12.05.1972
Sameinað þing: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (3629)

142. mál, efling ferðamála

Frsm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar tvær þáltill. um ferðamál á þskj. 207 og 294. Að athuguðu máli, mælir n. með, að brtt., sem n. flytur á þskj. 674, verði samþ., þar sem hún felur í sér meginefni beggja umræddra þáltill. Brtt. hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hraða áætlun um eflingu ferðamála. Í áætluninni verði stefnt að því að auka verulega ferðamannastraum til landsins og bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna. Leggja skal sérstaka áherzlu á það, að ferðaþjónusta geti orðið traustur atvinnuvegur sem víðast um byggðir landsins og að þróun ferðamála verði til stuðnings við æskilega þróun landsbyggðar. Jafnframt skal áætlunin unnin með tilliti til eftirtalinna fjögurra þátta, sem líklegir eru til að auka aðdráttarafl landsins sem ferðamannalands: Bættra skilyrða til ráðstefnuhalds, aukinna sportveiða, vetraríþrótta og heilsuhæla í sambandi við jarðhita.“

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að gera frekari grein fyrir þessari till. allshn. Hún er, eins og ég hef hér áður sagt, að efni til hliðstæð því, sem kom fram í áður nefndum þáltill., sem var gerð ítarleg grein fyrir í framsögu fyrr í vetur.