15.02.1972
Sameinað þing: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3397)

21. mál, landhelgismál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það er aðallega 4. liður í till. utanrmn., sem ég vildi gera hér að umræðuefni. Mér þykir þó rétt að fara örfáum orðum um málið í heild. Ég vil mjög taka undir það, sem hér hefur komið fram bæði frá fulltrúum stjórnarliðsins og fulltrúum stjórnarandstöðunnar, að það hlýtur að vera ánægjuefni, ekki einasta fyrir þm. heldur og fyrir þjóðina alla, að sú samstaða skuli hafa náðst um málið, sem nú liggur fyrir hér á Alþ. Ég tel í því sambandi mjög rétta ábendingu formanns Sjálfstfl., að vissulega hefði það farið betur, að reynt hefði verið að ná þessari samstöðu um málið, áður en farið var að ræða það við erlenda aðila. En um það þýðir ekki að sakast. Þetta er orðinn hlutur og því ekki rétt að vera að taka það mál upp að nýju.

Þá vildi ég undirstrika, áður en gengið verður til atkvgr. um þá brtt., sem hér er flutt á þskj. 337, að þar er kannske um stærra mál að ræða en menn almennt hafa gert sér grein fyrir. Stærðarmunur á 50 mílna svæðinu og því, sem fram kemur á þskj. 337, landgrunninu öllu, þetta er mjög stórt svæði, er um 27 þús. ferkílómetrar, og á því svæði eru á sumum stöðum mjög mikilvæg fiskimið, þannig að sannarlega og vissulega hefði verið æskilegra, að stjórnmálaflokkarnir hefðu þegar í upphafi getað náð samstöðu um að sameinast um landgrunnið allt, eins og hér hefur verið deilt um á þingi áður í sambandi við þær umr., sem verið hafa um málið.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ef till. sú, sem hér er til afgreiðslu, verður felld, þá komi til kasta Alþingis á næstu árum að ræða um nýja útfærslu, því að það er svo viðkvæmt mál í samskiptum okkar við erlenda aðila, að ég hygg, að það muni þurfa að líða nokkur tími, áður en ráðizt verður í að stíga það skref að leggja landgrunnið allt undir íslenzka lögsögu. Ég bendi á þetta hér, vegna þess að það kom fram hjá einum hv. þm. í umr. hér fyrr, að þetta mætti taka upp eftir eitt eða tvö ár. Ég tel, að það sé á mjög miklum misskilningi byggt, að það verði gert.

Varðandi 4. lið till. þá vil ég lýsa ánægju minni yfir því, að það ákvæði, sem þar er að finna, skuli hafa verið tekið upp í ályktun utanrmn. Ég tel, að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða, og ég hef látið það koma fram hér áður, að ég tel, að stjórnvöld hafi á undanförnum árum kannske ekki sýnt þessu máli nægan skilning, eins og vera hefði átt og ég tel, að ástæða hafi verið til. Ég hygg kannske, að það kunni að blekkja einstaka menn, að það liggur ljóst fyrir, birtist iðulega í fréttum, að aflamagn einstakra báta sé ekki minna og jafnvel mun meira nú á undanförnum vetrarvertíðum en áður var. En menn verða að athuga það, að þetta byggist á stóraukinni tækni, þannig að einn bátur vel útbúinn nú í dag afkastar alveg hiklaust tvisvar til þrisvar sinnum meira en bátar gerðu fyrir nokkrum árum bæði vegna mjög aukinnar tækni og vegna meiri veiðarfæranotkunar. Þeir, sem málum þessum eru kunnugir og fylgjast daglega með því, sem gerist hér á vetrarvertíð, fyrir þeim horfir þetta allt öðruvísi við, því að þeim er það ljóst, að því miður er verið að tefla á eins tæpt vað í sambandi við fiskveiðarnar víða um landið, sérstaklega á vetrarvertið hér við Suður– og Suðvesturlandið, og maður getur ímyndað sér, að frekast sé óhætt að gera.

Ég vildi láta þetta koma fram hér við þessa umr. og vænti þess mjög, að hæstv. sjútvrh„ sem ég veit og allir þm. vita, að er mjög kunnugur þessum málum, hefur fylgzt með útgerðarmálum um áratugabil, að hann taki þetta mál föstum tökum og geri raunhæfar ráðstafanir til þess, að því, sem að er stefnt í 4. lið, verði hrundið í framkvæmd, en þar er um að ræða verndun fiskstofna og friðun einstakra fiskimiða.

Ég tel, að þótt við ráðumst í það, eins og þegar er ljóst, að við munum gera, að færa út fiskveiðilögsöguna, stækka okkar fiskveiðilögsögu, eins og ráð er fyrir gert, þá verðum við jafnhliða og ekki síður en áður að hafa vakandi auga fyrir því að ganga hvorki á fiskstofnana með ofveiði ungfisks eða að ganga á fiskstofninn með ofveiði og rányrkju á hrygningarsvæðunum. Ég tel, að það verði að vera okkur alveg ljóst, að útfærsla landhelginnar breytir þar engu. Þetta er mál sem við verðum að vera mjög vakandi yfir og gera okkur ljóst, að ef við ætlum að halda útgerð hér áfram í sama mæli og verið hefur og byggja afkomu þjóðarbúsins á því, þá verðum við að hafa þarna við alla gát og gera okkur grein fyrir því í tíma, að ekki geti átt sér stað, að við séum að eyðileggja fyrir sjálfum okkur, ekki einasta núverandi kynslóð heldur kannske komandi kynslóðum, með því að ganga of langt í ofveiði eða rányrkju á þeim fiskimiðum, sem við nú byggjum afkomu okkar á.