17.12.1971
Neðri deild: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

126. mál, almannatryggingar

Frsm. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Heilbr: og félmn. hefur haft frv. það, sem hér er til umr., til athugunar á nokkrum fundum og gert á því þær breytingar, sem fram koma í nál.

Með frv. er gert ráð fyrir, að tekjulágmark bótaþega hækki úr 7 þús. kr. á mánuði í 10 þús. kr. eða 120 þús. kr. á ári. Hér er um að ræða beint framhald af þeim ráðstöfunum, sem hæstv. heilbr: og trmrh. kom til framkvæmda með brbl. 19. júlí s.l., sem fólu í sér að flýta gildistöku laga nr. 67 1971 og að bótahækkanir samkv. þeim lögum yrðu greiddar frá 1. ágúst í stað 1. jan. 1972. Svo og er hér um efndir fyrirheita úr málefnasamningi ríkisstj. að ræða um, að greiðslur almannatrygginga til aldraðs fólks og öryrkja verði hækkaðar. Frv. felur og í sér mikla rýmkun á ákvæðinu um barnalífeyrisgreiðslur, og heimildarákvæði úr fyrri lögum eru hér gerð að skyldu. Einnig gerir frv. ráð fyrir því, að réttur karla og kvenna verði hinn sami við fráfall maka. Ýmis fleiri ákvæði eru í frv., svo sem um niðurfellingu hlutagreiðslu sveitarfélaga í bótahækkunum, aukin réttindi vegna slysadagpeninga o.fl.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv., enda hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. útskýrt það hér í d. með ítarlegri ræðu við 1. umr. málsins.

Þær breytingar, sem heilbr.- og félmn. leggur til, að gerðar verði á frv., eru fyrst og fremst, að felld verði niður 12. gr. um tryggingadóm. N. er ekki andvíg því, að slíkur dómur verði skipaður, en telur eðlilegra, að um það mál verði sett sérstök löggjöf, og leggur því til, að bætt verði við 1. gr. frv. á eftir orðunum „þeim úrskurði má áfrýja til tryggingadóms“ og þar komi: sem sett verði um sérstök löggjöf. Breyting þessi er gerð í fullu samráði við ráðh. og ráðuneytisstjóra heilbr.- og trmrn., svo og nm., sem sömdu frv.

Einnig leggur n. til, að seinni hluta 1. mgr. 2. gr. frv. verði breytt, og verður hann samkv. till. n. næstum því óbreyttur frá fyrri lögum.

Þá samþykkti n. að mæla með samþykkt ákvæða til bráðabirgða, sem bætast við frv., en n. bárust þessi ákvæði frá fjmrn. í gærmorgun.

Í nál. okkar komu fram aths. frá nm., þeim hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, Gylfa Þ. Gíslasyni og Ólafi G. Einarssyni, um þetta síðast nefnda atriði, svo og fleira, sem þau vildu sérstaklega benda á.