22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (3489)

152. mál, landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 289 till. til þál. um sérstaka landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu. Það er nú svo, að þegar rætt hefur verið um landshlutaáætlanir undanfarið, þá hefur yfirleitt verið gert ráð fyrir, að landshlutaáætlun taki til heils landsfjórðungs eða kjördæmis, en í gildandi lögum. t.d. um Framkvæmdastofnun ríkisins, er þó orðið landshlutaáætlun ekki skýrt á þann hátt. Byggðaráætlun um sýslu er að sjálfsögðu landshlutaáætlun, þó að hún fjalli um minni landshluta en kjördæmisáætlun eða fjórðungsáætlun, en getur hins vegar fallið inn í stærri áætlanir, ef henta þykir. Ég vil taka það fram, að í þessari till. er átt við almenna framfaraáætlun fyrir hlutaðeigandi landshluta, en ekki takmarkaða áætlun um samgöngumál eða atvinnumál eingöngu, svo að dæmi séu nefnd. En till. er um það, að Framkvæmdastofnun ríkisins verði falið í samráði við hlutaðeigandi sýslunefnd, sveitarstjórnir og fjórðungssamband að gera sérstaka áætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu með það fyrir augum, að náttúrugæði þar í landi og í sjó nýtist sem bezt til eflingar atvinnulífi og byggð í héraðinu, enda verði áætlunin einnig látin taka til Norður-Múlasýslu norðan Smjörvatnsheiðar, ef hlutaðeigandi sveitarfélög óska þess. Ég vil taka það fram, að flutningur þessarar till. er í raun og veru eins konar framhald af héraðsmálafundi Norður-Þingeyinga, sem haldinn var á Kópaskeri 23. ágúst s.l. um ástand byggðarinnar í sýslunni og framtíð hennar. En á þessum fundi mættu m.a. tveir ráðh. úr núv. hæstv. ríkisstj. og nokkrir alþm. og varaþm.

Í Norður-Þingeyjarsýslu hefur í seinni tíð eða um l5 ára skeið byggð dregizt saman og fólki fækkað, ekki aðeins hlutfallslega miðað við fólksfjölgun í landinu í heild, heldur einnig beint í tölum talið. Árið 1957 mun íbúatala sýslunnar hafa komizt einna hæst og var þá tæplega 2.000 eða 1.996 samkv. manntali, en samkv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar 1. des. s.l. var hún þá komin niður í 1.740. Er hér um nálægt 15% beina fólksfækkun að ræða í héraðinu á þessu tímabili. Á sama tíma varð í landinu í heild bein fólksfjölgun um nálega 24%. Athyglisvert er, að fólksfækkunin í héraðinu hefur ekki aðeins orðið í sveitum þess, heldur einnig sjávarþorpum. Ástæður til þessarar neikvæðu þróunar eru að sjálfsögðu að sumu leyti almenns eðlis, eins og t.d. aðdráttarafl höfuðborgarinnar, sem víða gætir í landinu, en sérástæður eru hér einnig til staðar, t.d. síldarleysið, sem kemur hart við Raufarhöfn og raunar einnig við Þórshöfn, túnkal í sveitum ár eftir ár, örðugar samgöngur á Norðausturlandi, neyðarástand í heilbrigðismálum og óvissa um framtíð skólamála í héraðinu. Í þessu héraði er þó á margan hátt lífvænlegt og drjúgir möguleikar til hagnýtingar náttúruauðæfa, ef vel er að gáð, og óhætt er að segja, að þar búi dugandi og þrautseigt fólk. Norður-Þingeyjarsýsla er ein hin víðlendasta, ef ekki víðlendust, af sýslum landsins, ef saman er talin byggðin sjálf og meira eða minna gróin heiðalönd svo víðáttumikil og gjöful miðað við búfjárfjöldann, sem þar gengur, að nærri liggur, að ofbeitarhugtakið verði broslegt þar um slóðir. En það má minna á fleira, eins og fjölsóttar fiskislóðir margra þjóða um aldir við Sléttu og Langanes, uppeldisstöðvar ungfisks í Þistilfirði, laxár margar og önnur veiðivötn, ræktunarskilyrði rúm á flestum jörðum, rek á fjörum og æðarvörp allmörg, jarðhitavott á nokkrum stöðum, sem betur mætti kanna, að ógleymdri orku fallvatna, stórra og smárra, í héraðinu og sjálfum Dettifossi, þar sem trúlega mætti framkvæma hagstæðustu stórvirkjun hér á landi, án þess að nokkru væri spillt eða neinum mein að. Og í sambandi við ferðamannaþjónustu, sem nú er mjög umrædd sem atvinnugrein, kemur þetta hérað vissulega til greina öðrum fremur. Þar eru nokkrir sérkennilegustu og fegurstu staðir á landinu.

Ég hef nefnt þetta tvennt, hina neikvæðu þróun, sem verið hefur í héraðinu undanfarin 15 ár, sem fram kemur í þeim tölum, sem ég nefndi, að fólkinu hefur beinlínis fækkað um 15% á þessum tíma eða um meira en 250 manns, og hins vegar hef ég leyft mér að minna á það, að þetta er ekki vegna þess, að af náttúrunnar hendi séu ekki skilyrði til þess að byggð eflist þar, það er önnur ástæða, sem þar er fyrir hendi. Ég tel, að það sé óhjákvæmilegt, og ég held, að margir hafi verið þeirrar skoðunar á þeim héraðsmálafundi, sem ég nefndi hér áðan, að það sé óhjákvæmilegt, að hér verði tekið til athugunar, hvað gera mætti til þess að efla þessa byggð. Því legg ég til, að Framkvæmdastofnun ríkisins verði falið að gera þessa áætlun um þetta hérað í samráði við þá aðila, sem hér eru nánar tilgreindir.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta, en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn., en þangað hefur slíku máli áður verið vísað á þessu þingi.