25.01.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (3518)

78. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð, sem ég vildi segja í tilefni þess að hafa hlustað á þessar fróðlegu umr. hér. Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé nokkur ágreiningur á milli hv. þm. um mikilvægi iðnaðarins og nauðsyn þess að tryggja honum sem bezt starfsskilyrði, en hitt er jafnljóst, að menn verða að gera sér til hlítar grein fyrir því, í hverju vandkvæði iðnaðarins liggja fólgin og taka á þeim út frá þeim staðreyndum. Það veltur á miklu, að úrlausnarefnið fái þá meðferð, að það verði raunverulega skoðað raunsæjum augum, en ekki, að menn villi sér sýn um það, hver eru hin raunverulegu vandamál sem við er að glíma.

Þær ræður, sem hér voru fluttar áðan af hv. 2. landsk. þm. og hv. 8. þm. Reykv., drógu einmitt fram mjög athyglisverð atriði, sem ég held, að menn verði að gefa gaum að, þegar sú till. er skoðuð, sem hér er flutt. Ég er á engan hátt að gera lítið úr till. og veit, að á bak við hana liggur góður hugur, eins og hv. 1. flm. hefur jafnan sýnt iðnaðinum. og ég þykist vita, að hann hafi ekki minni áhuga á að sýna þann velvilja eftir að hann hefur betri aðstöðu til að ráða einhverju í þeim efnum en áður. En þó þykir mér samt þessi till. gangi út frá of einföldum forsendum, og ég er ákaflega hræddur um, að það þurfi að skoða hana rækilega ofan í kjölinn, ef hún á að skila þeim árangri til eflingar íslenzkum iðnaði, sem ætlazt er til af hálfu flm. Það er nefnilega þannig, að það eru ekki lánamálin ein, sem eru hér höfuðverkurinn, ef svo má segja. Úr lánamálum iðnaðarins hefur vissuleg mikið verið bætt á undanförnum árum. Ég skal ekkert fara í meting á milli ríkisstj. um það, en við vitum þó, að það er fyrst nú síðustu árin, hvað sem líður tillögu flutningi 1958 eða tillögusamþykkt, sem hafin hefur verið sérstök fyrirgreiðsla við ýmsar iðngreinar, fyrst og fremst útflutningsiðngreinar og jafnvel fleiri, með rekstrarlánaaðstöðu, bæði endurkaup Seðlabankans á afurðavíxlum og enn fremur bráðabirgðarekstrarlán, sem Seðlabankinn hefur veitt fyrir milligöngu viðskiptabankanna. Þetta hefur verið gert í vaxandi mæli, en það hefur komið í ljós, sem ég veit, að þarf ekki að útskýra fyrir neinum hv. þm., að hér er um miklu flóknara vandamál að ræða heldur en t.d. varðandi landbúnað og sjávarútveg, þar sem er um mjög einhliða framleiðslu að ræða og auðvelt um allt eftirlit. Þar er vitanlega miklum mun auðveldara að koma við þeim almennu fyrirgreiðslulánum og endurkaupalánum út á afurðir en á sér stað með fjöldamargar iðngreinar. Og er það þó auðvitað mjög mismunandi eftir því, hvernig iðngreinarnar eru. Sumar eru mjög sérhæfðar. Við skulum taka sement og áburð og aðrar slíkar iðnaðarvörur, þar sem auðvelt er að koma þessu við. Aðrar eru mjög margþættar, fatnaðarvörur og ýmsar slíkar vörur, sem mjög er erfitt að koma við venjulegum afurðalánum út á. Og þetta hefur leitt til þess, að hér hefur þurft að skoða þessi mál með nokkuð öðrum hætti. Í ýmsum tilfellum hefur verið reynt að veita þessum iðngreinum bráðabirgðarekstrarlánaaðstöðu af hálfu Seðlabankans fyrir milligöngu viðskiptabanka, og ég held, að það sé óhætt að segja, að af hálfu lánastofnana og stjórnvalda, bæði fyrrv. ríkisstj. og ég efast ekkert um, að núv. ríkisstj. er sama sinnis, þá sé áhugi á því að leysa þetta mál.

En það, sem ég vildi leggja áherzlu á, alveg sérstaka áherzlu, er það, að mér finnst það allt of mikil trú, að eina sáluhjálparatriðið sé að fá peninga. Og það eru allt of margir, sem fengizt hafa við atvinnurekstur, sem halda, að það að slá lán sé eina undirstaðan til þess að geta komizt vel af. Menn geta kannske í bili lifað á skuldum, en það er ekki nema í bili og endar hjá flestum með ósköpum. Og sannleikurinn er sá, að ég þekki ekkert meiri háttar fyrirtæki á Íslandi, sem hefur farið á höfuðið vegna þess að það hafi ekki fengið nóg af lánum, heldur vegna þess miklu fremur, að það hefur fengið of mikið af lánum. Um þetta gæti ég nefnt ótal dæmi, sem ég ætla ekki að fara að rifja upp hér. En þetta byggist á því, að þarna hefur eitthvað annað vantað. Það hefur vantað skipulag á þessi fyrirtæki, og það hefur vantað í ýmsum tilfellum raunhæfan rekstrargrundvöll. Það er nefnilega ekki nóg að setja upp fyrirtæki til að framleiða einhverja vöru, það þarf að vera hægt að selja hana, og það þarf að vera hægt að selja hana og framleiða við það hagstæðu verði, að hún sé samkeppnisfær og sé auðið að fá fyrir hana það andvirði, sem kostar að framleiða hana.

Það er alveg rétt, sem hv. flm. sagði hér áðan, að meðan hér voru háir verndartollar, þá var hægt að halda hér uppi iðnaði, sem í ýmsum greinum var algerlega óraunhæfur, vegna þess að hann var varinn með geysilegum verndartollum. Þannig er auðvitað hægt að starfa. Þessi vandi fer sívaxandi, og ég legg áherzlu á það, bæði með honum og öðrum ræðumönnum, sem hér hafa talað, að einmitt vegna þess, að íslenzkur iðnaður þarf í vaxandi mæli — og ég álít, að það sé ekkert nema æskilegt — að keppa við erlenda framleiðslu og leggja áherzlu á að selja samkeppnishæfa vöru, sem um leið er auðvitað til hagsbóta fyrir þá, sem eiga að neyta vörunnar, þá verður mikilvægara að skoða rekstrargrundvöll þessara fyrirtækja en áður var. En ég þarf nú sennilega ekki að taka það fram. Bankar eru engar sérstakar góðgerðarstofnanir, og þeim er ekki ætlað að vera það. Þeir taka við fé til ávöxtunar af því fólki, sem leggur fyrir sparifé í landinu, og verða svo að standa því skil á þessu fé aftur, þeir sem bönkunum veita forstöðu. Og til þess að um sé að ræða að fá lán, jafnvel þó að nógir peningar séu til, þá verða menn að geta sýnt fram á það í fyrsta lagi, að þeir hafi tryggingar, eins og einn hv. ræðumanna hér gat um, og ég tel ekki síður, og það á alveg sérstaklega við í sambandi við lánsfé til iðnaðarins, að þeir geti sannað það, að þeir séu með rekstrarhæfa starfsemi, þeir séu með framleiðslu eða þeir framleiði vöru, sem þeir geti selt, og geti skilað eðlilegum arði af sínum fyrirtækjum. Og ég efast um það, að í dag sé það svo stórkostlegt vandamál að fá fyrirgreiðslu fyrir iðnfyrirtæki, sem geta sannað þetta, svo að sæmilega ótvírætt sé. Og sannleikurinn er sá, og það skal ég játa, að er sök hjá bankakerfinu, eins og það er um sök að ræða hjá iðnrekendum sjálfum að hafa ekki alltaf skoðað grundvöllinn undir sinni framleiðslu, þá er um þá sök að ræða hjá bankakerfinu, að alveg nú fram á síðustu ár hefur ekki verið skoðuð nægilega vel hagkvæmni fyrirtækjanna, sem lánað er til. Þetta þarf að gerast. Og ég álít, að það sé algerlega tómt mál að tala um, og er ég ekki að gera litið úr hugsuninni, sem þar liggur á bak við, að ætla að fá Seðlabankann og bankakerfið í heild til þess að skuldbinda sig til að lána með einhverjum tilteknum hætti til fyrirtækja, án þess að sú forsenda sé fyrir hendi, að þau séu byggð upp með þeim hætti, sem bankarnir telja, að sé heilbrigt. Og ég álít, að það sé ekki þjóðfélagslega rétt að lána fé þjóðarinnar til atvinnurekstrar, hvorki iðnaðar né á öðrum sviðum, nema þetta sé sannað.

Þetta vildi ég aðeins leggja áherzlu á, af því að mér finnst, að stundum sé gengið út frá því, að lánamálið eitt og það að geta slegið nógu mikla peninga í bönkum geti öllu bjargað. Það getur bjargað í bili, en það bjargar engum. Það er dauðinn fyrir fyrirtæki og hreinlega illa gert að lána þeim peninga, ef þau eru ekki með það skipulag á sinni starfsemi og þá framleiðsluhætti, að þau geti átt sér framtíð og staðið undir þeim kostnaði, sem til þarf að stofna hverju sinni.