12.05.1972
Sameinað þing: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (3616)

158. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til íhugunar þáltill. á þskj. 303. Till. er á þá lund, að ríkisstj. láti athuga, hvort eigi sé hagkvæmt að auka verðgildi krónunnar, þannig að 10 krónur verði að einni og Bandaríkjadollar jafngildi kr. 8.80. Verðbreyting krónunnar yrði þannig framkvæmd, að innstæður, sjóðir, vöruverð, vinnulaun og skattar lækki tífalt í krónutölu og hliðstæðu gegni um skuldir einstaklinga og fyrirtækja.

Þannig hljóðar þessi till., og það er skemmst frá því að segja, að allshn. var einhuga um það að mæla með samþykkt hennar. Einn nm. taldi sig hafa sérstöðu í málinu, og er þess getið í nál.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þessa till. Þó vil ég geta þessa: Það er alkunna, að á mörgum undanförnum árum, ekki sízt hinum síðustu, hafa verið til umr. manna á meðal einmitt aðgjörðir af þessu tagi í okkar peningamálum. og árið 1962 kom til þess, að nefnd starfaði á vegum fjmrh. að athugun á því, hvaða breytingar væri heppilegt að gera á myntkerfinu. Nefndin vann nokkuð lengi að þessu starfi og gerði að lyktum till. um það, að framkvæmd yrði endurskoðun gjaldeyrisins og tekinn upp nýr gjaldmiðill, sem væri tíu sinnum stærri en íslenzka krónan, og þessar till. sínar studdi þessi nefnd m.a. með þeim rökum, hver sálræn áhrif til góðs slík breyting hefði, og enn fremur var vísað til þeirrar hagkvæmni, sem yrði í því fólgin að losna við smámyntir undir 10 aurum að þágildandi verðmæti.

Till. þessi fékk þá eigi nægilegan hljómgrunn. En síðan hefur verðgildi krónunnar að sjálfsögðu og svo sem alkunna er verulega rýrnað, og þess vegna hefur nm. ekki þótt úrskeiðis, að slík könnun, sem um getur í þáltill., væri framkvæmd. Ekki aðeins eins og segir í till. um það atriði, heldur að hún fengi það verkefni aukreitis að kanna málið allt í heild. Því að sjálfsögðu koma ýmis önnur atriði undir slíka könnun.

Hins vegar töldum við í n. ekki rétt að gera brtt. í þessa átt, en getum um þessa skoðun okkar í sjálfu nál. Við höfum leyft okkur í n. að gera smábreytingu á till., að upphaf tillgr. orðist þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, hvort hagkvæmt sé og tímabært að auka o.s.frv.“

Þarna er aðeins vikið við tveim eða þrem orðum. Okkur fannst hljómurinn betri í till. með þessu orðalagi.

Við töldum rétt að láta umsagnir frá Seðlabanka Íslands og enn fremur þeim viðskiptabönkum, sem sendu svör við beiðni okkar um umsögn, fylgja með nál.

Það koma fram hjá Seðlabanka Íslands ýmsar athugasemdir varðandi þetta mál og saga könnunar í þessum efnum frá fyrri tímum. Það verður að segjast eins og er, að Seðlabankinn er ekki sérstaklega hliðhollur þessari till., þannig að hann telji mikla ástæðu til að samþykkja hana hér á hinu háa Alþingi. Hins vegar er í niðurstöðu rætt um ýmiss konar till. í þessum efnum, sem rétt væri þá líka, að væntanleg nefnd, sem hefði með könnun þessara mála að gera, tæki til athugunar.

Sá banki, sem einna jákvæðastur er í sinni umsögn, er Útvegsbankinn. Hann telur m.a. þessa till. athyglisverða, meira að segja mjög athyglisverða og tímabæra, en getur þess jafnframt, að sílkri breytingu mundi fylgja nokkuð mikill kostnaður, sem aðallega yrði þá fólginn í seðla útgáfu og myntsláttu.

Ég held, að ég fari ekki fleiri orðum um þetta mál. Það virðist vera nokkuð ljóst í framsetningu hjá tillögumanni, hvað hann ætlar sér, og eins það, að n. sem slík tekur undir þessa till. og eins og ég sagði í upphafi, mælir með samþykkt hennar.