17.12.1971
Neðri deild: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

126. mál, almannatryggingar

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég var ekkert út af fyrir sig að ræða um afstöðu mína til launaskattsins. Ég taldi hara þá aðferð, sem hér er viðhöfð, vera óeðlilega og óframbærilega eftir þá yfirlýsingu, sem hæstv. heilbrrh. gaf hér, þegar hann lagði frv. fram, þ.e. að tekjuhlið þess væri tryggð í þeim frv., sem þá höfðu nýlega verið lögð á borð þm.

Það er talið í frv., að útgjaldaaukningin sé 311 millj. Nú liggur það fyrir, að hér er verið að leggja til nýjan skatt, því að þetta er nýr skattur. 11/2% skatturinn átti að mæta ákveðnum útgjöldum vegna verðstöðvunarinnar. Þetta hlýtur því að teljast nýr skattur. Þó að auðvitað megi framlengja lögin eitthvað breytt, þá er þarna um rúmlega 100 millj. kr. hærri upphæð að ræða en frv. segir til um, að þessi breyting, sem verið er að gera á lögunum, komi til með að kosta ríkissjóð. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur alveg í hendi sér, hvort hún vill framlengja ákvæðin um launaskatt, eins og gert er ráð fyrir í fjárlögum og reiknað verður með, að muni gert verða, en þá á það bara að gerast á eðlilegan og þinglegan hátt. Auk þess getur hæstv. ríkisstj., ef hún telur, að tími sé ekki til þess fyrir jólafri að framlengja þau lög, sem þar um gilda, gert það þá með brbl., meðan þing ekki situr í jólafríinu, ef hún telur sig þurfa þess með. En þetta tel ég alveg ósæmilega aðferð, að bera fram tilmæli til þm. um að veita málinu sérstakan forgang, sem ég held, að allir þm. muni fallast á, og ætla svo að koma í bakið á okkur með því að blanda inn í málið umdeilanlegum, nýjum skatti. Það er þetta, sem ég er að átelja, en ekki skattinn út af fyrir sig. Það er alveg rétt hjá hæstv. sjútvrh., að við getum um það deilt, ef við höfum á því skiptar skoðanir, við annað tækifæri en í sambandi við það lagafrv., sem hér liggur fyrir og er alveg sérstaks eðlis og hefur velvilja, eins og ég hef sagt áður, þm. um, að það fái sérstaka meðferð.