24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (3412)

80. mál, dóms- og lögreglumál á Suðurnesjum

Frsm. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Till. til þál. á þskj. 89 um skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum hefur verið til athugunar í allshn. Í till. er lagt til, að skorað sé á ríkisstj. að láta leggja fyrir Alþ. það, er nú situr, frv. til l. um skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum á þann veg, að á svæðinu sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar heyri þessi mál til einu embætti í Keflavík.

Lögsagnarumdæmi á Reykjanesi sunnan Hafnarfjarðar skiptast milli þriggja embætta, eins og kunnugt er, en þau taka til Keflavíkurkaupstaðar, Keflavíkurflugvallar, og að öðru leyti er um að ræða hluta af lögsagnarumdæmi sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Það er skoðun sveitarfélaganna sunnan Hafnarfjarðar, að þessu þurfi að breyta. Mikið óhagræði fyrir íbúa þessara byggðarlaga er þessu fyrirkomulagi samfara að áliti íbúa Suðurnesja. T.d. má benda á, að íbúar Miðnes- og Gerðahrepps þurfa að fara um Keflavík, þar sem bæjarfógeti þó situr, og alla leið til Hafnarfjarðar, þurfi þeir að láta þinglýsa skjali, skrá bifreið eða annast önnur erindi, sem embætti sýslumanns snertir. Svipað er óhagræði annarra hreppsfélaga á Suðurnesjum undir svipuðum kringumstæðum. Það liggur í augum uppi, hversu auðveldara það væri fyrir þessa aðila að fara til Keflavíkur í slíkum erindagerðum í stað þess að þurfa að fara alla leið til Hafnarfjarðar.

Allshn. hefur leitað umsagna um þessi mál og fengið þær frá sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu og frá samvinnunefnd sveitarfélaga á Suðurnesjum. Í umsögn sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Sé það ótvíræður vilji íbúa hreppa þeirra, sem liggja sunnan Hafnarfjarðar, að þeir sameinist um stofnun sýslufélags, sem fylgdi Keflavíkurkaupstað, þá tel ég fyrir mitt leyti eðlilegt og sjálfsagt að verða við þeim óskum.“

Í umsögn samvinnunefndar sveitarfélaga á Suðurnesjum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Mál þetta (þ.e. álit á till. til þál. um skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum) var til umræðu á fyrsta fundi samvinnunefndarinnar 23. apríl 1971 og hefur síðan verið eitt aðaláhugamál nefndarinnar. Voru þá tveir menn kosnir til að kynna sér það sérstaklega. Á næsta fundi í maímánuði skiluðu þeir eftirfarandi áliti„

„Samvinnunefnd sveitarfélaganna á Suðurnesjum telur, að framtíðarlausn lögsögu dóms- og lögreglumála sé í því fólgin, að þessi mál verði sett undir sameiginlega stjórn með aðalaðsetur í Keflavík. Í Grindavík og Sandgerði verði útibú, sem verði rekin í nánum tengslum við aðalstöðvarnar í Keflavík og undir þeirra stjórn.“

Till. þessi var samþ. shlj. með atkv. allra fulltrúanna. Síðan hefur þetta mál verið rætt í öllum sveitarstjórnunum hér á Suðurnesjum, og hafa undirtektirnar

hvarvetna verið jákvæðar. Á fundi í samvinnunefndinni þann 9. febr. 1972 var mál þetta til umr. vegna heiðraðs bréfs yðar til formanns nefndarinnar. Í niðurlagi bókunar um þetta mál var ritað: “Samstarfsnefndin samþykkir að mæla eindregið með samþykkt þáltill.

Þá skal þess getið, að í álitsgerð frá Dómarafélagi Reykjavíkur, samþykktri á fundi í félaginu l5. febr. s.l., um frv. til l. um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl. segir á einum stað um þá þáltill., sem hér er til umr., að þau sjónarmið, sem liggi að baki henni, eigi fyllsta rétt á sér.

Með hliðsjón af því, sem hér hefur verið rakið, hefur allshn. orðið sammála um að leggja til að umrædd þáltill, verði samþ., en þó með þeirri breytingu, að orðin „er nú situr“ í tillgr. verði felld niður. Hefur n. lagt fram brtt. á þskj. 358 um það efni. N. er að vísu því hlynnt, að gengið verði frá samningu frv. hið allra fyrsta og það lagt fram á yfirstandandi þingi, svo sem þáltill. gerir ráð fyrir, sé þess kostur. En með því að áliðið er þingtímans, telur n. hæpið, að af því geti orðið, og þess vegna hefur hún komið fram með þessa brtt.