27.01.1972
Sameinað þing: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (3570)

102. mál, vinnutími fiskimanna

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 7. landsk. þm. leyft mér að flytja till. til þál. um vinnutíma fiskimanna, en sú till. er á þskj. 121 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir undirbúningi löggjafar um vinnutíma fiskimanna með þeim hætti að skipa nefnd manna, er í eigi sæti fulltrúar sjómanna og útvegsmanna. Verði nefndinni falin eftirtalin verkefni:

1. Að athuga svo gaumgæfilega sem verða má, hver vinnutími fiskimanna sé að jafnaði á sólarhring, viku, mánuði og ári.

2. Að athuga, með hvaða hætti fiskimönnum, öðrum en þeim, sem róa á eigin fari, verði tryggður:

a) Viðunandi hvíldartími á hverjum sólarhring;

b) Heildarvinnutími á viku og mánuði eða ári, sem sé sem sambærilegastur við þann, sem tíðkast meðal annarra starfsstétta.

Á grundvelli framangreindra athugana undirbúi nefndin síðan frv. til l. um vinnutíma og orlof fiskimanna.“

Það er hv. þm. vel kunnugt, að vinnutímamál launamanna, sem í landi vinna, hafa að undanförnu verið mjög á dagskrá, m.a. hér á hv. Alþ., en hér var nú rétt fyrir áramótin samþykkt almenn löggjöf um 40 stunda vinnuviku fyrir allan meginþorra launafólks. Þessi löggjöf nær raunverulega til svo til allra nema fiskimanna, og lágu auðsæjar ástæður til þess, að vinnutímamál þeirra gátu ekki sætt sömu meðferð og þeirra, sem ganga að vinnu í landi. Ekki getur þó farið hjá því, að málefni sjómanna verði að þessu leyti einnig gaumgæfð og leitazt verði við að finna á þeim viðunanlega lausn, sem hæfi aðstæðum og brúi að verulegu leyti a.m.k. það stórfellda bil, sem orðið er á þessum sviðum milli kjara launamanna í landi og fiskimannanna og sætti þá síðarnefndu við sitt hlutskipti.

Í höfuðatriðum byggist vinnutími sjómanna á fiskiskipaflotanum nú á eftirfarandi:

1. Samkv. lögum um hvíldartíma sjómanna á botnvörpungum, vökulögunum svo kölluðu, er um að ræða 12 tíma vinnu á sólarhring og 12 tíma hvíld. Þetta er framkvæmt með vaktaskiptum á 6 klst. fresti. Í þessum lögum er ekki tiltekið neitt um skipastærð sem grundvöll fyrir frávikum frá þessari reglu, en í framkvæmd er þetta þannig, að lögin eru aðeins framkvæmd á togskipum, sem eru yfir 500 tonn, en togskip undir þeirri rúmlestatölu ekki látin falla undir lögin, hverju svo sem það sætir.

2. Á togskipum 200-500 rúmlestir er reglan sú, að vinnutími sé 16 klst. og 8 klst. hvíld. Í framkvæmd eru þetta vinnuvaktir um 12 klst., og 6 klst. hvíld.

3. Á fiskibátum innan við 200 tonn er samningsbundinn hvíldartími 6 klst. og vinnutíminn því 18 klst. Þessi regla er þó í raun mjög illa haldin, og telst algengt, að vinnutími vari í 20 klst. á sólarhring og jafnvel þar yfir.

4. Á nýjum skuttogurum, þeim sem þegar eru komnir í gagnið hér á landi og eru undir 500 rúmlestum, er enn ekki um samræmdar vaktareglur að ræða. Á einu slíku skipi, sem mér er kunnugt um, eru helmingavaktir, en þó heimild til útkalls, ef þörf er talin á, en á öðru slíku skipi er þriðjungs hvíldarvakt eða 16 tíma föst vinna á móti 12 á gömlu togurunum. Er reynslan af þessu fyrirkomulagi slík, að jafnvel harðgerðustu togarasjómenn una ekki þeim þrældómi, sem þar er um að ræða, þrátt fyrir tiltölulega mjög góðar tekjur, sem jafnvel hafa numið 80—90 þús. kr. á mánuði.

Það virðist algerlega óþolandi og óforsvaranlegt, að vökulögin fái að þróast á þann hátt, sem raun er hér á, ekki sízt þegar aðgætt er, að bráðum streyma til landsins mörg togskip undir 500 rúmlestum. Þegar vökulögin voru upphaflega sett, voru togararnir 300—340 rúmlestir að stærð, en nú eru verulega stærri togarar í reynd undanþegnir ákvæðum þessara laga. Fæ ég ekki betur séð en hér sé um hreint lagabrot að ræða, sem þó viðgengst lítt eða ekki átalið af öðrum en þeim, sem brotið mæðir á. Sjómannasamtökin hafa að undanförnu haft uppi kröfur um lítils háttar breytingar á þeim meginreglum um vinnutímann, sem ég hef hér rakið. Hafa þau krafizt þess, að 8 tíma hvíld yrði tryggð á bátaflotanum, en að helmingavaktir yrðu reglan á togskipum yfir 350 tonnum. Þessi krafa hefur þó ekki náð fram að ganga, og allt situr það í líku fari og áður.

Af því, sem ég hef nú rakið, má vera ljóst, að vikulegur vinnutími íslenzkra fiskimanna er almennastur frá 84 klst., vikulegur vinnutími er frá 84 klst. og upp í a.m.k. 108 klst., en getur þó í einstökum tilvikum orðið sýnu lengri. Þessi vinnustundafjöldi er í raun sambærilegur við rúmlega 30 klst. virka vinnuviku fyrir landmenn eða allt upp í það að vera meira en þrisvar sinnum lengri. Og getur þó engum dulizt það, að á sjónum er um að ræða hættulegri vinnu, vosbúð og mörg önnur ytri skilyrði, sem telja verður stórfellt lakari en þau, sem almennt tíðkast í landi. Ég tel þess vegna fulla ástæðu til þess að spyrja: Er þetta hægt? Fær það staðizt til langframa, að svo stórkostleg mismunun í frumstæðustu réttindum til hvíldar sé látin viðgangast? Fær það staðizt til langframa, að fiskimennirnir, sem leggja í raun allan grundvöllinn að efnahagskerfi þjóðarinnar með eindæma afköstum sínum, séu settir algerlega utangarðs um alla sómasamlega vinnuvernd á sama tíma og öllum vinnandi mönnum í landi er með lögum og samningum tryggð ein stytzta dagvinnuvika, sem þekkist í þessum heimshluta? Ég held ekki. Og við flm. þessarar till. til þál. álítum, að ekki verði með nokkru móti komizt hjá því, að löggjafinn taki þessi mál föstum tökum nú þegar og hafi forgöngu um lausn þeirra.

Við gerum okkur þó fulla grein fyrir þeim fjárhagslegu og tæknilegu vandamálum, sem nauðsynlegum breytingum í þessum efnum eru samfara. Okkur er ljóst, að fiskveiðar eru þess eðlis, að örðugt kann að vera að tryggja fiskimönnum jafnskamman vinnutíma á hverjum einstökum sólarhring og landmönnum. En þó verður tvímælalaust að tryggja þeim þá daglegu hvíld, sem hverjum manni er nauðsyn, ef hann á að geta haldið og verndað heilsu sína og vinnuþrek eðlilega starfsævi. En það, sem á kynni að skorta sambærilega daglega hvíld og frítíma, yrði síðan að bæta með fleiri frídögum og/eða lengri orlofstímum. Teldum við mjög koma til greina, að fiskimenn ættu t.d. lagarétt á tveim orlofstímabilum á ári. Vera má, að við athugun kæmi í ljós, að fleiri leiðir en ein hentuðu eftir mismunandi tegundum veiðiskapar. En aðalefni þessa máls er þó það, að samtök fiskimanna, útvegsmanna og löggjafarvaldið taki mál þessi sameiginlega til rækilegrar athugunar og leiti raunhæfustu leiða til þess að skapa og tryggja jafnræði sjómannastéttarinnar við aðra landsmenn hvað heildarvinnutíma snertir og þá um leið varðandi möguleika hennar á því að njóta félagslegra mannréttinda nokkurn veginn til jafns við aðrar starfsstéttir.

Ég sé svo ekki ástæðu til herra forseti, að hafa um þetta öllu fleiri orð, nema sérstakt tilefni gefist til. og legg til, að, að umr. lokinni verði málinu vísað til hv. allshn.