30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (3432)

92. mál, eldisstöð fyrir lax og silung á Norðurlandi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. varaþm. Jónas Jónsson var 1. flm. þessa máls fyrir nokkru, þegar hann átti setu í hv. d., en þar sem hann er nú ekki hér, leyfi ég mér að mæla nokkur orð til skýringar þessu máli. En till. er þess efnis, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að koma upp klak- og eldisstöð fyrir lax og silung og aðra nytjafiska, ef henta þykir, svo fljótt sem nauðsynlegt fé fæst til framkvæmda. Stöðin verði á þeim stað í Þingeyjarsýslum. þar sem skilyrði reynast hagstæðust.

Í 62. gr. laga nr. 76 frá 1970 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Rétt er ráðh. að koma upp klak– og eldisstöð. einni eða fleiri, þegar fé er veitt í fjárlögum. Rétt er, að slík stöð sé reist og rekin af félagi, er bæði ríkissjóður og aðrir aðilar standa að. Veiðimálastjóri hefur umsjón með stöðvum þessum.“

Nú er það svo, eins og hv. þm. er kunnugt, að ríkið hefur þegar fyrir nokkuð löngu síðan, það mun hafa verið á árinu 1961, beitt sér fyrir því, að slíkri klak– og eldisstöð væri komið upp hér sunnanlands, í Kollafirði. Nú hefur hún verið rekin síðan og allmikið alið upp af laxaseiðum og reyndar einnig silungsseiðum. og af þessu hefur þegar orðið nokkur árangur, þannig að lax er nú síðustu árin genginn í stöðina úr sjó, vegna þess að sleppt hefur verið gönguseiðum úr stöðinni. Og þarna er í Kollafirði unnið merkilegt tilraunastarf í sambandi við fiskrækt í vötnum, og menn hafa átt þess kost að fá þaðan seiði, sem reyndar eru nú einnig til staðar í öðrum eldisstöðvum.

Það hefur alllengi verið áhugi fyrir því norðanlands, að þar yrði komið upp annarri stöð á vegum hins opinbera. og árið 1966 að ég ætla, var samþ. hér á hinu háa Alþingi till. þess efnis að skora á ríkisstj. að láta athuga möguleika á því að koma upp slíkri stöð norðanlands. Úr því hefur nú ekki orðið, en hins vegar hefur farið fram athugun norðanlands á skilyrðum til þess að koma upp slíkum stöðvum. Sú athugun hefur verið framkvæmd af veiðimálastjóra og með verkfræðilegri aðstoð, sem hann hefur tekið sér til þess. Okkur. sem að þessu máli stöndum er kunnugt um það, að í Stjórnarráðinu liggur fyrir skýrsla um þessa athugun, þar sem gerð er grein fyrir fiskeldisskilyrðum á ýmsum stöðum norðanlands. Við höfum haft aðstöðu til þess að athuga þessa skýrslu, og á grundvelli hennar höfum við leyft okkur að flytja þessa till. um það, að ríkisstj. verði falið að koma upp eldisstöðinni og hún verði á þeim stað í Þingeyjarsýslum. þar sem skilyrði reynast hagstæðust. Okkur sýnist, að slík stöð mundi verða bezt sett á austanverðu Norðurlandi og þá annaðhvort í Norður- eða Suður-Þingeyjarsýslu, en á þessu svæði, á Norðurlandi austanverðu, eru mjög margar ár, sem lax gengur nú þegar í, auk annarra vatna, sem án efa væri hægt að rækta í bæði lax og silung, þó að lax gangi þar ekki nú, ef áherzla væri á það lögð og ráðstafanir til þess gerðar. En ég hygg, að það séu ekki færri en 14 ár á þessu svæði, og á ég þar við svæðið milli Ólafsfjarðar og Langaness, sem nú þegar eru laxaár, þ.e. það gengur í þær lax og hefur gengið. Rúmlega helmingurinn af þessum ám er í Norður-Þingeyjarsýslu, flestar í Þistilfirði, og það vill nú svo til, að einn af þeim stöðum, sem sérstaklega hefur verið bent á sem mjög heppilegan á þessu svæði, er í því héraði, við Litlu-Á í Kelduhverfi. Í þessari till. er ekki bent á neinn ákveðinn einn stað, og vil ég vænta þess, að þetta verði nú nánar athugað og að sú n., sem málið fær til meðferðar, beri saman ráð sín við veiðimálastjóra og þá aðila, sem hér mundu einkum koma við sögu í sambandi við rekstur slíkrar stöðvar, hvort sem þar yrði um að ræða stöð, sem ríkið eitt ræki, eða stöð, sem það reki í félagi við aðra, eins og reyndar er gert ráð fyrir, að til mála komi í lögum um þetta efni.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en leyfi mér að leggja til við hæstv. forseta, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.