09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (3385)

21. mál, landhelgismál

Guðlangur Gíslason:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. vegna afstöðu hæstv. sjútvrh. varðandi 2. og 3. lið í till. sjálfstæðismanna á þskj. 56. Ég verð að segja, að mér kom afstaða hans í sambandi við þessa tvo liði mjög á óvart og verð að harma það, ef hann er nú allt í einu kominn á þá skoðun, að ekkert megi gera til friðunar nema fyrir liggi álit og samþykki fiskifræðinga, hvort heldur er innlendra eða erlendra. Ég er alveg sannfærður um, að hæstv. ráðh. er það mjög vel kunnugt, að álit sjómanna og útgerðarmanna, sem veiðar stunda á hrygningarsvæðunum hér sunnanlands, stangast mjög á við álit fiskifræðinga í þessu sambandi. Ég gat þess í fyrri ræðu minni í kvöld, að maður yrði þess greinilega var, að margir þessara manna, sem lengsta og mesta reynslu hefðu í þessum efnum, væru orðnir uggandi yfir því, að við værum komnir þar út í rányrkju, sem gæti leitt til þess, að fiskimiðin hreinlega eyddust miklu fyrr en við kannske gerðum okkur grein fyrir. Ég tel þetta mjög mikið alvörumál fyrir okkur og harma því, að hæstv. sjútvrh. skuli nú allt í einu mér að óvörum hafa tekið þá afstöðu, að þarna megi ekkert gera nema fiskifræðingar hafi áður lagt blessun sína yfir það.

Ég vil geta þess, að í sambandi við þá till., sem ég flutti hér 1961 um friðun tiltekinna hrygningarsvæða á Selvogsbanka, við Vestmannaeyjar, var leitað álits fiskifræðinganna. Því miður varð álit þeirra til þess, að till. þessi náði ekki fram að ganga í þeirri mynd, sem ég ætlaðist til. En með leyfi forseta vil ég lesa upp og kynna þingheimi það álit, sem þá var gefið af hendi þessara aðila um þetta mál. Segir svo í bréfi frá þeim. sem dags. er 30. janúar 1962:

„Mjög yfirgripsmiklar rannsóknir okkar undanfarin ár hafa leitt í ljós, að heildardánartala í íslenzkum þorskstofnum, sem kynþroska eru orðnir, er um 60% á ári, og eru 4/5 hlutar þessarar tölu af völdum veiðanna, en 1/5 eðlilegar dánarorsakir. Af þessu getum við dregið þá ályktun, að ekki veiðist á hrygningarsvæðunum meira en helmingur þess fisks, sem þangað kemur til þess að hrygna. Það virðist því vera svo, að helmingur stofnsins fái að hrygna í friði, auk þeirra, sem veiðast, en hafa þá lokið hrygningu.“

Ég er alveg sannfærður um það, að eins og þessi niðurstaða fiskifræðinganna stangaðist á við álit þeirra manna, sem þessar veiðar stunduðu á þeim tíma, þá stangast þetta álit þeirra í dag enn frekar við álit þessara sömu aðila. Og þegar sagt er í þessu áliti, að helmingur stofnsins fái að hrygna í friði á svæðinu milli Vestmannaeyja og Selvogsbanka, þá getur hver einasti aðili, sem nokkuð þekkir til þessara mála, sagt sér það sjálfur, að þetta fær ekki staðizt. Eins og nú er komið, eru þarna lagðar sennilega um a.m.k. 200 netatrossur á til þess að gera mjög afmörkuðu svæði beint ofan í hrygningu þorsksins. Tæknin er orðin það mikil, að bátarnir fylgjast með því dag frá degi, hvernig fiskurinn hagar sér á veiðisvæðunum, og þegar hann byrjar að þjappa sér saman til hrygningar, þá er dembt yfir hann öllu netagumsinu, og þetta er það, sem fiskifræðingar kalla, að fiskurinn fái að hrygna í friði. Ég vonast til þess, að hæstv. sjútvrh. endurskoði þessa afstöðu sína og a.m.k. leiti álits þeirra manna, sem hann trúir og veit að hafa mjög mikla og langa reynslu í sambandi við þessar veiðar.

Þá verð ég að segja það í sambandi við afstöðu sjútvrh. til friðunarsvæða á uppeldisstöðvum ungfisks, að mér kom einnig mjög á óvart, að hann telur, að þarna getum við ekkert gert nema fyrir liggi samþykki erlendra fiskifræðinga. Ég stóð satt að segja í þeirri meiningu, að Íslendingar hefðu þarna fulla heimild, og ég byggi það á 1. gr. laga frá 1948 um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. 1. gr. þessara laga hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Sjútvrn. skal með reglugerð ákvarða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skulu háðar íslenzkum lögum og eftirliti, enda verði friðun á landgrunninu á engan hátt rýrð frá því, sem verið hefur. Rn. skal einnig ákvarða allar þær reglur, sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á ofangreindum svæðum. Ráðstafanir þessar skulu gerðar að fengnum tillögum Fiskifélags Íslands og Atvinnudeildar Háskóla Íslands. Reglugerðin skal endurskoðuð eftir því, sem vísindalegar rannsóknir gefa tilefni til.“

Þetta er 1. gr. landgrunnslaganna og ég hef alltaf skilið hana þannig, að Íslendingar gætu einhliða gert þær verndarráðstafanir, sem þessi grein laganna fjallar um. Og ég held, að ég fari þar með rétt mál, að fulltrúi okkar í Norðaustur-Atlantshafsnefndinni hafi lagt til, að þarna ættu sér stað friðunarráðstafanir, en ekki fengið um það samstöðu eða meiri hl. í nefndinni og þess vegna hafi ekki verið gerðar ráðstafanir í þessu sambandi, þó að ekki verði séð annað en landgrunnslögin heimili þetta. Ef það er rétt hjá mér, að þessi grein heimili þessar ráðstafanir, þá er ósköp eðlilegt, að í till. sé tiltekinn mánaðardagur, hvenær það skuli gert. Þó er þar einnig gert ráð fyrir, að leitað skuli álits Hafrannsóknastofnunar Íslands í þessu sambandi.