02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3467)

12. mál, samgöngumál Vestmannaeyinga

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, hefur þegar talað fyrir þessari till. og gert grein fyrir mörgum atriðum. Og kannske finnst einhverjum þm. ekki ómaksins vert, að fleiri flm. taki til máls, en samt langar mig til þess að segja nokkur orð í sambandi við þetta mál. En till. þessi til þál., sem hér er til umr., um samgöngumál Vestmannaeyja, verður sennilega ekki til þess, að þm. almennt sperri eyrun venju fremur vegna þess frumleika, sem í henni er falinn. Sannleikurinn er sá, að Vestmanneyingar hafa langtímum saman verið að klifa á þessu sama, en því miður oft með heldur litlum árangri. Og það er einmitt vegna þess árangursleysis, sem samgöngumálin eru að verða að nokkurs konar eilífðarmáli í málgögnum okkar Eyjamanna og í málflutningi okkar Eyjamanna, þegar við höfum fastalandið undir fótum. Eilífðarmálin hafa löngum verið Íslendingum hugleikin, og það er kannske á þeirri forsendu einni, að við eygjum nú einhverja von til þess, að þeir almennt fari að gefa þessu mikilvæga máli okkar gaum. En það hafa þeir á fastalandinu ekki gert hingað til.

Ég hef átt tal við nokkra þm. og reyndar einnig ráðh. um þetta mál, og ég get ekki leynt því, að sumum finnst t.d. fyrsti liður ályktunarinnar ekki vera svo sem neitt þingmál, ekki sé annað en að tala við Skipaútgerðina, senda erindi til einhverrar nefndar, sem standa eigi við hennar hlið og vera til ráðuneytis, þótt nær væri, að nefnd þessi væri þeirri útgerðarstjórn til eftirlits og ekki síður eftirrekstrar. Hafi einhvern tíma verið lífsmark með þessari nefnd, höfum við í Vestmannaeyjum svo sannarlega ekki orðið varir við fjörkippina í henni. Það er aðeins ein nefnd, sem skipuð hefur verið í þessu máli, sem sýnt hefur af sér þann dugnað að skila áliti um ferðir Skipaútgerðarinnar til Eyja og það þremur dögum eftir að hún var skipuð, en það var nefnd þriggja Vestmanneyinga, sem fyrrv. samgrh., hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, skipaði í vor. Og viti menn, eftir till. nefndarinnar var farið, og árangurinn varð sá, að Herjólfur var látinn annast svo daglegar ferðir milli Eyja og Þorlákshafnar, þótt með eftirgangsmunum væri. Og Skipaútgerðin græddi, en það er ekki plagsiður á þeim bæ, eins og alþjóð veit. Þessum ferðum var síðan hætt í des., og nefndin, sem sýnt hafði af sér slíka röggsemi, var sett af formlega með bréfi af núv. hæstv. samgrh. Bæjarráð Vestmannaeyja sendi bréf sama efnis og lesa má í fyrsta hluta þessarar till. til Skipaútgerðar ríkisins og samgrn. nú snemma á haustdögum. Síðast þegar ég vissi, hafði ekkert svar borizt við þessu bréfi, hvorki frá útgerð né rn., og þegar ég átti tal við hæstv. samgrh. nú á dögunum, hafði hann hvorki heyrt bréfið né séð. Það er að sjálfsögðu ekki ástæða til að taka það fram, að nokkuð hafi verið gert í málinu. Hvers konar vinnubrögð eru þetta hjá slíkum stofnunum, þegar svo mikilvægu og áríðandi erindi stærstu verstöðvar landsins er stungið undir stól af einhverjum skrifstofublókum þessara stofnana, sem telja sig þess umkomnar að láta slíkum bréfum ósvarað, sem til þeirra berast? Um þess konar vinnubrögð mætti vissulega tala langt mál. En af þessum vinnubrögðum má þó sjá, að ekki er óeðlilegt, þótt Vestmanneyingar séu orðnir uppgefnir á bréfaskriftum til slíkra stofnana. Þeir sjá sér þess vegna nauðugan einn kost að leita beint til Alþ. í málinu, óska eftir samþykki þess til að skora á ríkisstj., að hún hlutist til um, að Þyrnirósarsvefni stjórnar Skipaútgerðarinnar ljúki og það sem fyrst. Þess vegna er þetta mál þingmál, þótt það þurfi kannske ekki að vera það við normal aðstæður og eðlileg vinnubrögð.

Mig langar til að nefna eitt dæmi. Í síðustu viku var ekki flogið til Vestmannaeyja frá sunnudagsmorgni þar til síðdegis á fimmtudegi. Á sama tíma var aðeins ein áætlunarferð Herjólfs. Hafi bílar farið með þessari ferð, geri ég ekki ráð fyrir, að þeir hafi verið betri eftir, standandi á dekki í hartnær 15 tíma í slæmu veðri. Þetta eru þær samgöngur, sem okkur Eyjabúum er boðið upp á, svo að ekki sé minnzt á, hvernig fer, þegar Herjólfur þarf að setjast í slipp, svo sem gengur og gerist með önnur skip.

Í síðustu viku voru til umr. samgöngumál á Vesturlandi vegna fsp. hv. þm. Benedikts Gröndals. Komu þar ýmis atriði fram. T.d. var talað um brú yfir Hvalfjörð. Síðan hefur verið minnzt á brú yfir Borgarfjörð, og að lokum kom hæstv. ráðh. með þá hugmynd, að flytja ætti fólk upp á Akranes með þyrlum, sem hv. þm. Guðlaugur Gíslason nefndi reyndar áðan, svo sem eins og á klukkutíma fresti, þrátt fyrir ágætan akveg þangað og sæmilega vegi um héraðið. Var þeim vestanmönnum allmikið niðri fyrir og þótti þeim greinilega, að ekki væri vel að þeim búið hvað samgöngur snerti. Hv. 2. þm. Vesturl., Jón Árnason, sagði að ekki þætti honum mikið til þessarar lausnar koma. Það sem þyrfti að koma, væri myndarleg bílaferja fyrir alla bíla, þ.á.m. hlaðna vöruflutningabíla. Ekki skal ég gera litið úr þörfum þessa fólks til bættra samgangna. En ég vil benda hv. þm. á aðstöðumuninn í skipaferðunum einum annars vegar milli Akraness og Reykjavíkur og hins vegar milli lands og Eyja. Eins og hefur raunar komið fram, eru aðeins tvær ferðir, sem Herjólfur fer milli Eyja og Reykjavíkur á viku, en Akraborg fer þrjár ferðir milli Akraness og Reykjavíkur, ekki á viku, heldur á dag, sem þýðir 21 skipaferð milli Akraness og Reykjavíkur á viku.

Yfirleitt er leiðinlegt að vera að gera slíkan samanburð milli staða. En þess vegna hef ég nú minnzt á þetta og gert samanburð á aðstöðu tveggja sambærilegra kaupstaða, þótt annar sé í vegasambandi, en hinn af eðlilegum ástæðum ekki, til þess að þm. sé ljóst, hvert ófremdarástand við búum við í þessum efnum og hversu nauðsynlegt er að bregðast skjótt við og finna bráðabirgðalausn á samgöngumálum okkar Eyjamanna. Þá bráðabirgðalausn er að finna í fyrsta lið þessarar till.

Herra forseti. Ég hef nú dvalið nokkuð við fyrsta lið þessarar till., ekki sízt vegna þess, að ég hef hlerað, að til séu þeir, sem álíta, að þessi liður eigi ekkert erindi sem þingmál. En ég veit, að hv. þm. þekkja starfsmenn í kerfinu, sem ekki hreyfa sig nema undan þrýstingi að ofan, hversu mjög sem á þá er gengið, af þeim sem þjónustu eiga að njóta.

En hver er þá meginvandinn í samgöngumálum Eyjamanna? Hver er flutningaþörfin? Hafa skapazt nýjar þarfir, og eru þær þess eðlis, að sanngjarnt sé að eyða fé til að fullnægja þeim? Og hvernig er hægt að leysa aðalvandann með tryggustum og um leið raunhæfustum hætti? Þessar spurningar eiga fyllilega rétt á sér og hv. þm. eiga ekki síður kröfu til að fá svör við þeim. Ég mun leitast við að svara þessum spurningum í nokkru máli og eftir beztu getu.

Að mínu áliti er öryggisleysið stærsta meinið. Eins og segir í grg., er mikið um að vera í Vestmannaeyjum mestan hluta ársins við fiskveiðar og fiskvinnslu og þjónustugreinar kringum þessar undirstöðugreinar þjóðfélagsins. Ekki fer hjá því, að sækja þarf marga hluti til Reykjavíkur, og hirði ég ekki um að rökstyðja það nánar. Þótt erindi fólks til höfuðborgarinnar þurfi ekki að taka langan tíma og í mörgum tilfellum megi ekki eyða miklum tíma í þau, þá geta menn aldrei vitað fyrir víst, hvenær þeir koma til baka. Eins dags erindi getur tekið 4–5 daga, ef þannig stendur á veðri. Fólk, sem fengið hefur menntun sína í Reykjavík, fer ógjarnan út á land, nema það geti haft náið samband við höfuðstaðinn. Það fæst síður til starfa í Eyjum en víða annars staðar, þar sem það getur setzt í sinn bíl og rúllað í borgina á einum eða tveimur klukkutímum, eða þar sem það getur treyst betur á flug milli staða en Eyjaflugið býður upp á. Ég hygg, að það sé ekki sízt sökum þessa öryggisleysis, sem illa gengur að fá menntafólk til starfa í Eyjum. og t.d. get ég nefnt, að við fáum einfaldlega enga menn með kennsluréttindi, þau sem tilskilin eru, til starfa t.d. við gagnfræðaskólann. jafnvel þótt ýmis fríðindi séu í boði umfram þau laun, sem gert er ráð fyrir. Það er einnig vegna þessa öryggisleysis, sem ferðamenn, innlendir og erlendir, leggja ekki í að koma til Eyja, jafnvel þótt flogið sé, því að þeir geta ekki vitað með neinni vissu, hvenær þeir komast til baka, og margir þessara ferðamanna, einkum útlendra, eru ákaflega tímabundnir. Þeir þurfa að miða við þá ferðaáætlun, sem þeir hafa gert á sínu ferðalagi. Þess vegna er ekki líklegt, að tíðar skipaferðir verði til þess að draga úr flugi til Eyja, með því að ferðamenn sæktu þá þangað í vaxandi mæli.

Með vaxandi bílaeign landsmanna hefur bifreiðum fjölgað mjög í Vestmannaeyjum. Það er alls ekki óeðlilegt, þótt Vestmanneyingar, sem bíla eiga, vilji hafa einhver not af þjóðvegakerfinu eins og aðrir landsmenn, og ekki ber á öðru en þeir þurfi að borga það eins og allir aðrir. Hvernig eiga þeir að hafa not af þessu vegakerfi? Þá sýnist hverjum manni það liggja í augum uppi, að fyrst þarf að flytja bílana sjóleiðis í land. Ástandið í þeim efnum er nú vægast sagt lélegt. Herjólfur getur flutt 5—7 bíla í ferð, og fer það eftir stærð fólksbílanna. Eingöngu er um að ræða pláss á dekki, lítið og óhagkvæmt. Standa bílarnir þar í sjóbaði klukkutímum saman og hafa margsinnis orðið fyrir alvarlegum skemmdum í flutningum. Fyrir þessa flutninga þurfa menn síðan að greiða hátt flutningsgjald, þótt fyrrv. samgrh. hafi staðið fyrir lækkun á því, en þar fyrir finnst Eyjabúum, að lengra þurfi að ganga í lækkunarátt, allt að algerri niðurfellingu, ef farþegar fylgja með, eins og sums staðar tíðkast í öðrum löndum.

Til þess að auka öryggið í samgöngum milli Eyja og lands og til þess jafnframt að koma bifreiðum okkar Eyjamanna í samband við vegi uppi á landi, held ég, að til sé eitt og aðeins eitt sæmilega raunhæft ráð. Það er nýtt ganggott skip, sem tekið gæti farþega og margar bifreiðar í örugga geymslu neðan dekks, skip sem færi minnst eina ferð daglega milli Eyja og Þorlákshafnar, að svo miklu leyti sem veður hamlaði ekki ferðum þess.

Hvað þann lið snertir, sem fjallar um svifskipið, get ég litlu bætt við það, sem hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, hefur haft að segja um það mál. Ég hef farið með slíku skipi, og persónulega álit ég, að tækni á þessu sviði sé ekki nægilega langt á veg komin, til þess að ekki verði um allmikil frátök að ræða á ferðum slíks skips á þessari leið fyrir opnu hafi og brimlending við sandinn, einkum að haust— og vetrarlagi. Svifskip það, sem helzt er talið koma til greina, þolir aðeins 4 feta öldu, svo að það sigli með eðlilegum hætti á fullum hraða. 4 fet eru um 120 cm, og svo lítil alda má heita sléttur sjór. Ef aldan má ekki fara yfir svo sem 2—3 m, hvað þá aðeins rúman metra, er sýnilegt, að það er varla nothæft nema um sumarmánuðina, en við það væri vissulega mikið unnið. Þess vegna einmitt tel ég mjög æskilegt, að það mál væri kannað gaumgæfilega.

Herra forseti. Í þeirri grg., sem fylgir frv,, er sannarlega ekki um neinn frekjutón að ræða. Þar er auðsjáanlega ekki verið að fela ljósustu punktana í sambandi við samgöngumál okkar Vestmanneyinga, og það er vel. Það gæti frekar orðið til þess, að menn færu síður að rífast um, hver hefði gert þetta og hver hefði vanrækt hitt. Og ég kann ekki við að veitast að fyrrv. hæstv. samgrh. í fjarveru hans, þar sem hann getur þá ekki svarað fyrir sig. Hins vegar er það ljóst af ártalinu, sem segir. hvenær flugbrautin fyrri var gerð í Eyjum. að það eru 25 ár, það er aldarfjórðungur síðan, og sýnilegt hverjum manni, að framkvæmdahraðinn hefur ekki verið ákaflega mikill. Enn er þessi braut malarbraut, enn er þessi braut aðalflugbraut. Að hún skuli enn þá vera malarbraut, er mjög alvarlegt mál, því að ofaníburður er af skornum skammti til í Eyjum. Þrátt fyrir þverbrautina, sem upphaflega var teiknuð 1.320 m, en hefur ekki enn nema rúmlega 900 m nothæfa lengd, eru u.þ.b. 90 áætlunarferðir, sem fella þarf niður vegna veðurs árlega.

Ég get getið þess í leiðinni, að fjórðungur þeirra farþega, sem Flugfélag Íslands flytur á hverju ári, eru farþegar til og frá Vestmannaeyjum. Á síðasta ári flutti Flugfélag Íslands eitthvað u.þ.b. 108 þús. farþega á innanlandsleiðum og að mig minnir 336 í viðbót, en Vestmannaeyjaflugið hefur á undanförnum árum verið u.þ.b. 25 þús. og upp í rúm 27 þús. Til Akureyrar fljúga eitthvað nálægt 50 þús., sem er met reyndar á fluginu, þannig að þessir tveir flugvellir flytja 75% eða nálægt því af öllum farþegum í innanlandsflugi í landinu. Ef litið er til Akureyrar með hliðsjón af þessu, sem ég sagði áðan, þá hafa þeir fyrir löngu fengið malbikaðan völlinn, talsvert af öryggistækjum og siglingartækjum ásamt radar. Þeir hafa t.d. tvo radíóstefnuvita, bæði inni á Akureyri og úti á Hjalteyri, þeir hafa fjölstefnuvita, sem er ákaflega mikils virði í yfirlandsflugi, einkum í blindflugi, og þeir hafa fengið fyrir löngu reista mjög myndarlega flugstöð, sem að þeirra áliti er orðin allt of lítil.

Stórt flugstöðvarhús er á Egilsstaðavellinum og ágætt á Ísafirði. Um slíkt er ekki að ræða í Eyjum. Þar er reyndar farþegaskýli nokkurt, sem mér er sagt, að sé gamalt hermannaeldhús að stofni til. Gólfflatarmál farþegasalarins þar er álíka og gólfflötur snyrtiherbergja karla á Egilsstöðum. Ég er hins vegar sannfærður um það, að fólk lítur ekki á smíði flugstöðvar sem brýnasta verkefnið í flugmálunum, heldur þessi:

1. Lengingu norðurbrautar, sem gæti fjölgað flugdögum mikið, einkum í suð-suðaustanátt.

2. Malbikun aðalflugbrautar, sem er alger nauðsyn, vegna þess að okkur skortir ofaníburð, og veitir meira öryggi.

3. Að betur verði gætt öryggisþáttarins en hingað til í sambandi við völlinn. En ég vil ekki og kann ekki við að fara nánar út í þá sálma hér, nema tilefni sé gefið til.

Sem sagt, ofantalin atriði eru nauðsynlegust í sambandi við flugið og nýtt ganggott skip, sem færi til Þorlákshafnar á u.þ.b. 6. tveimur klst., skip, sem tæki bíla undir dekk og farþega. Þetta skip gæti leyst tvö höfuðvandamál samgangna okkar, þ.e. öryggi í ferðum og auknar kröfur um bætt skilyrði til bifreiðaflutninga. Við Vestmanneyingar teljum, að við höfum verið all afskiptir í samgöngumálum miðað við marga aðra staði, sérstaklega með tilliti til þess, að við erum svo settir að hafa aldrei vegasamband.

Ég veit, að ríkið hefur og hefur haft takmarkað fé til samgöngubóta úr að spila, og má lengi deila um, hvert verkefni sé mest áríðandi hverju sinni. Hafi þær framkvæmdir, sem ég hef nú nefnt sem allt að því endanlega lausn á samgönguvandræðum okkar, ekki verið taldar nægilega áríðandi hingað til, vonast ég til, að yfirvöld samgöngumála fari að líta á þær sem næsta mál á sinni framkvæmdadagskrá.

Herra forseti. Að lokum vil ég segja þetta: Ónógar og óöruggar samgöngur við þetta stórkostlega mikilvæga byggðarlag standa eðlilegri þróun þess fyrir þrifum. Það er óviturlegt að svelta fuglinn, sem verpir gulleggjunum, hvað þá að ganga að honum dauðum. Að lokum vil ég mælast til þess, að umr. verði frestað og þáltill. verði vísað til fjvn.