30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3433)

92. mál, eldisstöð fyrir lax og silung á Norðurlandi

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs til þess að fagna þeirri till., sem hér er fram komin. Ég vildi aðeins láta þess getið í sambandi við þetta mál, að athugun hefur verið framkvæmd á því á vegum veiðimálastjóra, hvar væru beztir möguleikar til fiskræktar og fiskeldis á Norðurlandi. Þetta var gert í samræmi við till., sem gerð var, þegar upphaflega var byrjað að framkvæma atvinnumálaþátt Norðurlandsáætlunar. Ég verð að taka fram, að mér er ekki kunnugt um niðurstöður þessarar athugunar, en hún átti að vera eins konar kortlagning á því, hvar væru beztu skilyrði til þess á Norðurlandi að efla fiskrækt og fiskeldi. Það gefur auga leið, að slík stöð, eldisstöð fyrir lax og silung á Norðurlandi, hefur mikilvæga þýðingu í því efni að koma því nauðsynjamáli fram að efla fiskeldi á öllu Norðurlandi, og þess vegna lít ég svo á, að þessi till. sé mjög nauðsynleg og tímabær, og fagna því, að hún er komin hér fram.