02.03.1972
Sameinað þing: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3502)

163. mál, námsbækur framhaldsskólanemenda

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af till. þessari. Ég vil eindregið taka undir hana og tel hana hina þörfustu. Það er ábyggilega vægt til orða tekið, að námsbókamál framhaldsskólanema sé í ólestri og þar reki sig hvað á annars horn. Einn þáttur þessa máls er, eins og áður hefur verið drepið á, hinar erlendu kennslubækur, sem áreiðanlega fá sinn verðuga skammt af tollum og álagningu, og þó er skortur innlendra kennslubóka, góðra kennslubóka, kannske tilfinnanlegastur.

Án þess að ég ætli að fara að ræða málið hér almennt vildi ég mega víkja að því atriði till., sem snertir mögulegan hlut Ríkisútgáfu námsbóka í að leysa þennan vanda. Það fer víst ekki á milli mála, að sú stofnun er all um deild. Margir telja hvað eina, sem þar er gert, frekar til ills en hitt, og margar óréttmætar ásakanir hafa komið fram í hennar garð. Ég vil ekki kveða upp neinn allsherjardóm yfir Ríkisútgáfu námsbóka, þó að ég sé vel kunnugur hennar starfsemi og útgáfu. En þrátt fyrir ýmis mistök frá hendi útgáfunnar hygg ég, að þar hafi margt verið vel gert. Það megi segja það, einkum hin síðustu ár. Það hefur líka komið glögglega í ljós, að mikill meirihluti íslenzkra skólamanna, sem kenna við skyldunámsstig, vill efla og bæta útgáfustarfsemina hjá stofnuninni, en ekki leggja hana niður, eins og stundum hafa komið fram raddir um. Ég held, að fjármagnsþörf Ríkisútgáfunnar hafi verið allt of þröngur stakkur skorinn til þess, að hún geti rækt sitt hlutverk af fullri reisn. Til marks um þetta má nefna það, að ýmsar bækur útgáfunnar hafa hin síðustu ár, ég vil segja ýmsar þær heztu, ekki verið látnar skólunum í té endurgjaldslaust, skyldunámsskólunum, þó að kjörin hafi að vísu verið sanngjörn, og fjárvana skólar hafa þess vegna alls ekki notið þessara bóka. Ég held nú líka, að útgáfuna skorti um margt nauðsynlegt aðhald. Slíkt aðhald ætti t.d. að útiloka kennslubóka útgáfu, sem væri í einhverju misheppnuð. Þetta aðhald hlýtur menntmrn. sjálft að hafa í sínum höndum. Samning kennslubóka hefur oft verið hrein ígripavinna og þar held ég, að þyrftu að koma til skipulögð vinnubrögð, þar sem jafnframt væri tryggt, að höfundum væri tryggt sómasamlegt gjald fyrir vel unnið verk. Á þetta held ég, að hafi einnig skort og ástæðan verið sögð ónóg fjárhagsgeta, og ég hygg, að í því sé töluverður sannleikur. Samkeppni um gerð kennslubóka í ákveðinni grein kæmi mjög vel til álita, og ef vel væri þar að staðið, léti árangurinn ekki á sér standa, auk þess sem möguleikar á fjölbreytni í kennslubókavali yrðu þá meiri, en það hefur mjög skort á, á skyldunámsstiginu.

Sú gagnrýni, sem ég hef komið hér fram með, eða þær ábendingar í garð Ríkisútgáfu námsbóka, má ekki skoðast sem andstaða við aukið starf eða verksvið hennar. Þvert á móti. Með vissum lagfæringum í rekstri hennar og útgáfu og auknu fjármagni teldi ég það fyllilega eiga rétt á sér að fela henni kennslubóka útgáfu, a.m.k. til gagnfræðaprófs og landsprófs með núgildandi skipulagi, enda yrðu þær kennslubækur þá látnar nemendum í té án endurgjalds alveg til þess prófs.

Á hitt vildi ég leggja áherzlu, og það var raunar aðalerindið hér í ræðustól, að áður en Ríkisútgáfan tæki eitthvert aukið hlutverk að sér, þá yrði til þess séð, að námsbóka útgáfunni á skyldunámsstiginu yrði komið í eins gott horf og mögulegt væri. Ég sagði það áður, að ótvíræð framför hefði orðið í námsbóka útgáfu síðari ár, einkum hvað snertir lestrar— og móðurmálskennslu í barnaskólunum og margt hvað unglingastigið áhrærir varðandi tungumálin. Þar þarf að halda áfram og gera enn betur, að því tryggðu, að vel væri séð fyrir útgáfunni við skyldunámsstigið. Vildi ég láta fara fram gaumgæfilega athugun á því, sem á er minnzt í till., hvort ekki væri tiltækt að fela Ríkisútgáfunni aukin verkefni, a.m.k. til landsprófs og gagnfræðaprófs. En annar aðili tæki þá við, eins og hér hefur verið bent á, og sinnti þörfum þeirra nemenda, sem fást við langskólanám, þar sem tryggt væri, að hvorki handahóf eða óhóflegur kostnaður yrði nemendum til baga.

Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar, en ég er ekki frá því að endurskoða þyrfti í heild lögin um Ríkisútgáfu námsbóka, ef á þann hátt mætti gera hana að bæði öflugra og virkara tæki til aukinnar og bættrar kennslubóka útgáfu og eins til útgáfu eða útvegunar annarra þeirra kennslugagna, sem talin eru nauðsyn í skólum nútímans.