15.02.1972
Sameinað þing: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (3401)

21. mál, landhelgismál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í tilefni af því sem hv. 5. þm. Reykv. sagði hér. Ég skil það út af fyrir sig mætavel, að hann reyni hér enn á ný að halda fram sjónarmiðum sínum um þá sérstöðu, sem hann hefur haft í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og það út af fyrir sig hefði ekki átt að verða tilefni til þess, að ég bæði hér um orðið aftur, þó að hann haldi áfram að klifa á því, að hann vilji ganga lengra til stækkunar á íslenzkri fiskveiðilandhelgi en við, sem að till. ríkisstj. stöndum. Það hefur ekki mikil áhrif á mig og ég vænti ekki á neina landsmenn, sem fylgzt hafa með því, sem fram hefur farið í þessu máli að undanförnu. Það er svona ósköp svipað því og þegar ríkisstj. leggur til, að mengunarlögsaga skuli vera 100 mílur, að þá byrjar stjórnarandstaðan á því að finna því allt til foráttu að hafa einhver mörk á mengunarlögsögunni, vegna þess að við þurfum á allt öðru að halda, en eftir stuttan tíma kemur hún síðan með till. um það, að mengunarlögsagan skuli miðast við 150 mílur, að sjálfsögðu eitthvað aðeins meira en hinir voru búnir að leggja til, sem höfðu riðið á vaðið. Þetta er nú það. sem heitir almennt séð yfirboð og verður nú ekki tekið ýkja hátíðlega.

En það voru nokkrar fullyrðingar, sem komu fram hjá hv. þm., sem ég sé fulla ástæðu til að leiðrétta. Hv. þm. hefur mjög klifað á því hér, að það væri auðvelt verk og miklu eðlilegra að miða landhelgismörkin við dýptarlínu en við ákveðinn mílufjölda frá landi. En skyldi hann hafa kynnt sér þær athuganir, sem gerðar hafa verið af sérstökum nefndum á vegum Íslendinga varðandi þessi mál. Sérstök nefnd fjallaði einmitt á sínum tíma um landgrunnið og mælingar á því. Sú nefnd segir m.a. um dýptarmælingar á þessa leið í áliti sinu:

„Þá ber að geta þess, að á mörgum svæðum umhverfis landið eru dýptarmælingar af mjög skornum skammti. Á stórum svæðum fyrir norðan og vestan eru dýptartölur mjög strjálar eða ekki til.“

Það er vegna þessa, sem þessi nefnd, sem hafði unnið að málinu sérstaklega, lagði til, að unnið yrði að því að framkvæma hér nýjar mælingar, svo að hægt væri að styðjast við þær af meira öryggi en nú er hægt. Í áliti þessarar nefndar segir enn fremur:

„Megnið af dýptartölum á íslenzka landgrunninu er frá því um síðustu aldamót, þegar staðsetning skipa var tæplega eins nákvæm og bezt gerist nú.“

Og margt fleira mætti til nefna. Ástandið er í rauninni þannig, að það er aðeins á einum hluta við landið, þar sem nú er talið, að við höfum virkilega nýtízku mælingar fyrirliggjandi. Allt þetta hefur vitanlega leitt til þess, að það væri fráleitt í þeirri stöðu, sem við erum, Íslendingar, að við færum einir að taka okkur út úr og miða okkar landgrunnsmörk eða landhelgismörk við dýptarlínur, á sama tíma og allir aðrir miða við mílufjölda frá grunnlínum. Auðvitað er enginn vandi að ákveða sér ákveðna grunnlínupunkta og draga þar línur á milli og segja, að frá þeim mörkum skuli landhelgin teljast. En þar verður ekki miðað við neinar öruggar dýptarmælingar, ekki eins og sakir standa. Þær fullyrðingar, sem komu því fram hjá hv. þm. varðandi þetta efni, fá ekki staðizt, eins og hér hefur verið bent á áður.

Þá sagði hv. þm. það hér, að á því gæti ekki leikið vafi, að þrátt fyrir landhelgissamninginn, sem gerður var við Breta og Vestur-Þjóðverja árið 1961, þá gætu Íslendingar óhindrað fært út sín fiskveiðimörk og allar líkur væru til þess, að sú útfærsla yrði að standa um þriggja til fjögurra ára tímabil, á meðan dómurinn fjallaði um málið. Þær upplýsingar, sem við höfum fengið, m.a. beint frá Bretum sjálfum og frá þeim ráðunautum, sem ríkisstj. styðst við í þessum efnum, fara í allt aðra átt en þessi hv. þm. fullyrðir hér. Bretar segjast einmitt munu gera kröfu um það samkv. samningunum, að Alþjóðadómstóllinn stöðvi tafarlaust útfærsluna, á meðan dómurinn fjallar efnislega um málið. Kröfur Breta munu einmitt verða um þetta. Ég held, að þetta sé byggt á álíka þekkingu eins og því hjá þessum hv. þm., þegar hann heldur því hér fram, að röksemdir okkar á erlendum vettvangi fyrir okkar útfærslu muni verða sterkari og veita okkur meiri stuðning, ef við miðum við landgrunnsmörk en ekki mílufjölda frá grunnlínum. Við höfum þvert á móti rekið okkur á það hvað eftir annað, að þeir aðilar á erlendum vettvangi, sem hafa svipaða afstöðu og við til fiskveiðilandhelgismála, hafa varað okkur við því að beita röksemdunum um landgrunn eins og við höfum oft gert, vegna þess að fjöldi annarra þjóða, sem annars styður það sjónarmið, að fiskveiðilandhelgi skuli vera stór, fellst ekki á landgrunnskenninguna. Það er því á algerum misskilningi byggt hjá þessum hv. þm. að halda því fram, að okkar málarekstur á erlendum vettvangi yrði sterkari á þann hátt að miða við dýptarlínur eða landgrunnskenningu fremur en að miða við mílufjölda frá grunnlínum, eins og allar aðrar þjóðir hafa miðað við.

Ég sagði hér fyrr í minni ræðu, að það hefði komið alveg greinilega í ljós í þeim samningaviðræðum, sem við hefðum átt við Breta og Vestur-Þjóðverja um lausn á þeim vanda, sem nú er við að glíma varðandi útfærslu okkar, að samningarnir frá 1961 væru þröskuldur í vegi fyrir því að gera við þá viðhlítandi samninga. Þetta hefur komið svo greinilega fram, að um þetta er ekkert að villast, vegna þess að þeir gera kröfu um það, að málinu verði vísað til úrskurðar alþjóðadómstóls, en á það viljum við ekki fallast. Ég held, að enginn vafi sé á því, að mikill meiri hluti Íslendinga hafi gert sér grein fyrir því, að það er hvorki rétt né eðlilegt, að við Íslendingar séum einir allra þjóða bundnir við það, að erlendur dómstóll eigi að kveða upp úrskurð um það, hversu viðáttumikil okkar fiskveiðilandhelgi eigi að vera. Ég held, að svo að segja allir landsmenn séu á þeirri skoðun, sem ríkisstj. túlkaði í þessum efnum, að við þurfum að vera lausir við slíkar kvaðir, og satt að segja þykir mér miður að heyra það, að hv. 5. þm. Reykv. skuli vera einn af örfáum mönnum, sem virðist hallast að því að láta alþjóðlegan dómstól skera úr um þetta mikilvæga mál Íslendinga, víðáttuna á fiskveiðilandhelgi okkar.