15.02.1972
Sameinað þing: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (3392)

21. mál, landhelgismál

Frsm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Utanrmn. hefur haft til meðferðar þáltill. á þskj. 21 um landhelgismál, brtt. við hana á þskj. 72 og þáltill. á þskj. 56 um landhelgi og verndun fiskistofna.

Utanrmn. gefur út óskipt nál. um landhelgismálið á þskj. 335 og leggur til, að þáltill. á þskj. 21 um landhelgismál verði samþ. með þeim hætti, sem greinir í brtt. n. á þskj. 336. Þrír nm. flytja þó sérstaka brtt. á þskj. 337 við 1. tölulið brtt. frá n. Fjallar brtt. nm. þriggja um stærð fiskveiðilandhelginnar, og munu þeir að sjálfsögðu gera grein fyrir henni. Þá hafa sömu nm. einnig fyrirvara um 2. tölulið brtt. á þskj. 337.

Við fjórir nm., fulltrúar stjórnarflokkanna í utanrmn„ teljum ekki rétt að samþykkja brtt. á þskj. 337 um að miða útfærsluna við 400 m dýptarlínu í stað 50 sjómílna frá grunnlínum. Allar þjóðir, sem út hafa fært fiskveiðitakmörk sín undanfarið, hafa miðað við fjarlægðir frá grunnlínum, en ekki dýptarlínu, og er að okkar dómi mikilsvert að skera sig ekki úr í þessu.

Mjög mikil vinna hefur verið í það lögð að kynna þá stefnu og vinna henni fylgi, að Íslendingar færi út fiskveiðilandhelgi sína í 50 sjómílur ekki síðar en 1. sept. í haust, og er það of áhættusamt að okkar áliti að breyta til og hverfa frá þeim málstað, sem afar víða er kunnur orðinn og hlotið hefur nú þegar stuðning margra þjóða. Fleira kemur til, sem hér verður ekki rakið. Erum við enn sömu skoðunar og fyrr, að það sé hæfilega í fang færzt í þessum áfanga að færa fiskveiðitakmörkin út í 50 mílur frá grunnlínum.

Þá er þess að geta, að við fjórmenningarnir tökum fram í nál., að við lítum svo á, að ríkisstj. hafi samkv. 2. tölulið, brtt. á þskj. 336 frá n. heimild til þess að segja upp samningunum við Bretland og Sambandslýðveldið Þýzkaland og að fyrir liggi vitneskja um, að það verði gert.

Utanrmn. þykir ástæða til, að Alþ. árétti nú enn einu sinni þá grundvallarstefnu Íslendinga, að landgrunnið allt sé yfirráðasvæði Íslendinga og það sama gildi um hafið yfir landgrunninu. Að þessu lýtur upphaf till. utanrmn. á þskj. 336, og er þá um leið með þessu lögð áherzla á, að útfærsla fiskveiðilögsögunnar nú sé áfangi, en ekki lokamark.

Utanrmn. telur mikilsvert, að Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum, að áfram verði haldið samkomulagstilraunum við ríkisstj. Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýzkalands um þau vandamál, sem skapast vegna útfærslunnar. Með því að samþykkja þess háttar ákvæði telur n.Alþ. leggi áherzlu á mikilvægi þess, að slíkt mætti takast.

Utanrmn. álítur einmitt nú í sambandi við ákvörðun um nýjan áfanga í útfærslu fiskveiðilögsögunnar, að mikilsvert sé að ítreka með nýrri samþykkt Alþ. þá stefnu að vernda fiskstofnana við landið og koma í veg fyrir ofveiði. N. virðist því rétt, að Alþ. leggi áherzlu á þennan veigamikla þátt í landhelgismálinu með svofelldu ákvæði í sjálfri ályktuninni um útfærslu landhelginnar: Unnið verði áfram í samráði við fiskifræðinga að ströngu eftirliti með fiskistofnum við landið og settar, eftir því sem nauðsynlegt reynist, reglur um friðun þeirra og einstakra fiskimiða til þess að koma í veg fyrir ofveiði.

Varðandi mengun sjávarins finnst n. bezt viðeigandi nú, að Alþ. ákveði, að haldið skuli áfram samstarfi, sem hafið er við aðrar þjóðir, til þess að fyrirbyggja mengun hafsins. Enn fremur leggur n. til, að Alþ. heimili ríkisstj. að ákveða mengunarlögsögu á hafinu umhverfis Ísland, án þess að Alþ. bindi þá heimild við tiltekin mörk að svo vöxnu máli.

Æðimikil vinna hefur verið í það lögð á Alþ. í samráði við ríkisstj. að samræma sjónarmiðin í landhelgismálinu, og hefur það verk borið mikinn árangur. Það liggur fyrir, að samstaða er á Alþ. um að færa fiskveiðilandhelgina út eigi síðar en 1. sept. í haust. Hvarvetna á Íslandi munu þetta þykja góð og mikilsverð tíðindi, því að menn vita allir, hvað við liggur.