17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (3626)

142. mál, efling ferðamála

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 4. þm. Vesturl., Friðjóni Þórðarsyni, og 9. landsk. þm., Ellert B. Schram leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 207 um eflingu ferðamála. Megin tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hraða áætlun um eflingu ferðamála, sem verið hefur í undirbúningi. Í áætluninni verði stefnt að því að auka verulega ferðamannastraum til landsins og bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna, einkum úti um land í vinsælum ferðamannahéruðum og byggðarlögum, sem geta orðið ferðamannastaðir, ef skilyrði eru þar sköpuð til fyrirgreiðslu við ferðafólk.“

Sú atvinnugrein, sem vaxið hefur einna mest í heiminum s.l. áratug, er ferðamannaþjónustan. Talið er, að áratuginn 1960—1970 hafi fjöldi erlendra ferðamanna milli landa aukizt úr 71 millj. í 167 millj. og eyðsla þeirra úr 6 milljörðum dollara í 17 milljarða. Fróðir menn gera ráð fyrir því, að þessi þróun muni halda áfram og í árslok 1972 nái tala erlendra ferðamanna 200 millj. milli landa, sem jafngildir því, að allir Bandaríkjamenn hleyptu heimdraganum á því ári.

Það er athyglisvert fyrir okkur Íslendinga, að sérfróðir menn um ferðamál telja, að í framtíðinni verði um að ræða stóraukna sókn ferðamanna til landa, sem hafi sérstæða náttúru, og einkum til landa, þar sem umhverfi er lítt eða ekki spillt og andrúmsloft hreint. Það er alkunna, að okkur Íslendingum hefur tekizt að hasla okkur völl, svo að um munar, í samgöngum milli landa, bæði í austur og vestur. Sú staðreynd á ríkan þátt í því, hversu mjög erlendum ferðamönnum hefur fjölgað hér á undanförnum árum. Allt þetta, sem hér er rakið, vaxandi ferðamannastraumur í heiminum. aukin sókn ferðamanna til landa með sérstakt náttúrufar og góðar og vaxandi samgöngur við landið frá umheiminum. bendir mjög ótvírætt til þess, að Ísland geti orðið á fáum árum ferðamannaland í stórauknum mæli, ef vel er á haldið. Forsendan fyrir því er þó augljóslega, að aðstaða til þjónustu við ferðamenn verði aukin verulega og samræmd. Þá skiptir og ekki minna máli að leitast við að lengja ferðamannatíma með tiltækum ráðum, þar sem ferðamannastraumurinn er nú mikill til landsins sára stuttan tíma ár hvert. Við þær aðstæður er auðvitað afar erfitt að reka dýr mannvirki, sem í þarf að ráðast vegna ferðamannaþjónustunnar, þar sem nýtingartími þeirra verður óhjákvæmilega mjög skammur ár hvert.

Fyrrv. ríkisstj. gerði sér ljósa grein fyrir möguleikum okkar Íslendinga í ferðamálum. Því var það einn þátturinn í stefnu hennar á því sviði að auka fjölbreytni útflutningsframleiðslunnar að efla ferðamálin sem útflutningsgrein við hlið sjávarútvegs og iðnaðar. Á s.l. áratug náðist mjög athyglisverður árangur á þessu sviði, svo sem rakið er í grg. með þeirri þáltill., sem hér er til umr. Gjaldeyristekjur af ferðaútvegi urðu t.d. 1.000 millj. kr. yfir árið 1970 eða 7.7% af útflutningstekjunum það ár. Þar er um að ræða gott búsílag, og munar um minna.

En fyrrv. ríkisstj. stefndi að því að þróa ferðaútveginn enn þá betur og hraðar í framtíðinni. Í því skyni var að því stefnt að gera úttekt á íslenzkum ferðamálum og sótt um aðstoð Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í því skyni. Fyrir allnokkru kom hingað danskur sérfræðingur á vegum þeirrar stofnunar til þess að kanna aðstæður. Hann skilaði frumskýrslu um athuganir sínar, og í henni mælti hann með því, að kannaðir yrðu fjórir þættir, sem mundu auka aðdráttarafl landsins í heild sem ferðamannalands og jafnframt hafa þau áhrif að lengja svonefndan ferðamannatíma. Þessir þættir voru ráðstefnuhald, sportveiðar, vetraríþróttir og leirböð á jarðhitasvæðum. Niðurstaðan varð sú, að sótt var um fjárhagslega aðstoð umræddrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna til þess að standa straum af erlendum sérfræðikostnaði við að kanna framangreinda þætti ferðamálanna. Sá styrkur er nú fenginn, að því er mér skilst, og mun nema u.þ.b. 140 þús. dollurum.

Tilgangur flm. þáltill. þeirrar, sem hér um ræðir, er sá, að Alþ. hvetji til þess, að ekkert hik verði á framkvæmd þessarar könnunar, sem stefnt var að af hálfu fyrrv. ríkisstj. Jafnframt er lögð áherzla á, að í kjölfarið sigli heildaráætlun um uppbyggingu ferðaþjónustu í öllu landinu, sem miði m.a. að því, eins og í till. segir, að bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna úti um land, einkum í vinsælum ferðamannahéruðum og byggðarlögum, sem geta orðið ferðamannastaðir, ef skilyrði eru sköpuð til fyrirgreiðslu við ferðafólk. Í þessu sambandi er rétt að undirstrika, hversu ferðamálin eru sérstæð í skipulagningu. Við uppbyggingu þeirra þarf að hyggja bæði að því, að skilyrði séu til móttöku ferðamanna í Reykjavík og jafnframt úti um land. Ef sífellt fleiri ferðamenn koma til Reykjavíkur, eru meiri líkur til þess, að þeir vilji skoða fleiri staði í landinu, og einnig koma þeir ferðamenn til Reykjavíkur, sem fyrst og fremst koma til landsins til þess að sjá og skoða sérstök héruð, t.d. umhverfis Mývatn. Hin ýmsu héruð í landinu, þéttbýlisstaðir og sveitir, hafa því sameiginlegra hagsmuna að gæta á sviði ferðamálanna, ef rétt er á haldið. Af þessu leiðir, að sú till. sem hér er til umr., er eins og raunar er lögð áherzla á í orðalagi hennar, ekki sízt miðuð við að bæta aðstæður í strjálbýli til móttöku ferðamanna. Af þessum sökum ætti till. hv. 3. þm. Norðurl. e., Jónasar Jónssonar, og 1. þm. Norðurl. e. á þskj. 294, um endurskoðun ferðamála með tilliti til stuðnings við æskilega þróun landsbyggðar, sem kom síðar fram en till. okkar, sem nú er til umr., að vera óþörf. Ég vil þó taka skýrt fram, að ég vil ekki amast við henni sem slíkri, heldur benda á, að meginefni þeirrar till. er um hluta þess máls, sem till. okkar flm. miðar að, en till. okkar var komin töluvert fyrr fram hér á hv. Alþ„ eins og ég sagði áðan.

Ég vil að lokum leggja sérstaka áherzlu á, að skipan ferðamála er ekki einungis sérstæð að því leyti, að þar fari saman hagsmunir einstakra staða og héraða, ef rétt er á haldið, heldur er hún flókin að því er varðar hvern og einn ferðamannastað. Sums staðar getur þurft að koma upp mannvirkjum. sem í fyrstu geta ekki staðið undir rekstrarkostnaði, til þess að laða að ferðamenn, sem hafa þó jafnframt auknar tekjur í för með sér fyrir hótel, minjagripaverzlanir o.fl. Ferðamálin eru því í raun og veru ákaflega sérstæður atvinnuvegur, sem jafnvel er mikilvægara að skipuleggja en aðrar atvinnugreinar. Því er þýðingarmikið að hraða þeirri athugun, sem stefnt er að og framangreind þáltill. miðar að.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. um þáltill. verði frestað að loknum umr. og henni verði vísað til hv. allshn.