02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (3469)

12. mál, samgöngumál Vestmannaeyinga

Flm. (Guðlangur Gíslason):

Herra forseti. Ég verð að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann mælist til þess, að samgrh. komi hér í salinn, því að hann situr nú niðri í Kringlu og er vonandi ekki það upptekinn, að hann geti ekki mætt hér. Ég þarf að beina máli mínu til hans. (Forseti: Við skulum koma boðum til hans.) Ég sé, að hæstv. samgrh. er kominn í salinn, þannig að ég ætti að geta hafið mál mitt.

Hæstv. samgrh. taldi hér áðan, að fyrsti liður þeirrar till., sem ég ásamt tveimur öðrum þm. úr Suðurlandskjördæmi hef flutt hér, væri ekki þinglegur. Ég hygg nú, að það sé nokkuð erfitt kannske að dæma um það, hvað sé þinglegt og hvað ekki þinglegt í sambandi við flutning á till., en svo mikið er víst, að á síðasta þingi voru fluttar hér tvær þáltill. nákvæmlega sama efnis. Annað var till. hv. þm. Helga Bergs á þskj. 40, sem flutt var í Sþ., og hin þáltill. Karls Guðjónssonar, sem flutt var á þskj. 152, og báðar eru þess efnis, að ríkisstj. hlutist til um að láta Skipaútgerð ríkisins taka upp daglegar ferðir milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Ég heyrði ekki einn einasta þm. þá og ekki ráðh. eða neinn annan hreyfa því, að þarna væri ekki um alveg þinglegt mál að ræða, þannig að mér kemur það ákaflega einkennilega fyrir sjónir, ef núv. hæstv. samgrh. er á annarri skoðun en allur þingheimur var á s.l. ári, þannig að ég ætla mér síður en svo að fara að biðjast afsökunar á því, að þessi liður sé í till. Og hann er þar alls ekki að tilefnislausu. Sannleikurinn er sá, sem hæstv. ráðh. vildi nú gera lítið úr, að fyrrv. samgrh. skipaði nefnd manna heima í héraði á s.l. vetri — það var ekki neitt fyrir kosningar, það var í byrjun árs, ef ég man rétt, — til þess að gera till. um úrbætur í samgöngumálum Vestmanneyinga. Þetta var ekki gert að tilefnislausu. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum og einstaklingar höfðu árum saman reynt að fá forráðamenn Skipaútgerðar ríkisins til þess að breyta áætluninni og gera hana aðgengilegri fyrir Vestmanneyinga með þessu skipi, sem fyrir hendi var, og nýta það betur í þágu byggðarlagsins, eins og við sáum fram á, að mjög auðvelt var að gera. Öll þessi tilmæli okkar, bæði einstaklinga og bæjaryfirvalda, höfðu verið hunzuð. Það var þar alveg þvert nei við öllu. Þó mjakaðist þetta svo til á sínum tíma, að það voru teknar upp ferðir um helgar milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, en það var ekki vegna þess, að Ríkisskip hefði forgöngu um það, það var eftir beinum tilmælum frá okkur heima í héraði. Það var sem sagt verið að láta það eftir okkur að nýta skipið á þennan hátt. Og afleiðingin varð sú, að við snerum okkur beint til rn., sem hefur með þessi mál að gera, og fórum fram á það að fá að gera till. um ferðir skipsins og ferðaáætlun þeirra yfirstjórnarmanna. Við þessu var orðið með þeim árangri, að ég er sannfærður um það, að hver einasti maður í Eyjum og hver einasti maður, sem hefur þurft að nota skipið, hefur séð, að þarna var alveg rétt að farið. Það var full þörf fyrir skipið, og það var rétt, sem hv. 5. þm. Sunnl. sagði hér áðan; þetta er sennilega í einasta skiptið, sem Ríkisskip hefur nokkurn tíma grætt yfir visst tímabil, því að ég hygg, að það verði erfitt að sannfæra okkur um það, að með þeim flutningum, sem með skipinu voru þessa þrjá mánuði eða rúma þrjá mánuði, sem það gekk milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, hafi orðið tap á rekstrinum.

Ég tel nú, að till. okkar sé síður en svo óþingleg. Og ástæðan fyrir því, að hún er tekin upp nú, er einfaldlega sú, að þegar núv. hæstv. samgrh. tók við, þá er það rétt, sem hér kom fram, að það var eitt af hans fyrstu verkum að setja þessa nefnd eða það, sem hann vildi nú kalla „silkihúfuna“, formlega af með bréfi. Ég held, að það sé nú kannske heldur fátítt í okkar stjórnkerfi, að ólaunuð nefnd sé formlega sett af með ábyrgðarbréfi. Þetta gerðist þó. Hæstv. ráðh. ætti nú að tala allvarlega um „silkihúfur“ í sambandi við nefndaskipun. Ég hygg, að þær séu orðnar allmargar bæði hjá honum og öðrum, síðan núv. ríkisstj. tók við, þó að ekki sé langt um liðið. En þarna var um ólaunaða nefnd að ræða, ég vil taka það sérstaklega fram, sem hafði ákveðnu hlutverki að gegna og gerði það að mínum dómi, eftir því sem hægt var. Hún leysti sitt verkefni þannig af hendi, að það voru allir ánægðir og það var öllum til góðs, svo að ástæða var nú ekki mikil til þess að setja hana af, þó að það hafi nú verið gert. Og svo mikið er víst, að eftir að þessi nefnd var sett af, skeður það, að ferðum Herjólfs er fækkað á bezta tíma haustsins, í septembermánuði, úr sex niður í tvær á viku. Það getur vel verið, að hæstv. samgrh. telji það alveg nóg handa okkur, ég skal ekkert um það dæma. En þetta er gert undir hans verndarvæng, að forráðamenn Skipaútgerðarinnar eru látnir haga sér svona í sambandi við samgöngur til Vestmannaeyja. Skipið er kannske látið liggja fjóra daga vikunnar í höfn eða aðeins látið annast tvær ferðir í viku í staðinn fyrir, að það er með mjög góðu móti hægt að koma við tveimur Reykjavíkurferðum og tveimur Þorlákshafnarferðum í hverri viku, og það er full þörf fyrir þessar ferðir, bæði til flutninga á farþegum og vörum og bifreiðum. Það var því alveg ástæðulaust að fara að eins og gert var undir yfirstjórn hæstv. ráðh., þó að ég efist ekki um, að hann segi það rétt hér, að hann hafi ekki haft hugmynd um þetta. En þetta gerðist þó undir hans yfirstjórn.

Ég vil nú láta þetta nægja um það, hvort þessi till., þessi tiltekni liður, fyrsti liður, sé þinglegur eða ekki. En sams konar till. voru taldar þinglegar hér á síðasta þingi og voru ræddar og vísað til n. án aths. frá nokkrum einasta aðila.

Þá vildi ég aðeins koma að hugmynd okkar í sambandi við svifskipið. Ég held, að ég hafi látið það koma fram áðan, að hugmynd okkar í sambandi við svifskip er að nota það fyrst og fremst yfir vor—, sumar— og haustmánuði, þann tíma ársins, sem fólk vill geta ferðazt með sínar bifreiðar út úr bænum og komizt í beint samband við þjóðvegakerfið. Við gerum okkur sjálfir alveg ljóst og erum, að ég tel, mjög vel dómbærir um það, að þetta farartæki mundi ekki vera nothæft að vetrarlagi, þegar veður eru verst. En mér þykir furðulegt, ef hæstv. samgrh. hefur um það upplýsingar, að Vestmanneyingar hafi ekki talið, að þetta farartæki mundi leysa þeirra vanda, ef það fengist af þeirri stærð og gerð, sem þeir töldu sjálfir, að þyrfti að vera. Ég fylgdist mjög vel með, þegar skipið var til reynslu úti í Eyjum, fór með því margar ferðir og heyrði álit margra, sem fóru með því. Ég heyrði ekki í einum einasta manni, sem ekki gerði sér fulla grein fyrir því, að þetta mundi leysa vandann, sem við vorum að reyna að ráða fram úr. Hitt er rétt, að skipið var ekki talið heppilegt í þeim fáu ferðum, sem það fór frá Reykjavík upp á Akranes, af hverju sem það nú var. Um það skal ég ekki dæma. En til þess að komast inn úr brimlendingu og upp á ströndina og út aftur, þá er þetta eina farartækið, sem nú er þekkt, sem er megnugt að gera þetta. Og það fékk á sig mjög góða reynslu í eitt skipti. Ja, ég vil segja, við vorum það óheppnir kannske, að þennan hálfa mánuð, sem skipið var í Eyjum, þá var þar mjög sléttur sjór og að okkar dómi kannske allt of sléttur sjór allan tímann. Einn dagur kom þó þannig, að það var talið almennt og var sjáanlega verulegt brim við sandinn. Maður sá það utan úr Eyjum, að hvítbraut alls staðar við Landeyjasand, og þegar það sést utan úr Vestmannaeyjum, þá er þar orðið um verulegt brim að ræða. Þetta var síðasta daginn, sem skipið dvaldi þar. Englendingar vildu reyna sjálfir. Þeir tóku enga farþega með og létu enga vita af því nema lóðsinn í Vestmannaeyjum. Hann fór með þeim. Þeir vildu sjá, hvað þeir gætu komizt með skipinu. Þegar að sandinum kom, fóru þeir gegnum allan brimgarðinn beina leið upp í sandinn, sneru svo við og fóru út úr brimgarðinum aftur, þannig að þetta sannfærði okkur, sem höfum fylgzt með þessum málum, alveg um það, að við værum þarna búnir að fá farartæki, ef það væri nægilega stórt, til þess að ráða fram úr þessum málum og það mundi leysa þessi mál fyrir okkur, ef það yrði keypt til landsins. En eins og ég sagði áðan, var þetta skip, sem var til reynslu, að okkar sjálfra dómi of lítið. Það hentaði vel til farþegaflutninga, en það hentaði ekki til bifreiðaflutninga.

Nú liggur það hins vegar fyrir, og ég skal vissulega láta hæstv. ráðh. og hans rn. fá allar þær upplýsingar, sem ég er með um byggingu þess skips, sem nú er að koma á markað vestur í Bandaríkjunum. Það er af mun stærri gerð og þolir meiri ölduhæð, og hægt er að innrétta það þannig, að það sé hægt að nota til farþega— og bifreiðaflutninga samtímis. Þegar talað er um ölduhæð, sem þessi skip þola, þá var miðað við 2.5 fet á hinu fyrra skipi, en 4 fet á þessu skipi eða 1.25 metra. Þá er ekki þar með sagt, að skipið þoli ekki miklu meiri ölduhæð. Hitt er rétt, að þeir í verksmiðjunni hafa í báðum tilvikum sagt, að ef ölduhæð fari fram úr vissu marki, þá fari að koma fram óþægindi fyrir farþega, fari að koma högg á skipið og óþægindi fyrir farþegana. En það liggur alveg í augum uppi og veit hver einasti maður, sem nokkuð þekkir inn á þessi mál, að það er hægt að komast fram úr því. Skipið þolir miklu meira, það þolir stórar öldur og háar öldur, ef ekki er um brotsjói að ræða. En það er hægt að komast fram úr þessu með því að keyra bara skipið aðeins hægar, hægja á ferðinni, eftir því sem talið er með þurfa. Og ég segi það alveg hiklaust, ef þetta skip leysti þennan vanda fyrir okkur með bifreiðaflutninga yfir á sandinn, þó að Vestmanneyingar þyrftu að taka á sig óþægindi í 10-15 mínútur þessa leið, þá mundi ekki einn einasti telja það eftir sér. Við erum orðin það vön því að velkjast á milli, bæði í lofti og á sjó, að við munum ekki telja eftir okkur, þó að því fylgdu einhver óþægindi að fara yfir sundið í 10—I5 mínútur. Hvað öryggi viðkemur, þá hef ég ekki heyrt annað en þessi skip væru talin mjög örugg, enda gefur það að skilja, að það er mjög mikið flot í þessum skipum. þó að vélar stöðvist. Þetta flýtur eins og björgunarbátur og kannske mjög vel útbúinn björgunarbátur ofan á sjónum. Það er björgunarskip í höfninni í Vestmannaeyjum og bátar alltaf nægilegir til að gripa inn í, ef eitthvað bæri út af, þannig að ég held, að það sé ekki ótti í einum einasta Vestmanneyingi um það, að ekki sé talið nægjanlegt öryggi í sambandi við þessar ferðir, ef farartæki af hentugri stærð er fáanlegt, en ég held því alveg hiklaust fram í dag, að það sé í byggingu. Það kemur í ljós. Þetta skip á að fara í reynsluferð vestur í Bandaríkjunum eða í Kanada nú í desembermánuði, og ef hæstv. samgrh. vildi hafa svo mikið við að kanna þetta mál á þann veg að senda þangað mann eða menn til þess að skoða skipið og kynna sér hæfni þess, þá mætti auðvitað fá úr því skorið að mínum dómi alveg nægjanlega, hvort þetta skip gæti hentað okkur við þær aðstæður, sem við eigum við að búa og sem við miðum notagildi þess við, þannig að það ætti ekkert að þurfa að tefja byggingu nýs skips, þó að þetta yrði kannað fyrst.

Það hefur alltaf verið í mínum huga að leggja fyrst og fremst áherzlu á að fá þetta farartæki, sem getur farið yfir þetta 12 km breiða sund milli Vestmannaeyja og lands. Ég vona, að margir þm. skilji, að það er allt önnur aðstaða fyrir okkur, ef við þurfum að skreppa til fastalandsins með okkar bíla, að fara 40 mílna leið til Þorlákshafnar eða 112 mílna leið til Reykjavíkur og eiga von á alls konar veðri á leiðinni, alls konar veltingi. Við höfum séð bíla fara þar forgörðum á leiðinni, bæði vera í kafi í sjó mest alla leiðina og ónýtast þannig eða bara hreinlega leggjast saman á dekkinu. Ég hef sjálfur verið með skipinu og horft á þetta, þannig að þetta mundi að því leyti gerbreyta aðstöðunni.

Mér þótti nú vænt um það, hvernig hæstv. ráðh. tók í hugmyndina um að byggja nýtt skip, ef þessi tilraun með svifskipið gæfi ekki góða raun. Mér skildist á honum, að hann teldi eiginlega eðlilegt, að það yrði þegar farið að gera ráðstafanir til þess að vinna að því máli. Og þá að sjálfsögðu, eins og okkar hugmynd hefur alltaf verið, að það yrði um bílaferju að ræða, þar sem bílunum væri ekið inn í skipin, þeir væru neðan dekks á leiðinni og þeim væri ekið út úr því aftur, því að það er ekki nóg með það, að við séum með bíla okkar í hættu á dekki á þeim skipum, sem flytja þá, heldur er það stórhættulegt, þegar verið er að hífa bílana um borð og frá borði aftur, og margir þeirra, kannske tugir þeirra, hafa laskazt meira og minna við það. Það þarf lítið út af að bera til þess, að bíll detti úr stroffu, eins og við höfum horft á, eða sláist utan í og skemmist af þeim orsökum. Þess vegna kemur að okkar dómi ekki annað til greina en að um þannig skip yrði að ræða, sem yrði bílaferja, farþegaferja og samtímis vöruflutningaskip. Við höfum kynnt okkur þetta mál nokkuð, og okkur er alveg ljóst, að það er hægt að sameina þetta allt. Það er hægt að byggja skip, sem uppfyllir öll þessi skilyrði. En það þarf enginn að blekkja sig á því, að þetta skip verður nokkuð dýrt í byggingu miðað við stærð þess. Það fer ekki hjá því. Aðstöðu í Vestmannaeyjahöfn til þess að aka bílunum inn í skipið er lítill vandi að skapa. Aðstaða í Þorlákshöfn er hins vegar mun erfiðari. Það er okkur sjálfum ljóst, en við teljum þó, að hægt sé að komast fram úr því með til þess að gera ekki neitt óviðráðanlegum kostnaði eða ekki neitt óeðlilegum kostnaði. Og auðvitað verður það lausnin á þessum málum okkar, ef hitt reynist ekki fært, sem ég tel þó og vona, að reynist, þegar til kemur, en undirstrika, að við höfum alltaf gert okkur grein fyrir, að þarna er fyrst og fremst um að ræða ferðir upp í sandinn yfir vor-, sumar- og haustmánuðina þegar um betra veður er að ræða en vetrarmánuðina, enda einmitt mest not fyrir skip af þessari tegund þann tíma. Vestmanneyingar gera lítið af því að flytja bíla á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar eða Reykjavíkur yfir vetrarmánuðina. Það er hrein undantekning, ef það er, og þá er venjulega hægt að komast fram úr því með því að fá að setja bílana í lest á einhverjum stórum skipum, sem ganga á milli, þannig að við mundum telja málin mjög vel leyst, ef það væru öruggar ferðir yfir þessa 6—7 mánuði.

Ég verð að segja, að mér þótti það mjög miður, sem hæstv. samgrh. sagði hér í sambandi við byggingu flugbrautarinnar. Ég hafði vænzt þess að fá þar nokkuð aðrar undirtektir. En hæstv. ráðh. taldi, ef ég hef skilið hann rétt, að við gætum varla vænzt þess, að þar yrði um nein stórátök að ræða á næsta ári. Ég veit jú ekki, hvort hæstv. ráðh. er búinn að kynna sér þetta mál hjá þeim mönnum, sem með þetta hafa að gera undir hans yfirstjórn, en viðhorfið er þannig í dag, að austurvesturbrautin er komin í þá lengd, sem Flugfélagið viðurkennir sem nægjanlega braut að lengd til fyrir þær vélar, sem hún notar hér, Fokker Friendship og Douglas. Suður- og norðurbrautin er aftur á móti þannig, að nothæfir af henni eru í dag 910 metrar. Þetta er ekki nægjanlegt að dómi þeirra aðila, sem þarna ráða, Flugfélagsins og þeirra trúnaðarmanna ríkisins, sem með flugmál hafa að gera. Þetta er ekki nægilegt til þess að veita flugvélum óhindrað lendingarleyfi. Lending þeirra á þessari braut er takmörkuð við viss veðurskilyrði, sem eru önnur en við austur-vesturbrautina, þannig að það hindrar lendingar á þessum hluta af þeim ástæðum. En nú er aftur aðalátakið það, sem gert var á s.l. sumri, að búa til uppfyllingu yfir geysilega erfitt landssvæði. Þarna var, ef ég man rétt, milli 10 og 20 m uppfylling, 40—60 m breið braut, 300–400 m að lengd. Það var geysilegt átak að gera þetta, en það var þó gert. En á þessa viðbót við brautina vantar aðeins slitlagið, ofaníburðinn í hana og slitlagið á brautina. Þetta er ekki neitt, sem kostar peninga, miðað við það, sem búið er að gera, þannig að ég vænti þess, að hæstv. samgrh. endurskoði það, sem hann sagði hér áðan, og sjái um, að brautin verði á næsta sumri komin í fulla lengd, þannig að Flugfélagið og þeir, sem ráða okkar flugöryggismálum, viðurkenni hana á sama hátt og austur-vesturbrautin er nú orðin viðurkennd, því að það er ekki nema sáralítið átak að gera hana þannig úr garði. Hitt er að mínum dómi ekki neitt verk, sem getur talizt, að slétta í kringum flugbrautina eins og byrjað var á í sumar. Það er búið að vinna þar grófasta verkið, aðeins eftir, eins og sagt er, að snurfusa það til og gera það kannske fallegra fyrir augað. En það var mjög þarft verk, og það var unnið vegna þess, að flugmönnunum óaði það að lenda á brautum, þar sem aðstaðan í kringum þær var þannig, að ef eitthvað bar út af, þá voru þeir lentir upp í grjóturð eða út í þær aðstæður, að ekki var nokkur von til, að vél hefði getað bjargazt út úr þeim. En þetta var að verulegu leyti bætt á s.l .sumri, og vænti ég þess, að áfram verði haldið með það.

Þá er það malbikun brautanna. Ég tel alveg hiklaust, að allar aðstæður séu þannig við brautirnar í Vestmannaeyjum, að þær verði að hafa þar forgang. Ég hygg, að það sé óvíða á landinu, sem aðstæður eru þannig, að það er ekki hægt með neinu góðu móti að skaffa ofaníburð í slitlag á brautunum. nema þá að flytja það annars staðar frá, kannske frá Reykjavík eða einhverjum svæðum annars staðar, því að þetta, sem við erum að gera í sambandi við ofaníburð í flugbrautirnar, tel ég, að megi alls ekki gera og við séum að gera það í hreinu óleyfi. Það er hægt að stöðva þetta hvenær sem er. Ég hygg, að Náttúruverndarráð hafi til þess fulla heimild að stöðva þetta hvenær sem er, en það hefur ekki verið gert. Við höfum sjálfir gert þetta í banni, eins og ég sagði hér áðan, en ekki verið sett á okkur lögbann enn þá, en þessu hefur verið mótmælt af Náttúruverndarráði, og okkur er það alls ekki sársaukalaust að þurfa að vera að rífa niður þetta fjall, sem við erum að stórskemma, þannig að það er eiginlega til lýta að koma að því loftleiðis sunnan frá. Frá bænum sést þetta ekki enn þá, en verði haldið áfram á sömu braut, þá kemur að því, að fjallið verður það mikið skemmt, að það hlýtur að sjást frá öllum hliðum. Þess vegna legg ég á það mjög mikla áherzlu, að hæstv. samgrh. geri sér fulla grein fyrir því, hvað þarna er að gerast. Það verður að ráða fram úr þessu. Þetta flugmál verður að mínum dómi að hafa forgang.