02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (3468)

12. mál, samgöngumál Vestmannaeyinga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Tveir hv. þm. Sunnl. hafa nú mælt fyrir till. til þál. á þskj. 12 og gert ítarlega grein fyrir samgönguþörfum Vestmanneyinga og þeirri algeru sérstöðu, sem sá kaupstaður vitanlega hefur, þar sem hann er á eyju. Það skal enginn vera fúsari til þess en ég að viðurkenna, að þessari sérstöðu ber að mæta með margvíslegum og öllum tiltækum úrræðum raunar, og það jafnframt játað, að Vestmanneyingar hafa auðvitað verið á margan hátt mjög afskiptir um samgöngumöguleika, og hefur þó úr ýmsu verið bætt frá því, sem áður var. Ég hygg t.d., að það hafi verið viðurkennt, að það hafi verið allnokkurt átak og til mikilla bóta í samgöngumálum Vestmanneyinga, þegar skipið Herjólfur var byggt og það hóf reglubundnar ferðir aðallega milli Reykjavíkur og Vestmannaeyjakaupstaðar og þó einnig austur til Hornafjarðar. Vel má vera, að það úrræði, sem þá var til mikilla bóta, sé nú ófullnægjandi með öllu, og ber því að leita annarra möguleika, eins og lagt er til í þessari till.

Það var tekið hér fram áðan, að sumir væru þeirrar skoðunar, að fyrsti liðurinn í þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, væri tæpast þingmál, og ég er einn í hópi þeirra, og það var einmitt ég, sem sagði við hv. 2. flm.. að þetta teldi ég alls ekki vera þingmál, að grípa inn í um það hjá stjórn Skipaútgerðar ríkisins, hversu margar viðkomur skip ætti að hafa á einstakri höfn. Það er mín skoðun. Ég man aldrei til þess, að Alþ. hafi fyrirskipað um viðkomufjölda skipa á Seyðisfjörð eða Ísafjörð eða neinn kaupstað á landinu, og þetta helgast ekki heldur af sérstöðu Vestmannaeyja á nokkurn hátt. Vitanlega er það alveg sjálfsagt verkefni Skipaútgerðar ríkisins að haga áætlunum og viðkomustöðum skipa útgerðarinnar eins og þörfin heimtar og hagkvæmast er. Og sízt af öllu ætti að þurfa að grípa þarna inn í, þar sem nýlega hefur verið gerð sú bragarbót á stjórn þessa fyrirtækis að setja stjórnarnefnd, ef ekki nokkra forstjóra, við hliðina á þeim forstjóra, sem fyrir var. Og þá hefði því verki að semja áætlun og ákveða um viðkomustaði Skipaútgerðarinnar á einstakar hafnir átt að vera sómasamlega borgið að minni hyggju. Ég tel, að ef stjórnarnefnd eða forstjóri stofnunar þykir ekki leysa hlutverk sitt réttilega af hendi og þar þurfi um að bæta og reka á eftir, þá sé engin leið sjálfsagðari en sú, að ráðh. sá, sem stofnunin heyrir undir, skrifi viðkomandi stofnun bréf og gefi fyrirmæli um að sinna verkefninu. Það er það einasta, sem var sjálfsagt í þessu tilfelli, og fyrrv. ráðh. hefði áreiðanlega getað kippt því í lag með bréfi og gefið ákveðin fyrirmæli, eins og hann gerði fyrir kosningarnar, er hann setti aðra nefnd við hliðina á forstjóra og stjórnarnefnd þáv. stjórnarflokka til þess eins að semja áætlun um ferðir Herjólfs milli lands og Eyja. Þessi nefnd kom saman fyrir kosningar og gerði brtt. um ferðaáætlunina, og það voru teknar upp tíðari ferðir milli Eyja og Þorlákshafnar, sem virðist ekki hafa þurft sérstaka nefnd til ofan á hina nefndina. Mér fannst þetta vera að setja hverja silkihúfuna upp af annarri, og ég játa þá sök á mig, að þegar þessi nefnd hafði starfað og komið með þessar till. og þær höfðu fengið reynslu í framkvæmd, þá sá ég ekki annað en að hlutverki hærri silkihúfunnar væri lokið og tók hana af. Það er alveg rétt, ég játa það afbrot á mig. En neðri silkihúfan, hún er þar enn.

Nei, ég held, að þetta mál um áætlanirnar til Eyja ætti nú að vera nokkurn veginn leyst. Hafi reynslan sýnt, að það var ábatasamur rekstur, — eins og hér hefur komið fram í ræðum og ég rengi ekki,—það var ábatasamur rekstur að haga ferðunum svona og vinsæl og þörf samgöngubót að því, þá læt ég mér ekki detta í hug, að forstjóri og stjórnarnefnd breyti þessum háttum aftur í fyrra horf. Það væri alveg furðulegt, enda er ég viss um, að þá mundu Vestmanneyingar láta til sín heyra og ráðh. þá láta gefa fyrirmæli um að kippa því aftur í hið reynda, farsælla horf.

Fyrsti liður þessarar till. er þess efnis, að hann á ekkert erindi inn á Alþ. Hann er að vísu skaðlaus, en það er alveg gefinn hlutur, að þetta er ekki þingmál.

En þá kemur að hinum liðunum þremur. Þeir eru allir þess eðlis, að það er alveg sjálfsagt, að Alþ. fjalli um þau atriði. Annar liðurinn er um það að athuga möguleika á kaupum á svifskipi til farþega— og bifreiðaflutnings milli Eyja og meginlands. Það hefur verið minnzt á hina fyrri tilraun, þá tilraun, sem gerð hefur verið með svifskip, ég hygg, á árinu 1968. Eins og ég hef heyrt álit fólks um þá tilraun og niðurstöður hennar, þá hygg ég, að það hafi orðið skoðun manna, að slíkt skip hentaði ekki í samgöngum milli lands og Eyja, hvorki til fólksflutninga, bílaflutninga eða annarra vöruflutninga, nema í algerlega ládauðum sjó, en það er ekki alltaf milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Ég hef ekki oft farið þá leið, en nokkrum sinnum hef ég þó farið hana. Ég held, að það þýði ekki neitt að leita þeirrar lausnar á málinu, nema því aðeins, að stórkostlegar umbætur og framfarir hafi orðið í þróun svifskipa síðan tilraunin var gerð. En ef svo er, og það skal svo sannarlega verða kannað af þar til hæfum mönnum, ef svo er, að stórkostleg þróun hafi orðið í þessari gerð samgöngutækja, þá er auðvitað sjálfsagt að verða við öðrum lið þessarar till. og kanna það til hlítar, hvort þær breytingar séu líklegar til þess að sníða af þá annmarka, sem þóttu eiginlega gera það augljóst, að svifskip hentaði ekki, þegar tilraunin var gerð.

Mér skilst á till., að það sé þá fyrst, ef athugun á möguleikum á því, að svifskip leysi vandann, verði neikvæð, ef niðurstaðan verði neikvæð af því, þá eigi að koma til framkvæmda á þriðja lið, að hefja undirbúning að byggingu nýs og hentugs skips til farþega-, vöru— og bifreiðaflutninga milli Vestmannaeyja, Þorlákshafnar og Reykjavíkur. Þó virtist mér vera verulegur skoðanamunur milli flm. um þetta. Ég heyrði ekki betur en að sá hv. þm., sem síðar talaði, afskrifaði eiginlega þennan möguleika með svifskipið svona nokkurn veginn örugglega, en mér heyrðist, að 1. flm. væri eiginlega á því, að þarna væri um mjög athyglisverða möguleika að ræða og það væri aðeins, þegar búið væri að rannsaka þann möguleika um svifskipið og komast að þeirri niðurstöðu, að það leysti ekki málið, að þá ætti að hefja undirbúning að byggingu nýs og hentugs skips til farþega— og vöruflutninga. Nú, en látum það vera. Sú yrði vafalaust röðin, að það yrði, hvort sem það tæki lengri eða skemmri tíma, að kanna annan liðinn. Þá kæmi að því að hefja undirbúning að byggingu nýs og hentugs skips til þessa hlutverks, og svo kæmi aftur til athugunar, hvort hlutverki Herjólfs væri þá ekki þar með lokið sem Vestmannaeyjaskips, og geri ég þá ráð fyrir, að það væri ætlunin.

Ég held, að það sé alveg rétt hjá hv. 5. þm. Sunnl., að til bifreiðaflutninga milli lands og Eyja hentar ekkert skip nema bílarnir séu lokaðir undir þiljum, því að margir flutningar á einu ári með sjóágjöfum mundu gereyðileggja bílakost Eyjamanna, langt umfram það, sem aðrir landsmenn yrðu að búa við, svo að bílaflutningar yrðu ekki leystir öðruvísi en með tveggja þilfara skipi, þar sem bílarnir væru innilokaðir. Það sér hver maður, að það yrði vissulega dýrt skip, sem til þess þyrfti.

Það er alveg sama með fjórða liðinn. Ég álít, að það allt, sem flm. hafa sagt um hann, um endurbætur í flugmálum Vestmanneyinga, séu orð í tíma töluð. Það er rétt, að þeir hafa lengi orðið að búa við eina flugbraut, og það reyndist ófullnægjandi. Síðan var annarri flugbraut bætt við, og það var viðurkennd mikil bót, en hún er of stutt og þarf lengingar við. Og rétt er það, sem þeir segja, að hér er ekki um malbikaðan flugvöll að ræða, hann er ekki lýstur að neinu ráði, og flugstöðvarbygging er þar engin. En þetta er, mínir kæru, lýsingin á öllum flugvöllum Íslands utan Keflavíkur— og Reykjavíkurflugvallar og Akureyrarflugvallar, skulum við segja. Þetta eru malarflugvellir, lítt eða ekki lýstir, og flugstöðvarhús hafa verið afar sjaldséð. Það er aðeins örskammur tími síðan það varð að notast við smáskúr á Ísafjarðarflugvelli, sömuleiðis er örstutt síðan Egilsstaðaflugvöllur fékk sína flugstöð, og þessi flugskýli eru engum mönnum bjóðandi. Þar eru ekki salerni, þar er ekki hægt að fá vatnsdropa, hvað þá heldur, að hægt sé að fá þar kaffi eða gosdrykkjaveitingar, kaldar veitingar, þó að menn verði að bíða klukkutímum saman á þessum flugvöllum. Þetta er ósköp ófullkomið hjá okkur enn þá og er bein afleiðing af því, að hv. Alþ. hefur ekki látið nema allt of takmarkað fé til flugmála, þrátt fyrir það hversu gildur þáttur flugmálin eru orðin í samgöngumálum þjóðarinnar. Og það get ég sagt, að þó að Alþ. verði svo víðsýnt að tvöfalda fjárveitingu til flugmála núna á næsta árs fjárlögum, þá verður aðeins örlitlu hægt að koma í verk af þeim margföldu verkefnum, sem bráðrar úrlausnar bíða, að því er snertir öryggisbúnað íslenzkra flugvalla. Það er t.d. til áætlun um, hvað það kostar að ganga lögformlega og sómasamlega frá brautunum í Vestmannaeyjum, án þess að malbikun sé tekin með inn í dæmið. Bara að ganga löglega frá hliðarlínum vallarins, endum flugbrautanna, þannig að ekki sé þverhnípi þar fram af, ef flugvél fer út af braut, út af hlið eða enda brautar. Hvað haldið þið, að það kosti samkv. þessari áætlun? Hún er ekki ýkt, hún er sennilega sízt of há, 40 millj. kr. þ.e. meira en helmingur þeirrar upphæðar, sem líklegt er, að Alþ. fáist til að veita til allra flugmála á Íslandi á næsta árs fjárlögum. Svona æpa verkefnin á okkur í þessu efni, og þó að ég undirstriki það, að sérstök ástæða sé til þess á stað eins og í Vestmannaeyjum að ganga vel frá flugvellinum þar, þannig að hann nýtist sem allra flesta daga ársins, bæði með góðri lýsingu, að vel sé gengið frá jöðrum flugbrauta, endum og hliðarköntum, og að flugbrautin verði malbikuð sem fyrst og við fáum flugstöð að sjálfsögðu, þá eru ákaflega litlar líkur til þess, nema Alþ. taki algerum sinnaskiptum í afgreiðslu fjárveitinga til flugmála, að það verði draumur, sem rætist á næsta ári. En það er vissulega ætlunin að vinna að endurbótum á Vestmannaeyjaflugvelli með eins ríflegum hluta af því fé, sem veitt verður til flugmála, eins og möguleikar verða taldir til af flugráði og flugmálastjóra. Flugbrautirnar í Vestmannaeyjum hafa svo sannarlega komið þar einna fyrst til tals, þegar rætt hefur verið um verkefni næsta árs til umbóta á flugvöllum landsins.

Ég tel, að annar, þriðji og fjórði liðurinn séu verkefni, sem sannarlega er vert að gefa gaum og alveg sérstaklega með tilliti til sérstöðu Vestmannaeyja og Vestmanneyinga. '

Könnun skal fara fram, því heiti ég, á eiginleikum flugskipa eins og þau eru nú fullkomnust og hér gætu átt við. Síðan skal hafin athugun á gerð og stærð Vestmannaeyjaskips, ef Herjólfur telst vera orðinn ófullnægjandi. Endurbætur á flugvellinum eru kannske þýðingarmesta atriðið og það, sem ætti að vera hægt að ráða fyrst bót á, ef fé ekki skortir, en það er allt undir Alþ. komið.

Um hitt atriðið, fyrsta atriðið, þar sem ég aflífaði nú efri silkihúfuna, tel ég þá tvöföldu skyldu hvíla á mér, ef ekki fæst sómasamlegt form um viðkomur Vestmannaeyjaskips í Þorlákshöfn eða Reykjavik, að þá hafi ég tvöfalda skyldu til þess að gefa fyrirmæli um það, að þar skuli farið eftir fenginni reynslu og að vilja Vestmanneyinga.