18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (3477)

12. mál, samgöngumál Vestmannaeyinga

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég er hlynntur þessari afgreiðslu nefndarinnar um þessa nefndarskipan, fullkomlega samþykkur, en ég vildi aðeins í leiðinni koma inn á þá ósk Vestmanneyinga, að á meðan ekki hefur fengizt viðunandi frambúðarlausn á samgöngumálum Eyjabúa, þá verði Herjólfur látinn fara sem flestar ferðir milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, a.m.k. á þeim árstíma, sem það er talið fært vegna veðurs, sem sagt að vor— og sumarlagi. Vestmanneyingar hafa margsinnis ítrekað þetta erindi og hafa nýverið sent útskriftir af samþykktum varðandi þetta mál. Í því tilefni vildi ég beina því til hæstv. samgrh., að hann hlutaðist til um, að Þorlákshafnarferðir verði hafnar sem fyrst með vorinu og haldið til hausts.