09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3388)

21. mál, landhelgismál

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir ummæli hans hér áðan. Hann tók það fram í sambandi við till. okkar á þskj. 56, að hann teldi, að hún lokaði engum samkomulagsmöguleikum, og taldi eðlilegt, að það, sem í henni felst, væri rætt nánar, og að sjálfsögðu tekur utanrmn. það til meðferðar. En slík ummæli hæstv. forsrh„ sem ég sem sagt met mikils og þakka, sýna hans einlæga áhuga á að ná samstöðu í þessu máli.

Eftir þessa yfirlýsingu vekur það óneitanlega furðu, að annar ráðh„ hæstv. sjútvrh., skuli tala hér á þá lund, sem hann gerir. Hann mælir á móti svo að segja hverju einasta atriði í till. okkar á þskj. 56, og þetta er þeim mun undarlegra, þar sem þessi hæstv. ráðh. hefur áður talið sig einstakan landhelgiskappa og þann mann, sem vildi ganga lengst í öllum kröfum í þeim málum, sem hefur haldið því fram, að útfærsla landhelginnar væri mál okkar Íslendinga einna og það væri stjórnmálaleg ákvörðun. Nú rís hann hér upp og talar oftar en einu sinni til þess að andmæla því harðlega, að farið sé lengra út en 50 mílur. Ja, öðruvísi mér áður brá, þegar hann hefur þótzt hafa og bera fyrir brjósti ýtrustu kröfur í landhelgismálinu. Nú vill hann hverfa frá landgrunnsstefnunni, það á að skilja eftir þýðingarmikil fiskimið utan við 50 mílurnar t.d. fyrir Vesturlandi og Vestfjörðum. Hæstv. ráðh. gerist helzti talsmaður þess hér nú að ganga skemmra. Í öðru lagi andmælir hann till. okkar um friðun eða verndun hrygningarstöðvanna, það sé ekkert hægt að gera í þessu, nema fiskifræðingarnir samþykki. Nú ber ég hina mestu virðingu fyrir vísindamönnum og fiskifræðingum og vil styðja þá á alla lund. En við verðum að gera okkur grein fyrir því, að það er eðli rannsóknanna og vísindanna, að það tekur oft mjög langan tíma að komast að niðurstöðu og sannir vísindamenn vilja ógjarnan fullyrða t.d. um það, hvort tilteknir fiskstofnar séu í hættu. Þess vegna verða stjórnmálamennirnir oft að taka ákvarðanir til verndar, áður en fyrir liggja endanlegar till. og álitsgerðir vísindamannanna, og þess vegna verður oft að byggja slíkar ákvarðanir á áliti og till. sjómanna, fiskimanna, sem þekkja þetta manna bezt af eigin raun. Við vitum það líka, að nú á síðasta Alþ. voru samþ. hér lög um friðun Faxaflóa fyrir dragnót, botnvörpu innan vissrar línu, fyrst og fremst til að vernda ungfiskinn, ýsuna. Þetta var ekki gert eftir till. fiskifræðinganna, þeir voru ekki tilbúnir til þess að mæla með þessu. Ég ætla jafnvel, að þeir hafi verið því andvígir á þessu stigi. Nú kemur hæstv. sjútvrh. og mótmælir því, að nokkuð sé að hafzt í þessu bráðaðkallandi máli, vegna þess að fiskifræðingarnir séu ekki búnir að fallast á það. En út yfir tekur þó, þegar hæstv. sjútvrh. andmælir því, að tekin séu friðunarsvæði á landgrunnssvæðinu utan 12 mílnanna á mikilvægum uppeldisstöðvum ungfisksins, vegna þess að útlendingar hafa ekki samþykkt það. Og hann talar um það hér í síðustu ræðu sinni, að við getum bara átt von á átökum við útlendinga. Ég verð að segja, að ég þekki ekki þann gamla Lúðvík. Ég veit ekki, hvað komið hefur fyrir. Hvar er nú skapið og hnefinn steyttur, og hvar er nú hin forna glóð? Það er erfitt að finna nokkra skýringu á þessari furðulegu afstöðu hans sjálfs og að hann skuli tala hér í rauninni á allt annan veg en hæstv. forsrh. gefur í skyn, sem vill ræða þessi mál í nefnd og telur þetta ekki loka neinum samningaleiðum. Í rauninni er erfitt að finna aðra skýringu á þessari gerbreytingu á hæstv. sjútvrh. en þá, að kannske hafi hann fengið heilaþvott í Rússlandsferðinni.