17.12.1971
Neðri deild: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

126. mál, almannatryggingar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þm. Alþfl. styðja þá breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir, og munu því fylgja frv. og stuðla að því, að það geti orðið að lögum, áður en Alþ. hefur jólaleyfi sitt.

Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 211 tvær brtt. Önnur er um breytingu á ákvæðum, sem í frv. eru, en þar er sú breyting gerð frá gildandi lögum, að fjölskyldubætur eiga samkv. frv. framvegis ekki að hækka sjálfkrafa í kjölfar breytinga á almennu kaupgjaldi, eins og lög gera nú ráð fyrir. Ég tel eðlilegt, að fjölskyldubætur eins og aðrar bætur hækki framvegis eins og hingað til í sama hlutfalli og kaupgjald breytist.

Þá er enn fremur rétt að vekja athygli á því, að hingað til hefur viðmiðunin við breytingar tryggingabóta verið við kaupgjald í almennri fiskvinnu, en samkv. frv. er ætlazt til þess, að framvegis verði miðað við breytingu á almennu Dagsbrúnarkaupi. Ég vek athygli á því, að þessi breyting hefur það í för með sér, að tryggingabætur 1. jan. n.k. munu hækka minna en þær hefðu gert, ef gömlu ákvæðin væru í gildi, þar eð kaupgjald í fiskvinnu hækkaði í síðustu samningum meira en almennt Dagsbrúnarkaup. Hins vegat skil ég þau rök, sem fyrir því hafa verið færð, að eðlilegt sé að miða breytingu á tryggingabótum við þá breytingu, sem verður á almennu kaupgjaldi verkafólks, og geri því ekki brtt. um þetta efni.

Þá hef ég leyft mér á sama þskj. að flytja brtt. um það, að fjölskyldubætur skuli áfram greiddar vegna þeirra barna, sem stunda framhaldsnám. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fjölskyldubætur eru nú greiddar til 16 ára aldurs, þ.e. einu ári eftir að skyldunámi lýkur nú, en einmitt til þess aldurs, sem gert er ráð fyrir, að skyldunám muni vara samkv. þeim breytingum, sem ég þykist víss um, að alveg á næstunni muni verða gerðar á fræðslukerfinu, að fræðsluskylda verði framvegis frá 7–16 ára aldurs, og þá ná fjölskyldubæturnar einmitt til barna, sem eru á fræðsluskyldustiginu. Nú er það og kunnara en frá þurfi að segja og um það þarf ég ekki að orðlengja, að það kemur sér mjög illa fyrir fjölskyldur, sem eiga börn í skóla, að einmitt þegar framhaldsnám er hafið, skuli fjölskyldubæturnar falla niður. Og meðan nemendur eru á framhaldsskólastigi, frá 16–17 ára til tvítugsaldurs, þá njóta þeir engrar aðstoðar vegná námskostnaðar, sem þó er meiri en í barna- og gagnfræðaskólum, frá hinu opinbera, þar til kemur á háskólastig. Þá kemur til af hálfu hins opinbera myndarleg aðstoð frá Lánasjóði ísl. námsmanna við þá, sem stunda háskólanám og annað hliðstætt nám. En það hefur lengi verið ljóst, að hér er eyða í aðstoðarkerfi hins opinbera við skólanemendur, þá skólanemendur, sem stunda framhaldsnám einmitt á þessu árabili, frá því að fjölskyldubætur falla niður og þangað til háskólanám eða annað hliðstætt nám er hafið. Til þess að bæta úr þessu hef ég leyft mér að flytja brtt. um, að ef börn og unglingar séu í skóla, þá skulu fjölskyldubætur greiddar vegna þeirra fram til 21 árs aldurs, nema því aðeins, að áður hafi komið til aðstoð af hálfu lánasjóðs ísl. námsmanna. Þá er ekki eðlilegt, að með slíkum nemendum séu greiddar fjölskyldubætur.

Svo telst til, að fjöldi í aldursflokknum 17–20 ára muni verða því sem næst 4300, og reikna má með, að í aldursflokkunum 17, 18 og 19 ára séu um það bil 55% í skóla, 6 mánuði eða lengur, en í 20 ára árgangi eru líklega um 40% í skóla. Ef miðað er við þessar hlutfallstölur, þá eru skólanemendur á þeim aldri, sem þessi nýju fjölskyldubótaákvæði mundu taka til, ef samþykkt yrðu, um 8815, og útgjaldaauki af þessum sökum mundi því verða um 52 millj. kr., eftir því sem næst verður komizt. Hér sýnist ekki vera um svo mikla fjárhæð að ræða, að ekki væri rétt að stiga þetta fyrsta spor til aðstoðar skólanemendum á framhaldsskólaaldri, sem nú njóta engrar aðstoðar. Mér er ljóst, að ef samþykkt verður að fella niður almannatryggingagjald og sjúkrasamlagsgjald, þá er í því fólgin veruleg hagsbót fyrir skólanemendur, sem hingað til hafa þurft að greiða þessi gjöld, en það hefði verið mjög æskilegt, að þeir þyrftu ekki að greiða þau. Ef það verður ofan á að fella þau niður, þá er þar vissulega um hagsbót að ræða, en ég hygg, að allir séu um það sammála, að sú hagsbót sé ekki nægileg, og rétt væri að stíga frekara spor til stuðnings þessu fólki.

Ég geri mér ljóst, að lítill tími er til athugunar á málinu. Ég orðlengi því ekki frekar um þetta, þó að um þetta mætti margt segja. Ég skal engan frekari rökstuðning færa fyrir þessu. Ég hygg, að í raun og veru geri allir sér grein fyrir því, um hvað hér er að ræða, og ég hef reynt að velja til aðstoðar við framhaldsskólafólkið það einfaldasta form, sem hugsanlegt er, einfaldlega það, að það gangi inn í þrautreynt kerfi, margprófað kerfi, sem sé fjölskyldubótakerfið. Það hefur alla tíð verið skoðun mín, að grundvallaraðstoðin við það ætti að vera um hendur tryggingakerfisins, og þarna væri fyrsta sporið stigið í þá átt.

Ég geri mér ljóst, að þingið er á síðustu starfsdögum sínum, svo að ég orðlengi ekki frekar um þetta, en endurtek, að þótt við þm. Alþfl. hörmum, hversu seint mál þetta kom fram og hversu mikinn feiknahraða hefur orðið að hafa á afgreiðslu þess í heild í hv. heilbr.- og félmn., þá munum við stuðla að því, að málið nái fram að ganga fyrir jól, því að við teljum hér vera um stórmikið nauðsynjamál að ræða.