17.12.1971
Neðri deild: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

126. mál, almannatryggingar

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þegar hæstv. heilbr.- og trmrh. lagði þetta frv. fyrir d., bað hann bæði þm. og þá n., sem fengi málið til meðferðar, að hraða afgreiðslu þess þannig, að það væri öruggt, að það næði fram að ganga fyrir jólafri. Þegar hæstv. ráðh. var spurður um tekjuhlið málsins, svaraði hann því alveg hreint, að hún fælist í því frv., sem lagt hefði verið á borð þm. Ég tel því, að hæstv. ráðh. beri bein skylda til þess að sjá svo um, að sú n., sem hefur með þetta mál að gera og hefur haft það til athugunar, sé ekki að setja inn í það ákvæði, sem koma þm. mjög á óvart og alveg í bakið á þeim, þegar farið er fram á það, að þeir afgreiði málið með sérstökum forgangshraða. Ég er sannfærður um það, að það er fullur vilji hér á Alþ. til þess að koma málinu fram, eins og hæstv. ráðh. fór fram á. Það er ekki það, sem um er deilt.

Það kemur þarna á síðustu stundu eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir réttilega benti á, ákvæði um 11/2% launaskatt til að standa undir útgjaldahlið þeirra breytinga, sem hér eru lagðar til. Hún spurðist fyrir um það, hvað þessi 11/2% launaskattur mundi nema miklu. Ég held, að þetta liggi nokkurn veginn ljóst fyrir, og benti hæstv. heilbrrh. á það hér, að í fjárlögum er gert ráð fyrir 700 millj. kr. tekjum af launaskatti. Í grg. með fjárlagafrv. er þess getið, að þar sé innifalinn 11/2% skatturinn, sem lögum samkv. átti að standa til loka þessa árs. Ef ég man rétt, voru gamli 1% skatturinn og nýi 11/2% skatturinn innheimtir af sama tekjustofni eða á sama hátt, og sýnist mér því auðséð, að 11/2% skatturinn, sem hér er gert ráð fyrir í till. hv. heilbr.- og félmn., nemi 420 millj. kr. Ég held, að það fari ekkert á milli mála með það, að 3/5 hlutar af 700 millj. séu 420 millj. Í grg. með frv., eins og það var lagt hér fyrir, segir í síðasta málsl., sem ég vil lesa hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Kostnaður vegna þeirra breytinga, er frv. hefur í för með sér, hefur verið kannaður og er talinn vera þannig: Vegna lífeyristrygginga 296 millj., vegna slysatrygginga 3.4 millj., vegna sjúkratrygginga 11.8 millj. Framlag ríkissjóðs til lífeyristrygginga þarf því að hækka um 106.6 millj. og sjúkratrygginga um 6.7 millj. frá fjárlagafrv. 1972.“

Hérna er hins vegar verið að leggja til 420 millj. kr. nýjan skatt, því að þetta verður nýr skattur, þar sem ákvæðið um 11/2% launaskattinn rennur sjálfkrafa út um næstu áramót, ef það verður ekki framlengt. Ég vil gera þá kröfu til hæstv. heilbrrh., að hann sjái um, að þetta ákvæði verði tekið út úr till. n. við 3. umr., og ef á að framlengja 11/2% skattinn, eins og fjárlög gera ráð fyrir, verði það gert á venjulegan hátt, með því að framlengja þau lög, sem um hann gilda. Ég tel, að það sé miklu hreinni aðferð en að vera að lauma þessu ákvæði um 420 millj. kr. álögur á atvinnurekstur inn í nál. hjá þessari n., sem fer með það mál, sem hér liggur fyrir. Ég tel þessa aðferð hvorki sæmandi hæstv. ráðh. né Alþ. Það er ekkert við því að segja, ef það er stefna hæstv. ríkisstj. að ætla að framlengja 11/2% launaskattinn, en þá á bara að gera það á venjulegan hátt, eins og þegar lög eru framlengd, ef þau eiga að gilda lengur. Hvaða skýring er á því, að þarna segir í grg. frv., að hér sé um 106.6 millj. kr. aukaútgjöld að ræða umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., en hér er ætlazt til, að við samþykkjum nýjan skatt upp á 420 millj. til að mæta þessari upphæð, sem þar er gert ráð fyrir? Þetta getur ekki farið saman.

Ég vil ítreka tilmæli mín til hæstv. ráðh., að hann sjái um, að þetta ákvæði verði tekið út úr till. n., því að það er fullur vilji fyrir því í þessari hv. d., enda kemur það fram í nál. og hefur komið fram í framsögu þeirra aðila, sem mælt hafa fyrir nál., að þetta mál nái fram að ganga, eins og það var lagt fyrir af hæstv. heilbrrh. með þeirri grg., sem hann gerði um málið í framsögu sinni og með þeirri grg. hans um tekjuöflunarhlið málsins, sem hann taldi þá og lýsti yfir, að fælist í því frv. um tekju- og eignarskatt, sem þá hafði nýlega verið lagt á borð alþm.