09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3384)

21. mál, landhelgismál

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Allir hv. alþm„ sem hér hafa rætt í dag um þetta mikla mál málanna, hafa lagt ríka áherzlu á nauðsyn algerrar samstöðu og þjóðareiningar um lausn þess. Benda þessar yfirlýsingar eindregið í þá átt, að allir séu sammála í meginatriðum. Þetta er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni og spáir góðu. Takmarkið í þessum efnum er landgrunnið allt. Þessi stefna var mörkuð með landgrunnslögunum frá 1948, eins og oft hefur verið tekið fram. Þennan rétt Íslendinga er auðvelt að rökstyðja, en hitt er erfiðara, að afla honum alþjóðaviðurkenningar. Bent hefur verið á rétt strandríkis til hafsbotns undan ströndum þess, en sá réttur hefur þróazt ört á undanförnum árum og notið vaxandi viðurkenningar. En í raun og veru hefur Ísland sérstöðu fram yfir flest eða öll strandríki, eins og hæstv. forsrh. benti á. Það er eyland, og sérstaða eyríkis í miðju úthafi á norðurhjara heims er einstök í veröldinni. Að mínum dómi er því síður en svo óeðlilegt, að við Íslendingar færum óvenjuleg og veigamikil rök fyrir okkar málstað. Ég á þar við hin ljósu rök, sem nefnd hafa verið, hin efnahagslegu, líffræðilegu og sögulegu, til að helga okkur og hagnýta landgrunnið allt í stað þess að heyja langa og stranga baráttu fyrir 50 mílna áfangamörkum, sem nánast eru sett af tilviljun, að því er bezt verður séð. Þegar þar við bætist, að rök þau, sem skírskota til landgrunnsins alls,—þ.e. fram á brún þess stöpuls, sem landið hvílir á, — virðast ná mun betur eyrum og áhuga þeirra þjóða, sem mestu máli skiptir að viðurkenni rétt okkar, þykir mér einsýnt, að þegar beri að stefna að markinu og stíga skrefið til fulls. Enn er þess að geta, að verði aðeins miðað við 50 sjómílur, lendir stór skák af landgrunninu utan þeirra marka fyrir svo að segja gjörvöllu Vesturlandi. Er það uggvekjandi staðreynd fyrir sjómenn vestanlands, sem þarna geta lent í erfiðri aðstöðu fram yfir aðra landsmenn, svo sem auðséð má verða að athuguðu máli.

Það má vel vera, að við glötum engum rétti, þó að við teygjum okkur ekki nú til endimarka landgrunnsins. En reynslan hefur sýnt, að barátta þessi er það erfið, að hún hefur einungis verið háð með löngum hvíldum. Átakanlegasta dæmið er það, að ákvæði gamla samningsins frá 1901 skyldu standa óhreyfð allar götur fram á fimmta tug aldarinnar eða þar til Ólafur Thors lét taka málið upp í tíð nýsköpunarstjórnarinnar, en í framhaldi af þeirri ákvörðun urðu til hin margumræddu lög frá 1948 um vísindalega verndun landgrunnsins.

Hæstv. sjútvrh. sagði um till. sjálfstæðismanna á þskj. 56, að hún væri „ótímabær og óheppileg“. Þessu er mótmælt með vísun til þess, sem ég hef nú vikið að. Enn fremur sagði hann, að gæzla samkv. þeirri till. yrði óframkvæmanleg. Annað hafa sjómenn sagt í minni áheyrn. Hann sagði enn fremur: „Okkar sterkasta vopn er samstaða okkar allra, sterkari en öll erlend herskip.“ Og hæstv. félmrh. fagnaði einhug þeim, sem ríkti um málið, og tók sér í munn orð skáldsins: „Þagni dægurþras og rígur.“ Þessi ummæli verð ég að telja, að viti á gott. Ég vona, að þau megi skilja á þann veg, að hv. stuðningsmenn ríkisstj. muni leggja fram alla krafta sína ásamt stjórnarandstæðingum til að ná fullri samstöðu í nefndum þeim, sem þetta mál verður falið til umönnunar og afgreiðslu á komandi dögum.