17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (3457)

147. mál, alþjóðasamningur um bann við staðsetningu kjarnorkuvopna á hafsbotni

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda alþjóðasamning um bann við staðsetningu kjarnorkuvopna og annarra gereyðingarvopna á hafsbotni og í honum er lögð fram af hálfu utanrrn. Ég vísa til aths. við þáltill. um frekari rökstuðning fyrir henni.

Árið 1967 kom fram till. frá Möltu um að gera samning til að tryggja friðsamlega notkun hafsbotnsins utan lögsögu einstakra ríkja í þágu mannkynsins alls. Í marz 1969 lögðu Sovétríkin fram í afvopnunarnefndinni í Genf drög að samningi um afvopnun hafsbotnsins. Skömmu síðar lögðu Bandaríkin fram í nefndinni annað uppkast. Sumarið 1969 fóru síðan fram viðræður milli þessara tveggja stórvelda. Árangur þeirra viðræðna varð sá, að í okt. 1969 lögðu þessi tvö ríki fyrir afvopnunarnefndina í Genf drög að samningi um afvopnun hafsbotnsins. Það var svo loks hinn 7. des. 1970, að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti endanlega með miklum meiri hluta atkvæða alþjóðasamning um bann við staðsetningu kjarnorkuvopna og annarra gereyðingarvopna á hafsbotni og í honum. Ríkisstjórnum Sovétríkjanna, Bretlands og Bandaríkjanna var falið að hafa vörzlu samningsins. Síðan var hann lagður fram til undirskriftar í London, Moskvu og Washington 11. febr. 1971. Hér er því um nokkuð langan aðdraganda að ræða að þeim samningi, sem hér er til umr. og verður að telja mikilvægt skref í átt til almennrar afvopnunar. og er því farið fram á heimild Alþ. til þess að staðfesta hann. Þann 3. febr. s.l., en það eru síðustu upplýsingar, sem ég hef, höfðu 81 ríki þegar undirritað þennan samning og 25 fullgilt hann.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að þáltill. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.