25.01.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (3514)

78. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra, að svo virðist sem hv. þm. úr öllum flokkum á þingi hafi mjög mikinn áhuga fyrir því að styðja að eflingu iðnaðarins, og þá skyldi maður halda, að það væri tiltölulega auðvelt að koma þeim hlutum fram, sem þarf að gera, til þess að hægt sé að efla þennan atvinnuveg. Nokkru fyrir jól bar ég fram fsp, til hæstv. viðskrh. um þau efni, hvernig gengi með að aðstoða útflutningsiðnaðinn, og mér var heitið athugun í þeim efnum, sem ég líka veit, að er verið að gera. En þegar ég bar fram till. um það að hækka aðstoð til útflutningsmiðstöðvarinnar, þegar fjárlögin voru samþ. rétt fyrir jólin, þá fékkst sú till. ekki með nokkru móti samþykkt, og þó álít ég, að sú stofnun sé að reyna að gera býsna gott verk.

Ég hef nú ekki vit á því, hvernig bankar eða bankastjórar líta á till. eins og hér er, en einhvern veginn finnst mér, að þetta geti tæpast verið rétt leið, enda þótt ég sé algerlega sammála hv. flm. um, að það þarf að aðstoða iðnfyrirtækin með rekstrarfé. Fyrra atriðið er það, að fyrirtæki fái þriggja mánaða víxlasöluheimild eða víxilkvóta. Nú er mér kunnugt um, að ýmis iðnfyrirtæki hafa vissan kvóta, en hvort það er þeirra þriggja mánaða framleiðsla, þarf þá að rannsaka, og auk þess geri ég ráð fyrir, að bankar muni vilja tryggingar, og enn getur það verið, að fyrirtækin hafi ekki víxla.

Hitt atriðið er um yfirdráttarheimildir, sem séu miðaðar við þriggja mánaða kaupgreiðslu viðkomandi fyrirtækis. Mér finnst þetta nú vera vafasöm viðmiðun. Ég skal ekki segja um, hvernig það yrði í framkvæmd, en einhvern veginn finnst mér, að kaupgreiðsla viðkomandi fyrirtækis þurfi ekki endilega að vera viðmiðunin, heldur hljóti það miklu fremur að vera framleiðsla fyrirtækisins.

Vandamálin hjá iðnaðinum eru núna í raun og veru í þrennu lagi að því er rekstrarfjármögnun snertir. Í fyrsta lagi að fá nægjanlegt fjármagn út á vörur, sem þegar eru seldar, framleiddar og seldar, hvort sem er til útlanda eða innanlands. Hér ætti að vera um tiltölulega auðvelt mál að ræða, og ég veit a.m.k. að því er snertir vörur, sem seldar eru innanlands, þá eru þær auðvitað fjármagnaðar í gegnum víxla að verulegu leyti. En þetta þarf einnig að gerast gagnvart þeim vörum, sem seldar eru til útlanda. Þessu finnst mér, að ætti að vera tiltölulega auðvelt að koma í gegn, en engu að síður þarf að finna fyrir þetta einhvers konar form, og mér er kunnugt um, að hæstv. iðnrh. er að vinna að því.

Í öðru lagi er svo fjármögnun út á samninga, sem gerðir hafa verið um sölu, hvort sem um er að ræða sölu innanlands eða til útlanda. Þegar gerður er einu sinni samningur um tiltekna sölu frá iðnaðarfyrirtækjum, þá þarf að vera leið til þess að fjármagna framleiðsluna, sem getur staðið í nokkuð langan tíma. Og mér er kunnugt um, að í vissum tilvikum hafa bankar og Seðlabanki einmitt gert þetta. En svo er enn framleiðsla, þar sem fyrirtækin framleiða vöruna, en hafa ekki selt hana, og þetta er líklega erfiðasti þátturinn í öllu saman. Mér finnst nefnilega, að þegar fyrirtæki hefur framleitt vörur, við skulum segja ár eftir ár og það hefur tekizt að selja þær, þá eru allar líkur fyrir því, að það séu markaðir fyrir hendi innanlands eða utan. Þá eiga fyrirtækin að geta fengið einhvers konar afurðalán út á vörurnar, og það er það, sem mér finnst endilega, að þurfi að reyna að koma í gegn.

Ég er sannfærður um það, að erfiðleikar iðnfyrirtækjanna byggjast að verulegu leyti, — ég er alveg sammála hv. flm. um það, — að verulegu leyti á vöntun á rekstrarfé, og svo hefur verið lengi. Það eru að vísu fleiri fyrirtæki en iðnfyrirtæki, sem um þetta kvarta, en það er alltaf verið að tala um, að það þurfi að hjálpa iðnaðinum til þess að gera hann að jafngóðri atvinnugrein og aðrar atvinnugreinar í landinu eru, og þegar svona margir hv. þm. eru sammála um þetta, þá get ég ekki séð, að það ætti að vera mjög erfitt að koma málinu áfram. Ég vil leggja áherzlu á það, að sú hv. þingnefnd, sem tekur þetta mál til meðferðar, hafi fljótlega samband við viðskiptabanka og Seðlabanka, bæði um tæknileg atriði í þessum efnum og um málin í heild. En það er ekki hægt að skilja við þetta án þess að nefna þá grjóthörðu staðreynd, að bankar vilja nú einu sinni hafa sína aura tryggða. Og mörg af þessum fyrirtækjum eru því miður eignalítil og hafa ekki fasteignir til að leggja að veði, og þess vegna er það svo, að þeim hefur mörgum reynzt erfitt að fá það rekstrarfé, sem þau þurfa. En allir, sem um þessi mál hafa hugsað, vita auðvitað, að það þarf mikið rekstrarfé í iðnfyrirtæki velflest auk mikils kapítalkostnaðar. Og því miður hafa ýmis af iðnfyrirtækjum íslenzkum farið af stað með ákaflega lítið eigið fé. Þessir erfiðleikar fyrir iðnaðinn eiga svo náttúrlega eftir að stór vaxa, eftir því sem líður á aðlögunartíma EFTA, og það er þess vegna mjög mikil nauðsyn á því að mínu mati, að rekstrarfjármál iðnaðarins séu öll tekin í heilu lagi til þess að reyna að leysa þau til frambúðar. Ef þessi till. gerir það, þá er það gott. Ég er hræddur um, að það sé ekki rétt að farið með þessum leiðum, sem þarna er bent á. En ég er efnislega alveg sammála flm., og fyrst svona mikill áhugi er fyrir iðnaðinum hér á Alþ., sem ég fagna mjög, þá veit ég, að þessi mál leysast farsællega.