. Málið var síðan tekið upp hér á Alþ., að vísu samþ. í nokkuð breyttu formi, en engar aðgerðir hafa enn átt sér stað.

Ég rek þetta hér, vegna þess að ég tel, að þetta sé mjög samhangandi landhelgismálinu, bæði hvað okkur sjálfa snertir innanlands og einnig geti þetta orðið þýðingarmikið atriði í sambandi við túlkun málsins erlendis, að aðrar þjóðir, sem við viljum, að styðji okkar mál, sjái það, að við viljum í reynd forðast ofveiði bæði innan þess umráðasvæðis, sem við ráðum yfir, og einnig á því svæði. sem nú er verið að taka undir íslenzka fiskveiðilögsögu. Ég er sannfærður um, að það yrði mjög til styrktar málinu og túlkun þess erlendis, ef þetta væri einnig tekið með í sambandi við þá samþykkt, sem fyrir liggur að gera um útfærslu fiskveiðimarkanna.

Ég skal ekki tefja tímann meira en þetta, en ég vildi láta þessi sjónarmið koma hér fram. Ég vil ekki undir neinum kringumstæðum liggja undir því, að ég og aðrir, sem höfum sett fram okkar sjónarmið, sem ganga lengra en till. stjórnarinnar, að við séum úrtölumenn eða dragbítar á framgang málsins. Frá því að farið var að ræða það hér á Alþ., þá hefur alltaf verið samstaða um grundvallaratriði málsins, þó að okkur hafi nokkuð greint á um hin smærri atriði, og ég vona og er sannfærður um, að svo verður einnig nú.