09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (3383)

21. mál, landhelgismál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en áður en þeim er lokið, vil ég þakka talsmönnum stjórnarandstöðunnar undirtektir þeirra. Ég vil skilja þeirra ummæli á þann veg, að þeir hafi tekið undir og fallizt á þau meginmarkmið, sem sett eru fram í þessari þáltill., sem hér er til umr., þar sem stefna ríkisstj. er mörkuð. Ég gat a.m.k. ekki skilið hv. talsmann Alþfl. á annan veg en þann, að Alþfl. mundi verða algerlega með í þessu máli með því fráviki einu, sem hann tiltók, og ég vil skilja hv. 1. þm. Reykv. á sömu lund, þó að það sé rétt, að hann tæki ekki beina afstöðu til þess atriðis í þessari till., sem fjallar um uppsögn landhelgissamninganna. En hann tók heldur ekkert af í því efni. Þetta tel ég mjög mikils vert og tel rétt að telja það höfuðatriði þeirra umr., sem hér hafa farið fram, vegna þess að við skulum alveg gera okkur grein fyrir því, að það er rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það er fylgzt með þessum umr. og það er tekið eftir þeim, ekki aðeins hér á landi heldur og erlendis. Og eftir þetta geta önnur ríki ekki verið í vafa um það, að allir Íslendingar standa saman um meginlínuna í þessu mikla lífshagsmunamáli okkar. Og þetta er raunar þegar ljóst af því, sem fram hefur komið hjá hv. stjórnarandstæðingum, sem eðlilega hafa gert nokkrar aths. En þær aths. hafa þá einna helzt lotið að því, ef ég hef rétt skilið, að það væri eiginlega ekki gengið alveg nægilega langt í till. ríkisstj. Þeir vildu jafnvel ganga lengra, og þeir töldu sína till. um þetta efni ganga lengra, a.m.k. í sumum efnum. Nú fellst ég ekki á þessa túlkun, en hún sýnir þó ótvírætt viðhorf stjórnarandstæðinga til þessarar þáltill., sem hér er til umr. Eftir þetta geta engir utanlands gert sér neinar tálvonir um það, að koma muni til ágreinings á milli stjórnarliðs og stjórnarandstöðu í þessu máli. Og það mun ekki verða að vænta neinnar tilslökunar í því. Eins og ég sagði, þá tel ég þetta langsamlega mikilsverðasta atriðið, sem fram hefur komið í þessum umr., og þó að hér hafi komið fram nokkrar aths., sem gætu gefið mér tilefni til nokkurra andsvara, þá skal ég ekki fara langt út í það, því að ég tel, eins og ég tók rækilega fram í minni frumræðu, mjög mikilsvert, að það geti skapazt fullkomin samstaða um þetta mál. Og ég fyrir mitt leyti mun reyna að halda þannig á því, og ég þykist hafa gert það.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði að vísu, að það hefðu reynzt einhver vandkvæði á, hvernig samráð hefðu verið í landhelgisnefnd, og nefndi í því sambandi sérstaklega það, að þessi þáltill., sem hér er til umr., hefði fyrst verið sýnd þeim þrem dögum fyrir þingsetningu. Ég kannast nú ekki við, að það hafi verið nein vandkvæði á samstarfi og samráði í landhelgisnefnd, og ég vil a.m.k., að svo sé ekki, og þessi landhelgisnefnd mun starfa áfram, og hún mun fá þær skýrslur, sem gefnar verða t.d. af embættismönnum, sem taka þátt í viðræðunum, og hún mun verða kölluð saman öðru hvoru, þangað til ný landhelgisnefnd hefur þá tekið til starfa samkv. þeirri þáltill., sem hér hefur verið lögð fram og er nú til umr. og væntanlega verður síðar samþykkt. Og hverjum og einum í landhelgisnefnd jafnt stjórnarliðum sem stjórnarandstæðingum er hvenær sem er í lófa lagið að óska eftir fundi í landhelgisnefnd, og ég mun verða við slíkum tilmælum, ef eftir því er óskað og þeir telja ástæðu til. Hvað því viðvíkur, að þeir hafi fyrst séð þessa þáltill. þrem dögum fyrir þingbyrjun, þá er því til að svara, að það hefur aldrei farið dult af minni hálfu og aldrei farið dult í landhelgisnefnd, að leitað mundi verða staðfestingar Alþ. á því ákvæði í stjórnarsáttmálanum. sem lýtur að landhelgismálinu. Það var löngu vitað í landhelgisnefnd, að það mundi verða lögð fram þáltill. um þetta efni, og stjórnarandstæðingar í landhelgisnefnd óskuðu einmitt eftir því að fá að sjá þessa till., þegar frá henni hefði verið gengið, og við þeim tilmælum var orðið þremur dögum fyrir þingbyrjun, þá var þeim sýnd hún ásamt grg. Ég held þess vegna, að þeir hafi ekki neina ástæðu til að kvarta í þessu efni. Ég hef, eins og ég sagði áðan, alltaf lagt á það ríka áherzlu, að það væri höfð sem mest samstaða í landhelgismálinu og það væri mikil nauðsyn, að það væri höfð samstaða. Ég ritaði um það sérstaklega í minni síðustu áramótagrein, hvílík nauðsyn það væri, að samstaða myndaðist um þetta mál, en þá undirstrikaði ég það og sagði alveg sérstaklega, að menn yrðu að gera sér það ljóst, að það geti aldrei orðið samstaða um að gera ekki neitt, og það var það, sem strandaði á s.l. vor, að till. hæstv. ríkisstj. þá var með þeim hætti, að við töldum, að þar væri svo margt óákveðið og svo margir lausir endar, að það væri ekki hægt að fallast á hana og það gæti ekki orðið samstaða um hana af þeim ástæðum.

Þar var m.a. talað um það, að landhelgisnefndinni, sem kosin var af Alþ., ætti að fela skilgreiningu á landgrunni Íslands miðað við sem næst, eins og segir í till., með leyfi forseta: „400 m jafndýpislínu, möguleg hagnýtingarmörk eða 50 mílur eða meira frá grunnlínum umhverfis landið, eftir því sem frekari rannsóknir segja til um, að hagstæðast þyki.“ Þetta er nú nokkuð mikið ef og eða. En það skal ég ekki fara að rifja hér upp frekar. Samt sem áður vekur það náttúrlega nokkra undrun manns, að þeir, sem að þessari till. stóðu, skuli nú hafa áttað sig og geta sagt þetta allt með ákveðnari orðum í þeirri till., sem þeir hafa nú flutt á Alþ., þar sem þeir slá því föstu, að ytri mörk landgrunnsins skuli vera 400 m jafndýpislína.

Hv. 1. þm. Reykv. óskaði eftir skýringu á þeim orðum, sem ég lét falla á þá lund, að þeir, sem nú færu að hengja sig í aukaatriði í sambandi við þetta mál og stofna þannig til ágreinings, gengju erinda úrtölumanna. Ég held, að þessi ummæli þurfi út af fyrir sig ekki neinnar skýringar við. Ég lít svo á, að eftir að stefnan hefur verið mörkuð í þessu máli og menn eru sammála um þá meginlínu, sem þar er um að tefla, þá sé það óvinafagnaður, að menn fari að deila um aukaatriði, sem geta verið fullkomið álitamál og ég held, að þeir, sem það færu að gera, þjóni alveg sama tilgangi og úrtölumenn í þessu máli. En til þess að koma í veg fyrir misskilning, þá skal ég taka það skýrt fram, að í þessum ummælum mínum átti ekki að felast og fólst ekki aðdróttun til eins eða neins utan þings eða innan. Þau voru mælt sem aðvörunarorð, sem ég vona, að menn hugleiði.

Það hefur aðeins komið fram hér, að menn hafa látið í ljós undrun yfir því, að till. okkar nú skuli vera samhljóða þeirri þáltill., sem við fluttum á síðasta Alþ. Þessu hefur nú raunar þegar verið svarað, svo að ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum, en ég held, að menn hljóti að átta sig á því, þegar þeir hugleiða þetta, að það hefðu beinlínis verið svik af okkar hálfu, ef við hefðum ekki lagt málið fyrir Alþ. í þeirri sömu mynd sem við lögðum það fyrir kjósendur, þeirri sömu mynd sem við túlkuðum það fyrir kjósendum. Við teljum, að kjósendur hafi alveg sérstaklega falið okkur umboð til þess að vinna að málinu á þeim grundvelli. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um það.

Það voru nokkur atriði í ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem ástæða var til að gera aths. við, en þær hafa raunar þegar verið gerðar af hæstv. sjútvrh., þannig að ég skal ekki endurtaka það, en ég vil þó aðeins almennt segja það, sem ég sagði reyndar skýrt í minni frumræðu, að stefna ríkisstj. og þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, er byggð á landgrunnsstefnunni. Ég lít svo á, og ég túlka landgrunnslögin frá 1948 svo, að þá hafi Íslendingar í raun og veru lýst yfir yfirráðarétti sínum á öllu landgrunninu, enda þótt þeir svo smám saman taki í verki undir sína fiskveiðilögsögu ákveðna hluta af þessu landgrunni. Hv. þm. spurði í því sambandi: Hvers vegna eru 50 sjómílur nefndar nú? Ja, hvers vegna voru 4 sjómílur nefndar á sínum tíma? Hvers vegna voru 12 sjómílur teknar á sínum tíma? Þannig má alveg eins spyrja. Þetta hefur verið gert í áföngum, og þetta hefur verið gert samkvæmt og í samræmi við og með skírskotun til landgrunnslaganna. Og stefnan nú hefur í þessum áfanga verið mörkuð þannig, að við bindum okkur við 50 sjómílur, en áreiðanlegt er það, að ef í tæka tíð, t.d. s.l. vor, hefði verið leitað samstarfs og samráðs við okkur um það að fara lengra en í 50 sjómílur, þá efast ég ekki um, að samkomulag hefði getað orðið um það atriði. En það var þá ekki fyrir hendi, þá voru hv. stjórnarandstæðingar, sem nú eru, ekki reiðubúnir til þess að segja neitt ákveðið í þessu efni, eins og það upphafsákvæði í þáltill. þeirra, sem samþ. var og ég las upp áðan, gefur greinilega til kynna.

Við byggjum á landgrunnskenningunni, og þess vegna hefur einmitt verið í okkar málflutningi og er í okkar málflutningi lögð áherzla á, að það sé eðlilegt, að saman fari rétturinn til auðæfa á og í botni landgrunnsins og náttúruauðlinda, sem eru í hafinu fyrir ofan landgrunnið. Og ég held, að það sé ekki rétt, að okkar málstaður hafi verið túlkaður á veikari grundvelli en þurft hefði að vera, en það kom fram hjá hv. 3. þm. Sunnl., að hann teldi, að svo væri og átt hefði að leggja höfuðáherzlu á þetta atriði og það eitt, að mér skildist, hefði átt að duga í þessu sambandi. En ég verð nú að segja það, að ef það hefði verið ráðandi stefna hjá fyrri ríkisstj., þá hefði verið eðlilegt, að þetta sjónarmið hefði komið fyrr fram og þá t.d. í sambandi við setningu landgrunnslaganna 1969, þar sem Íslendingar helguðu sér botninn á landgrunninu. Og ef þá hefði verið ríkjandi þetta sjónarmið, sem mér virtist vera hjá þm. og hann taldi, að nú ætti að leggja höfuðáherzlu á, þá hefði vissulega átt að stíga skrefið þá og taka fiskimiðin með, en það var ekki gert. Hitt er rétt, að þetta á að vera mjög sterkur þáttur í málflutningi okkar, og hann er það, því að ég er alveg sammála þeim rökum, sem hafa komið fram um það, að auðvitað er eðlilegt, að þetta tvennt fari saman, og ég hef líka þá trú, að það hljóti að koma að því, að regla í þessa átt verði viðurkennd alþjóðaregla.

Það má auðvitað segja, að alltaf geti eitthvað orkað tvímælis. Eins og ég sagði áðan, geta sum atriði í sambandi við þetta mál verið álitamál. Ég segi það t.d. að út af fyrir sig er gildistökudagurinn 1. sept. 1972, eins og einhver sagði áðan, út af fyrir sig er hann ekki neinn heilagur dómur. Það hefði svo sem mátt nefna einhvern annan dag. En þessi dagur var nefndur, og hann hefur verið ákveðinn, og það er á engan hátt óeðlilegt að miða við hann, þó að aðalatriðið væri auðvitað það, að örugglega væri frá þessu öllu gengið, áður en hafréttarráðstefnan væri haldin. En þegar hann hefur verið ákveðinn, þá er rétt og heppilegast að halda sig við hann, og það getur aldrei gert þessu máli gagn að fara nú að fitja upp á öðru í því efni. Og þess vegna verð ég að segja það, að ég er hissa á því ákvæði, sem er í þáltill. þeirri, sem sjálfstæðismenn hafa hér lagt fram, sem er á þá lund, að gildistökudagurinn skuli ekki ákveðinn, heldur skuli þetta yfirstandandi Alþ. síðar ákveða hann. Þetta finnst mér nú vægast sagt vera dálítil krókaleið. Eru menn ekki búnir að átta sig á því nú, og eru menn virkilega ekki tilbúnir til þess að ákveða og nefna tiltekinn dag í þessu sambandi? Hvers vegna á að fresta þessu? Í þessari sömu þáltill. er þó önnur dagsetning, 1. marz, og þá er gert ráð fyrir, að þann dag megi ákveða vissar aðgerðir. Nei, ég held, að um svona atriði eigum við einmitt ekki að deila nú.

Hér hefur talsvert verið talað um friðunaraðgerðir, og ég tel sjálfsagt að gefa því gaum út af fyrir sig. Við þurfum sjálfsagt að huga mjög vel að friðunaraðgerðum. En eins og hér hefur verið sýnt fram á, er það ekki á valdi okkar Íslendinga að ákveða einhliða um friðunar eða verndaraðgerðir utan fiskveiðimarkanna, þó að á landgrunninu sé. Til þess þarf samkomulag og samning við aðrar þjóðir. Það hefur verið reynt að ná samstöðu um það efni. Það hefur ekki tekizt. En þegar við höfum ákveðið að færa fiskveiðimörkin út og þegar það hefur komið til framkvæmda, þá er það á okkar valdi að ákveða þær friðunaraðgerðir og þær verndaraðgerðir innan fiskveiðimarkanna, sem við teljum eðlilegar og nauðsynlegar. En útfærsla fiskveiðimarkanna er einmitt óhjákvæmileg forsenda fyrir því, að við getum gripið til friðunaraðgerða á þessu svæði. Þess vegna er það í raun og veru og getur ekki orðið annað en fróm ósk að samþykkja till. um friðunaraðgerðir utan fiskveiðimarka. Og þess vegna var það ekki heldur og er ekki heldur annað en fróm ósk, sem felst í þeirri þáltill., sem samþ. var á síðasta Alþ., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Alþingi felur ríkisstj. að undirbúa nú þegar friðunaraðgerðir fyrir öllum veiðum til verndar ungfiski á landgrunnssvæðinu utan 12 mílna markanna, þar sem viðurkennt er, að um helztu uppeldisstöðvar ungfisks sé að ræða.“

Þessi þáltill. var samþ. á Alþ. 7. apríl s.l., en fyrrv. stjórn sat að völdum til 14. júlí. Mér er ekki kunnugt um það, hverjar ráðstafanir hún hefur gert til þess að framkvæma þá fyrirskipun, sem felst í þessari þál. Það er ekki heldur ætlazt til þess, að hún hafi gert neinar ráðstafanir í þá átt, af því að það var ekki á hennar valdi nema með þeim hætti, sem reglur eru til um og hæstv. sjútvrh. vék að hér áðan.

Ég skal nú, herra forseti, ekki fara lengra út í þetta. Þó að sitthvað fleira hafi komið fram í þessum umr., þá skal ég ekkert vera að elta ólar við það. Ég met hitt svo miklu meira, að það er kominn fram í þessum umr. sá samstarfsvilji, sem er okkur mjög mikils virði.

Ég ætla ekki hér að fara að gefa neinar yfirlýsingar um það, hvernig ég met stöðuna á alþjóðavettvangi í dag, fremur en kom fram í minni frumræðu. Að því vék hv. 1. þm. Reykv. En hitt vil ég segja, að þrátt fyrir alla bjartsýni veitir okkur áreiðanlega ekki af að standa saman í þessu máli.

Áður en ég lýk máli mínu, verð ég aðeins að minnast á ummæli hv. þm. Jóns Árnasonar, 2. þm. Vesturl., sem mér voru algerlega óskiljanleg. Hann lét að því liggja, að ég hefði í framsöguræðu minni minnzt á þá þáltill., sem fyrir liggur á þskj. 56. Ég minntist ekki einu einasta orði á þessa þáltill., hvorki sem yfirboð, undirboð eða neitt annað, og ég ætla ekki að tala um hana frekar. Hún er ekki á dagskrá hér. Ég vil þó segja það, að ég vil líta á þá till. þannig, að hún loki út af fyrir sig ekki leiðum til samstarfs í þessu máli. En hún verður sjálfsagt rædd á sínum tíma, og henni verður vísað til utanrmn., og þá mun utanrmn. að sjálfsögðu um hana fjalla. En þetta hlýtur að hafa byggzt á einhverri misheyrn hjá hv. þm., að hann hafði þessi ummæli eftir mér.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. en vil enn á ný endurtaka það, að ég er yfirleitt þakklátur talsmönnum stjórnarandstöðunnar fyrir þeirra undirtektir, og ég er sannfærður um, að eftir því verður tekið á erlendum vettvangi, að það liggur eftir þetta alveg ljóst fyrir, að það er full samstaða og eining á meðal Íslendinga um meginstefnuna í þessu máli og það verður ekki hvikað frá útfærslu. Það er það atriði, sem mestu skiptir, og það er þýðingarmikið fyrir okkur Íslendinga að standa algerlega saman um þetta mál. Og þá er ég sannfærður um það, að við vinnum sigur í þessu máli, en við skulum ekki gera okkur neinar gyllivonir um það, að sá sigur verði auðunninn.