11.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

71. mál, innlent lán

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins til þess að fyrirbyggja misskilning taka það fram, að mín orð bar ekki að túlka sem neitt forboð gegn því að taka erlend lán. Það getur vitaskuld verið réttlætanlegt að taka erlend lán. En það skiptir meginmáli, til hverra hluta þeim er varið. Erlend lán geta átt hinn fyllsta rétt á sér, þegar þeim er varið til gjaldeyrissparandi framkvæmda eða gjaldeyrisaflandi framkvæmda. Þess vegna er mjög eðlilegt, að það sé leitað eftir erlendum lánum t.d. til stórvirkjana og þess háttar eða til öflunar fiskiskipa og þess háttar. En aftur á móti álít ég, að það geti verið jafnvarhugavert að byggja ýmsar framkvæmdir, sem þó geta verið góðar og nauðsynlegar, á erlendu lánsfé.

Ég vil ennfremur segja það út af þeim orðum, sem hv. þm. lét falla, að vitaskuld er áætlanavinna ýmiss konar hér í gangi, og þar hafa verið gerðar og eru til þegar vissar áætlanir. Ég minni nú aðeins á það, sem ég þarf ekki að minna þennan hv. þm. á, að það er til samgönguáætlun, að ég vona a.m.k. næstum því fullgerð, fyrir Norðurland. Og til hennar þarf að afla fjár. Og það eru auðvitað ýmsar aðrar áætlanir í gangi, sem Efnahagsstofnunin vinnur að. Og að því leyti til verður auðvitað verkefni Framkvæmdastofnunar, þegar hún tekur við, að nokkru leyti framhald af þeirri vinnu, sem unnin hefur verið í Efnahagsstofnuninni, þannig að ég geri ekki ráð fyrir því, að það verði nein óeðlileg bið á því, að það liggi fyrir nægilegar áætlanir, sem hægt sé að styðjast við, þegar kemur til þess að ráðstafa þessu fé, sem hér er um að tefla.

Ég get líka undirstrikað það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ég geri ekki ráð fyrir því, að það verði veruleg bið á því hér eftir, að frv. um Framkvæmdastofnun verði lagt fyrir Alþ„ og þá vona ég, að svo fari með hliðsjón af því, sem hér hefur komið fram, að hv. þm. greiði heldur götu þess í gegnum þingið, þannig að það þurfi ekki að tefjast þar.