30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3434)

92. mál, eldisstöð fyrir lax og silung á Norðurlandi

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er til umr., er endurflutt nú á þessu þingi. Samhljóða till. var flutt á síðasta Alþ., en varð þá eigi útrædd. Um till. vil ég segja það, að ég tel hana tímabæra og góðs maklega. En ég vil samt sem áður leggja til, að tillgr. verði breytt og einnig fyrirsögn till., svo sem ég gat um, þegar þessi sama till. var rædd hér á síðasta Alþ. Breytingin verði í þá átt, að í stað þess að einskorða staðsetningu þessarar eldisstöðvar við Þingeyjarsýslur, verði till. á þá lund, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að koma upp klak— og eldisstöð fyrir lax og silung o.s.frv. á Norðurlandi, þar sem bezt þykir henta. Fyrirsögn till. breytist í samræmi við það. Ég mun flytja brtt. við þessa till. til þál. í samræmi við það, sem ég hef hér þegar sagt.

Frsm. till., hv. 1. þm. Norðurl. e., gat um það, að fram hefðu farið rannsóknir á vegum Veiðimálastofnunarinnar á hagkvæmni þess að setja upp fiskeldisstöð víðs vegar á Norðurlandi. Þetta er rétt. Þessar athuganir hafa verið gerðar, og mér er tjáð af veiðimálastjóra, að fyrr eða síðar verði skýrslu, er gerð hefur verið um niðurstöður þessarar athugunar, dreift meðal þm. Það var helzt að skilja, að ekki væri búið að vélrita þessa skýrslu, en að öðru leyti væri hún til. Veiðimálastjóri hefur tjáð mér, eins og mér var fullkunnugt um, að ýmsir staðir annars staðar en í Þingeyjarsýslum væru álitlegir í þessu efni. Má þar nefna staði t.d. á Norðurl. v. í Húnavatnssýslum við Laxárvatn, þar sem bæði er nægilegt heitt og kalt vatn. Þar er líka ein allra bezta veiðiá landsins, Laxá á Ásum, þar sem nú á s.l. sumri veiddust að ég hygg yfir 1.500 laxar á tvær stengur á dag. Ég efast um. að aðrar veiðiár hafi getað sýnt betri útkomu.

Einnig nefndi veiðimálastjóri ákjósanlega staði við Helgavatn í Vatnsdal og á Sauðárkróki. Þar er einnig nægilegt heitt vatn, og þar er fiskeldi þegar. Hann nefndi einnig Ólafsfjörð. Fleiri staðir gætu væntanlega komið til greina við framhaldsrannsóknir. Það er öllum kunnugt, að t.d. við Miðfjarðará, sem er ein af hinum betri veiðiám landsins, er mikill jarðhiti, en nægilegt heitt og kalt vatn er einmitt eitt af frumskilyrðum þess, að slík stöð verði reist og rekin með hagkvæmni. Þá eru einnig fyrirhugaðar rannsóknir á næsta sumri við Höfðavatn í Skagafirði, ef fé fæst til þeirra rannsókna á fjárlögum, en það er vatn, sem væntanlega gæti gefið stórkostlega möguleika á þessu sviði. Þess vegna hygg ég, að það sé réttmætt, að í till., sem stefnir að því, að upp verði sett á vegum ríkisins önnur klak— og eldisstöð fyrir lax og silung heldur en sú, sem þegar er rekin hér í Kollafirði, verði staðarval slíkrar stöðvar ekki á þessu stigi einskorðað við Þingeyjarsýslur, heldur komi fleiri staðir á Norðurlandi mjög til greina.

Hv. frsm. þessarar till. sagði, að í Þingeyjarsýslum, eða mig minnir, að hann nefndi frá Ólafsfirði til Langaness, væru a.m.k. 14 góðar laxveiðiár nú þegar. Ég ætla nú ekki að fara í neinn meting um þetta atriði á milli kjördæma eða innan landsfjórðungsins, en ég hygg, að ekki séu færri góðar laxveiðiár á vestra svæðinu. Það er kunnugt, að á Norðurlandi, bæði í Þingeyjarsýslum og Húnavatnssýslum, eru margar af hinum betri veiðiám landsins.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð á þessu stigi. Ég tek undir það, sem fram kom hér hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að e.t.v. er einnig ástæða til að tengja þetta mál þeim atriðum, sem tekin eru til meðferðar í sambandi við Norðurlandsáætlun, og með hliðsjón af því væri þá líka eðlilegt að leita umsagnar Fjórðungssambands Norðlendinga, þegar fyrir liggja tæknilegar og lífeðlislegar upplýsingar um hagkvæmni þess að setja upp slíka eldisstöð á hinum ýmsu stöðum norðanlands.