15.02.1972
Sameinað þing: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (3400)

21. mál, landhelgismál

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins á þessari alvarlegu stund þessa sögulega dags, þegar Íslendingar lýsa afdráttarlaust yfir, að landgrunn Íslands allt að yztu nýtingarmörkum þess og hafsvæðið yfir því sé hluti af íslenzku yfirráðasvæði, og á þeim degi, þegar Alþingi Íslendinga tekur ákvörðun um að færa fiskveiðilögsögu sína út í 50 sjómílur, lýsa því yfir, að ég og minn flokkur veitum þessari lausn málsins fullan og einróma stuðning. Till. sú, sem hér liggur fyrir sameiginlega frá utanrmn., er vottur þess, að menn hafa orðið sammála um að leggja til hliðar allan minni háttar ágreining um málið, sem vissulega hefur verið til staðar á ýmsum tímum, þegar við höfum fjallað um það. Þetta er sú eina lausn landhelgismálsins, sem hinu íslenzka Alþingi og íslenzku þjóðinni er samboðin. Það er löngu ljóst, að þjóðin hefur verið um langa tíð einhuga í landhelgismálinu, en það var ekki eins víst, a.m.k. fyrir síðustu kosningar, að stjórnmálaflokkarnir á Íslandi gætu fundið sameiginlega lausn, sem þeim þó nú hefur auðnazt að ná. Þjóðin og stjórnmálaflokkar hennar hafa nú sameinazt um lausn málsins.

Ég fagna hinni algjöru samstöðu, sem fengizt hefur um málið, og þakka, eins og forsrh. hefur raunar gert hér áður, stjórnarandstöðunni og utanrmn. fyrir þessa farsælu lausn, sem Alþ. tekur nú ákvörðun um.