09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (3386)

21. mál, landhelgismál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það var í sambandi við ummæli hv. 3. þm. Sunnl., sem nú var að ljúka máli sínu. Hann virtist vera hryggur yfir þeirri afstöðu, sem fram hefði komið hjá mér í sambandi við tvo nefnda liði í þeirri till., sem sjálfstæðismenn flytja hér um landhelgismál. en báðir fjalla þessir liðir um fiskverndun. Ég benti á það hér, að það væri ekki hægt að lýsa yfir slíkri fiskvernd eins og þar væri gert ráð fyrir, nema fyrst væri leitað umsagnar ákveðinna stofnana, sem yrðu Hafrannsóknastofnunin og Fiskifélag Íslands. Það kom nú að því, þegar hv. þm. fór að lesa þessi lög, þá auðvitað las hann það upp líka, að þessu er svona farið, því að það er í sjálfu sér út í hött að setja það inn í þáltill., að einhver tiltekin friðunaraðgerð skuli gerð fyrir tiltekinn mánaðardag, því að það verður a.m.k. að ganga þá eðlilegu leið, sem lög mæla fyrir um. Ég hygg líka, að það séu allir ásáttir um, að það sé vægast sagt hæpið af okkur að ætla að grípa til víðtækra friðunarráðstafana, að ég tali nú ekki um fyrir utan okkar landhelgismörk, ef þær ráðstafanir byggjast ekki á till. okkar fiskifræðinga.

Í rauninni eru þessir tveir liðir í till. þeirra sjálfstæðismannanna um mjög mismunandi atriði. Annar þeirra fjallar um friðun á hrygningarstöðvum, þ.e. innan núverandi marka. Og það var helzt að heyra á hv. þm., að hann vildi framkvæma ákveðnar friðunaraðgerðir þrátt fyrir umsögn fiskifræðinga. Það er auðvitað mál út af fyrir sig, hvort á að taka það upp og hvort á að ganga gegn okkar fiskifræðingum í sambandi við ákveðnar friðunaraðgerðir. En heldur kann ég illa við það, að slík mál séu lögð fram svona í tillöguformi, eins og þarna er gert, og gengið út frá því, að slíkar framkvæmdir séu gerðar á tilteknum mánaðardegi og það með tiltölulega litlum fyrirvara. Og mér sýnist, að slíkur tillöguflutningur sé nú heldur flaumósa.

Hinn liðurinn fjallar hins vegar um friðunaraðgerðir utan núv. fiskveiðimarka okkar. Það er eflaust hægt fyrir okkur Íslendinga að lýsa yfir friðun utan núv. fiskveiðimarka með einhliða tilkynningu. En þá yrði þar alveg augljóslega, þegar þeir, sem hér eiga hlut að máli, geta ekki fallizt á okkar aðgerðir, um venjuleg landhelgisátök að ræða, og ég tel næsta furðulegt að ætla að fara út í landhelgisátök út af slíku máli á aðeins takmörkuðu svæði og það svona rétt í kapphlaupi við það, að við værum að ákveða almenna útfærslu á okkar fiskveiðimörkum.

Það, sem fyrir liggur í þessu máli, er það, sem ég greindi frá hér áður. Við Íslendingar höfum farið að lögum og reglum í þessum efnum. Við höfum flutt okkar till. um friðun á tilteknum veiðisvæðum fyrir utan okkar tilkynntu veiðimörk. Þessar till. hafa ekki náð fram að ganga. Við höfum barizt fyrir þeim ár eftir ár, og ráðstafanir nú í þá átt, að Íslendingar einir neituðu sér um að veiða á þessum svæðum, en fiskveiðar annarra gætu farið þarna fram, tel ég vægast sagt hæpnar, og þær mundu harla lítið hjálpa okkur í landhelgismálinu. Eða hversu mikið hefur það hjálpað okkur í landhelgismálinu, að við höfum flutt till. um þetta efni og barizt fyrir því og aðrir hafa fellt þær till.?

Eins og ég sagði, þá er auðvitað hægt að lýsa yfir einhliða ráðstöfunum eftir mörgum leiðum. En það er hins vegar greinilega gert ráð fyrir því í alþjóðasamþykkt varðandi þessi mál að friðunaraðgerðir, sem eiga sér stað utan yfirlýstra landhelgismarka, eigi að framkvæma eftir þar til settum reglum. Við höfum farið eftir þeim reglum.

Mér þótti rétt, að þetta kæmi fram, en sé svo ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr. frekar en orðið er.