02.03.1972
Sameinað þing: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (3501)

163. mál, námsbækur framhaldsskólanemenda

Inga Birna Jónsdóttir:

Herra forseti. Mig langar til þess að fara nokkrum orðum um þessa þáltill., því að skipulagning á námsbókaútgáfu framhaldsskólanema er brýnt nauðsynjamál. Þar ríkir nú það ástand, að nemendur þurfa að vera vellríkir á haustin til þess að geta staðið straum af námsbókakostnaði vetrarins. Ýmist er, að ekki nema hluti af hverri námsbók nýtist, ef sífellt er verið að skipta um bækur, án þess að þær fullnýtist, eða það, sem er nú enn þá verra, að sama kennslubókin er kennd ár eftir ár, þar til hún er orðin eins og draugur í stofnuninni eða lík í lestinni og hemill á allt skólaverkið. Það eru dæmi til þess, að 20—30 ára gamlar kennslubækur séu í umferð, vegna þess að annað er ekki til.

Þegar þessu er mótmælt og bent á úrelt og villandi atriði í tiltekinni kennslubók, þá er svarið venjulega það, að það sé svo dýrt að gefa út nýja bók, að þessi verði að duga örlítið lengur. Enginn opinber aðili hefur mér vitanlega með það að gera að gefa út kennslubækur fyrir framhaldsskólastigið, og sýnist mér óhjákvæmilegt, að þar verði breyting á hið fyrsta. Ríkisútgáfa námsbóka hefur með það að gera að gefa út námshækur fyrir skyldunámsstigið, og mér sýnist það vera ærið nóg verkefni fyrir þá stofnun. Almenu bóka útgáfufyrirtæki verða skiljanlega að hafa ágóða af því að gefa út bók, en ríkisforlag er allt öðruvísi sett hvað það snertir. Og ég tel eðlilegast, að ríkið sjái um útgáfu allra íslenzkra kennslubóka, því að nám er starf í þágu þjóðarinnar, en ekki neyzla auglýstrar vöru. Menningarsjóður hefur áður gefið út doktorsritgerðir og fræðirit fyrir Háskóla Íslands, og er hugsanlegt í framhaldi af því að fela Menntamálaráði að skipuleggja kennslubóka útgáfu. Hins vegar líst mér ekki síður á þá hugmynd, að í fyrirhugaðri þjóðarbókhlöðu verði gert ráð fyrir forlagi. Ég efast ekki um fulla þörf á slíku forlagi og vona, að það hafi verið tekið með í reikninginn í undirbúningi að byggingu hennar. Vegna þess hve framhaldsskólastigið er sérhæft og greinist eftir vísindum og tækni og atvinnu þjóðarinnar, á kennslubóka útgáfa í sambandi við það fremur samstöðu með útgáfu fyrir Háskólann en útgáfu skyldunámsins, þ.e. Ríkisútgáfu námsbóka. Þetta er nokkuð, sem þarf að skipuleggja frá rótum, og ég bið nm., sem væntanlega fá þessa till. til athugunar, að skoða þessar hugmyndir jafnhliða öðrum.

Hinn þáttur þáltill. er ekki síður mikilvægur, því að þegar nemendur kvarta undan því, hvað erlendar bækur, sem þeir kaupa, séu dýrar, skólabækur eða kennslubækur, þá liggur beinast við, eins og flm. nefndi hér áðan, að benda þeim á bóksölu stúdenta sem dæmi um það, hvernig lítið nemendasamfélag getur sparað mikið fé með dálítilli hagsýni og viðskiptaviti. Þetta hefur verið reynt í framhaldsskólunum. Hann nefndi menntaskólana sem dæmi, en það hefur ekki gefizt of vel. Þar er tímaseta löng og heimanám mikið og félagslíf. Það er því ólíklegt, að framhaldsskólanemendur á menntaskólastiginu eða sambærilegum stigum hafi tíma til að sinna rekstri bóksölu. Ég tel nauðsynlegt, að sett sé á laggirnar einhvers konar bóksölumiðstöð framhaldsskólanna, sem annist innlend og erlend viðskipti, eins og bóksala stúdenta í Háskóla Íslands gerir með mjög góðum árangri. Í slíkri bóksölumiðstöð gætu nemendur einnig verzlað með notaðar bækur, og það má hugsa sér að fá t.d. skólabók leigða, rétt eins og á safni. Slík verzlun þarf að vera rekin á þeim grundvelli, að hagnaður verði sem minnstur og tap ekkert.

Ég vona, að þessar hugmyndir komist til skila, ef málið verður skoðað ofan í kjölinn út frá þessari þáltill., sem hér liggur frammi.