09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (3389)

21. mál, landhelgismál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er nú heldur leiðinlegt að eiga orðastað við þá hv. þm., sem koma hér upp í ræðustólinn og flytja sínar ræður og gefa tilefni til umr., en stökkva svo af hólmi og eru hvergi nærstaddir, þegar þeim er svarað, koma svo eftir að búið er að taka mál þeirra fyrir á allrækilegan hátt lið fyrir lið, koma þá nánast eins og álfar út úr hól og tala þá um allt annað en það, sem þeir hefðu átt að tala um. En það er það, sem hv. 5. þm. Reykv. gerir nú. Það er alveg augljóst á því, sem hann sagði hér áðan, að hann hefur ekki fylgzt neitt með því, sem hefur gerzt í þessum umr. hér fyrr á fundinum, þegar málflutningur hans var ræddur af mér. Hann heldur því meira að segja fram, að ég hafi komið hér og mótmælt ákveðnum friðunarráðstöfunum. Slíkt er vitanlega alveg út í hött og rakalaust af hans hálfu að segja þetta. Ég benti hins vegar á það, að till. hans og annarra sjálfstæðismanna á sérstöku þskj. um tiltekin atriði varðandi þau mál sem sneru að friðunarmálum, kæmi í raun og veru ekki því máli við, sem hér væri verið að fjalla um. En varðandi það mál væru hins vegar mjög mikilvæg atriði, sem þessi hv. þm. ætti að svara og ég óskaði eftir svari hans við. Og ég skal endurtaka það, þannig að hann fái nú að heyra það, fyrst hann hafði ekki tíma til að sinna þingmannsskyldu sinni hér fyrr í kvöld og hlusta á umr. um málið, þær, sem hann hafði gefið hér tilefni til.

Eitt af mikilvægustu atriðum landhelgismálsins, eins og það liggur fyrir núna, er skiljanlega afstaðan til þess, hvort á að segja upp samningunum frá 1961 við Breta og Vestur-Þjóðverja. Þeir eru okkar stífustu andstæðingar í þessu máli, og þeir dauðhalda í þennan samning og beita honum fyrir sig á alla lund. Till. ríkisstj. er fyrst og fremst um það, að þessum samningi verði sagt upp, svo að hann verði ekkert haft á okkur í því að koma fram okkar stefnu. Þessi hv. þm. hafði ekkert um þetta atriði að segja, ekkert. Hann er kannske afstöðulaus til þess enn þá, eins og hv. 1. þm. Reykv., formaður Sjálfstfl. Hann lýsti því hér yfir, að hann væri ekki búinn að gera upp afstöðu sina til þess enn, hvort rétt væri að segja upp samningunum. Það hefur hann sagt. Ef hann er kannske að gera upp sinn hug núna, þá væri anzi gaman, að hann kæmi hér upp og lýsti því yfir, hvort hann vildi styðja till. um það að segja upp þessum samningum. (Gripið fram í.) Já, hann var búinn að segja það, að hann vildi ekki taka afstöðu til málsins, fyrr en samningum okkar við Breta væri lokið um hugsanlegan umþóttunartíma þeim til handa. En það er auðvitað augljóst mál, að það er verið að stórbæta aðstöðu þeirra í hugsanlegum samningum okkar á milli með því að láta þá hafa samninginn frá 1961 í höndunum. Því gerir hv. 1. þm. Reykv. sér fyllilega grein fyrir ekki síður en Bretar og Þjóðverjar sjálfir. Þetta atriði er vitanlega einnig eitt meginatriði þessa máls.

Hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, talaði um og vakti sérstaka athygli á hér í sinni fyrstu ræðu, að í till. ríkisstj. væri t.d. ekkert minnzt á það að fela ríkisstj. að vinna áfram að því, að Ísland tæki þátt í samtökum annarra þjóða um friðunarráðstafanir á úthöfunum. Hvað á nú svona tillöguflutningur að gera hér inn í landhelgismálið? Til hvers kemur slík till. sem þessi? Ég spurði hér um það, og það er nú rétt að spyrja hv. 5. þm. Reykv. um það, hvaða tilefni hann hafi til þess að leggja það hér sérstaklega fram á Alþ. að skora á ríkisstj. að fylgjast með samningum á þessum vettvangi. Hafði ekki fyrrv. ríkisstj. gert það, sem í hennar valdi stóð í þessum efnum? Og hefur ekki núv. ríkisstj. gert hið sama? Erum við ekki þátttakendur hreinlega í öllum þeim nefndum og stofnunum, sem að þessu vinna og við eigum kost á að taka þátt í? Jú, auðvitað erum við það. Þetta veit hv. 5. þm. Reykv. eflaust, því að ég ætla honum ekki slíka fávizku, að hann viti þetta ekki. En til hvers þá að vera að flytja till. um þetta hér í sambandi við afgreiðslu landhelgismálsins? Og til hvers þá að vera að vekja sérstaklega athygli á því, að m.a. vanti þetta ákvæði í till. ríkisstj.? Um þetta geta menn talað og sagt svo, að ég og aðrir séum á móti því að gera sérstakar ráðstafanir til þess að friða fisk. En þeir forðast að tala um meginatriði landhelgismálsins, sem er spurningin um það, hvort við eigum að létta af okkur því helsi, sem samningurinn frá 1961 er. Ég segi það líka, að þegar landhelgismálið er komið á það stig, sem hér hefur verið orðað af fleirum en einum hv. þm., að það er komið á framkvæmdastig, — við erum í rauninni komnir út í miðja baráttu um að framkvæma málið, — þá þykir mér það furðulegt, að hér skuli flutt till. af l0 þm. Sjálfstfl. um það að leggja enn einu sinni til, að ekki verði tekin bindandi ákvörðun um útfærsludag fiskveiðimarkanna, það skuli ákveðið síðar. Þeir menn, sem slíkt leggja fram, þeir hafa auðvitað efni á því að bera öðrum það á brýn, að þeir séu nú orðnir aðaltalsmenn þess að ganga styttra en aðrir, eins og þessi hv. þm. sagði um mig.

Hv. 5. þm. Reykv. vissi mæta vel, að það stóð ekki á okkur í stjórnarandstöðunni á síðasta þingi að fallast á samkomulag um það, að landhelgisútfærslan yrði meiri en 50 mílur, ef bindandi samkomulag fengist um slíkt. Þó að hv. 5. þm. Reykv. væri þá ekki á Alþ., gat hann látið heyra til`sín, ef hann hefði haft þá skoðun í málinu. Það gerði hann ekki. Þá studdi hann þá aðila, sem þá voru ekki viðbúnir til þess að taka hér neina bindandi afstöðu í málinu, hvorki um það, hversu útfærslan ætti að vera mikil, né hvenær af henni ætti að verða. En svo þegar búið er að taka ákvörðun um útfærsluna, hversu mikil hún á að vera og hvenær hún á að koma til framkvæmda, þegar við erum komnir út í miðja baráttuna við þá, sem við eigum við að stríða í þessum efnum, þá kemur þessi hv. þm., 5. þm. Reykv., og þykist bjóða betur en aðrir. Ég hef bent á það áður í þessum umr., að till. sú, sem hann hafði gerzt talsmaður fyrir, um sérstaka ákvörðun um útfærslu landhelginnar, er allsendis óraunhæf og í rauninni óframkvæmanleg með öllu. Ég hafði bent á, að það væri í fyrsta lagi mjög óheppilegt á þessu stigi málsins, að við værum að gefa það til kynna í tillöguflutningi hér á Alþ., að við vildum binda okkar landgrunnsmörk við 400 m dýptarlínu, þegar einmitt er verið að fjalla um það á alþjóðavettvangi að meta að nýju ákvæðin í þessum efnum. Og það er ekkert, sem rekur okkur til þess að fara að slá neinu föstu um þetta. Till. um það að slá því föstu; að svo skuli vera, þangað til við ákveðum annað síðar í lögum, er mjög óheppileg að mínum dómi.

Varðandi sérstakar reglur um friðun á fiskimiðunum þá hafði ég bent á það, að samkvæmt okkar landgrunnslögum, sem okkar friðunarráðstafanir verða að byggjast á, verður að liggja fyrir umsögn Fiskifélagsins og fiskifræðinga, öðruvísi geta stjórnvöld ekki hagnýtt sér landgrunnslögin frá 1948. Og þegar slík ákvæði eru í lögum, þá er næsta hlægilegt að flytja hér till. á Alþ. um það, að á tilteknum degi skuli ganga í gildi ákveðnar friðunarráðstafanir. Það á vitanlega að vinna að þessum málum á allt annan hátt.

Já, og svo vík ég aðeins að því atriði, sem hv. 5. þm. Reykv. talaði hér um í rauninni eins og sá maður, sem ekki hafði fylgzt hér með umr. áður, að ég kveinkaði mér sérstaklega undan því að mæta andstöðu útlendinga í sambandi við mótmæli þeirra gegn sérstökum friðunarráðstöfunum okkar, ef við gerðum þær einhliða utan núgildandi fiskveiðimarka. Ég kveinkaði mér ekkert í þessum efnum. Ég benti aðeins á, að það væri vitanlega alveg augljóst, m.a. af því, sem á undan er gengið í þessu máli, að útlendingarnir hafa mótmælt till. okkar varðandi slíkar friðunarráðstafanir, að þá hlyti auðvitað að koma, til meiri eða minni átaka við þá um það, ef við ætluðum að hindra veiðar þeirra á þessum slóðum. Ég benti á það, að þetta væru raunverulega eins og hver önnur landhelgisátök aðeins um þetta einstaka atriði og ég teldi, að það væri í rauninni afskaplega furðulegt að leggja út í slík átök í kapphlaupi við till. um það, að við færðum okkar fiskveiðimörk út yfir þetta svæði allt saman og tækjum eðlilega upp átökin við útlendinga varðandi málið sem heild. Þetta virðist hv. þm. ekki skilja. En svona er þessu nú varið. Ég hef verið á móti því og er á móti því að taka upp friðunarráðstafanir á litlu svæði í staðinn fyrir stækkun fiskveiðilandhelginnar. En á sama tíma sem fyrir liggur till. um það að stækka fiskveiðilandhelgina út yfir þetta svæði, þá er vitanlega till. um hitt ákaflega furðuleg, því að hún breytir þar í rauninni engu.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að ég væri hér að hverfa frá landgrunnsstefnunni. Auðvitað eru slíkar fullyrðingar hans algerlega út í bláinn og styðjast ekki á neinn hátt við það, sem ég hef sagt hér um málið. Ég hef hins vegar bent á það, að ef ætti að binda sig við landgrunn, sem væri miðað við 400 m dýptarlínu, þá þýddi það, að við þyrftum að færa okkar fiskveiðimörk út um meira en 90 mílur fyrir Suðausturlandi, og ef á að hverfa að því að taka yztu mörk slíks landgrunns og draga línu til yzta punkts annars staðar við landið, þá þýðir slík ráðstöfun auðvitað engar smáræðis breytingar frá 50 mílna mörkunum. Það þýðir alveg gífurlega breytingu. Á þetta hef ég bent.

Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar, þó að það hefði verið nokkur ástæða til þess. Ég vil aðeins segja það, að það sem vitanlega skiptir máli nú, þegar við fjöllum um þetta þýðingarmikla baráttumál, stækkun landhelginnar, er að við tökum á því máli sjálf á þann hátt, að við nálgumst það frekar að koma málinu fram. Til þess þurfum við að gera ákveðnar ráðstafanir. Við þurfum að segja upp samningunum frá 1961. Til þess þurfum við að taka tilteknar ákvarðanir, hvað við ætlum að færa mikið út og hvenær. Þeir, sem ekki enn virðast vera við því búnir að taka ákvörðun um það, sem er hið óhjákvæmilega, að segja upp landhelgissamningunum við Breta og Þjóðverja frá 1961, og þeir, sem eru ekki heldur við því búnir að taka ákvörðun um það, hvenær útfærslan eigi að eiga sér stað, og eru með mjög óákveðnar og furðulegar till. um það, hvernig landhelgismörkin skuli vera, þeir hafa ekki efni á því að brigzla hinum um það, að það standi eitthvað á þeim í landhelgismálinu, þeim sem hafa mótað og sett hér fram þær till., sem fyrir liggja af okkar hálfu nú og eru stefna Íslands í dag í þessum málum. Tillöguflutningur um nær óskyld málefni og sumpart um málefni, sem löngu hafa verið ákveðin og liggja skýrt fyrir, gefur engum manni rétt til þess að hreykja sér neitt hátt í þessum efnum.

Stefna okkar hefur verið mörkuð í landhelgismálinu, og ég tel, að það skipti miklu máli, að samstaða fáist um þá stefnu. Hjá því verður auðvitað ekki komizt, að einhverjir reyni að slá um sig og gera sig stóra með yfirboðum á síðustu stundu, slíkt er algengt fyrirbæri, en hinu komumst við ekki hjá, að fyrr eða seinna verða menn að standa frammi fyrir því að taka afstöðu til þess, sem er óhjákvæmilegt að gera í þessu máli. Menn geta ekki flotið á því að vera með einhverjar sýndartillögur um það, sem ekki skiptir máli.