17.12.1971
Efri deild: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

126. mál, almannatryggingar

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um staðfestingu á brbl., sem hér voru til umr. í upphafi þessa þings, þ.e. þau brbl., sem hæstv. ríkisstj. setti um gildistöku ákvæða þeirra laga, sem samþ. voru hér á síðasta þingi og flutt af fyrrv. ríkisstj., fóru fram nokkuð almennar umr. um tryggingamál yfirleitt, og get ég því að þessu sinni sem þátttakandi í þeim vísað til þeirra umr. um tryggingamál almennt og stytt þar af leiðandi mál mitt mjög og haldíð mig eingöngu við þetta frv., sem hér er til umr., en vil nota tækifærið til þess að lýsa því í upphafi yfir, að Alþfl. mun, svo sem í hans valdi stendur, stuðla að því að uppfylla óskir hæstv. heilbr.- og trmrh. um, að málið megi hljóta afgreiðslu fyrir þinghlé nú fyrir jólin, og ég lýsi um leið yfir stuðningi við þá meginstefnu, sem í þessu frv. er mörkuð.

Það er alveg ljóst, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh., að hér er aðeins um hluta tryggingalaganna að ræða, en verulegar úrbætur þó í þeim efnum eigi að síður, sem koma munu flestöllum bótaþegum til góða. Það eru aðeins fjögur atriði, sem ég vil staðnæmast við án þess að gera þau að sérstöku umræðuefni.

Það er í fyrsta lagi það, að nú er talið eðlilegra, að viðmiðunin um hækkun á bótum skuli framvegis miðuð við almennt verkamannakaup. Þessa hugsun tel ég ekkert óeðlilega, en hefði þó kosið, að gamla ákvæðið hefði gilt, a.m.k. að þessu sinni, þar sem vitað er, að nýafstaðnir kjarasamningar færðu einmitt því fólki, sem viðmiðunin var miðuð við áður, þ.e. fólki í fiskvinnu, hlutfallslega meiri kauphækkun en almennum verkamönnum, því að á það var 1ögð sérstök áherzla af hálfu alþýðusamtakanna, að laun hinna lægst launuðu yrðu hækkuð mest. Það mun þarna muna í þessu tilfelli núna um 3%, þ.e. sú 10% hækkun, sem hér verður, hefði orðið 13%, ef gamla viðmiðunin hefði haldizt. Hitt tel ég eðlilegt og er sammála hæstv. ráðh. um það, að eðlilegra sé í framtíðinni að miða við almenn verkamannalaun, en þar sem svo stóð á nú, að þessi fyrri viðmiðunarhópur fékk meiri launahækkun en aðrir, þá hefði ég kosið, að að þessu sinni hefði verið miðað við þennan starfshóp, en viðurkenni um leið, að óeðlilegt sé að miða til frambúðar við svo viðkvæman starfshóp, sem hér er um að ræða og víðtæk áhrif hefur á hinum almenna launamarkaði.

Þá harma ég það, að fjölskyldubætur skuli teknar hér út úr og einar bóta ekki hljóta þá hækkun, sem almennt er gert ráð fyrir í frv., og ekki sízt með hliðsjón af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að hér er um leið til tekjudreifingar eða tekjujöfnunar í landinu að ræða. Um það getum við svo deilt, hvort hún er nú eins og hún á að vera, en ég fagna þeirri yfirlýsingu hans, að þessir hlutir séu í endurskoðun, en hefði kosið, að þeir hefðu nú samt sem áður fylgt með í þeim hækkunum, sem hér er um að ræða, því að eðlilega hlýtur sívaxandi dýrtið, sem á sér stað, að bitna fyrst og fremst á þeim, sem stærstar hafa fjölskyldurnar og erfiðast eiga með framfærslu þeirra.

Ég fagna þá enn fremur tveimur atriðum, sem í frv. eru og ég varð áþreifanlega var við, meðan ég gegndi störfum heilbr.- og trmrh. Það er það, að í 3. málsl. 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ef fyrirvinna er dæmd til refsivistar til margra ára í senn og kannske í sumum tilfellum til ævilangrar refsivistar, þá skuli það ekki hitna á aðstandendum hennar, börnum og maka, heldur lagt að jöfnu við fyrirvinnumissi, a.m.k. þann tíma, sem refsivistin stendur yfir. Um þetta eru því miður til átakanleg dæmi, og ég varð því miður töluvert var við, að á þessu þyrfti að halda, þó að hv. núv. ríkisstj.-flokkar sæju um það með sigri sínum í síðustu kosningum, að mér vannst ekki tími til að fá þessa breytingu fram. En ég fagna henni eigi að síður og tel hana mjög í mannréttindaátt. Þetta fólk á, held ég, í engum tilfellum neina sök á því, að fyrirvinna hlýtur refsivist.

Ég mun freista þess að bera fram hliðstæðar brtt. og flokksbróðir minn, hv. 7. þm. Reykv., gerði í Nd. til þess m.a. að fá úr því skorið, hvort hér sé í þessari hv. þd. meirihlutafylgi fyrir þeim till., sem þar komu fram í nál. heilbr.- og félmn. Nd. Á þessum sama tíma, þessu 11/2 ári, sem ég gegndi þessum störfum eftir breytinguna á Stjórnarráði Íslands, eftir að þessi hluti félagsmálanna var tekinn undan félmrn. og settur eiginlega með heilbrigðismálunum, þá kom það berlega í ljós, að fjöldi unglinga á þeim aldri, þar sem skyldunámi lýkur, vildi gjarnan halda áfram námi, en gat jafnframt ekki fengið vinnu við sitt hæfi og varð að ganga iðjulaus af þeim sökum, að fjölskyldufaðirinn var ekki svo efnum búinn að geta kostað þá til frekara náms. Mér er sagt, að hæstv. ráðh. hafi svarað því til í Nd., — og það kunna að vera fyrir því svipuð rök og um aðra liði tryggingalaganna, sem hér eru ekki með að þessu sinni, — að þessi mál væru í endurskoðun og ættu jafnvel ekki heima sérstaklega í þessum lögum. En ég tel nauðsynlegt að undirstrika það með sérstökum tillöguflutningi, að hér er vandamál, sem verður að leysa, hvort sem það á heima í þessum lögum eða öðrum, að unglingar verji ekki þarna tveimur til þremur árum til lítils eða einskis og þá oft með þeim afleiðingum, að að því hléi loknu fást þeir ekki til frekara náms, og þar hefur m.ö.o. væntanlega mikill starfskraftur fyrir borð fallið í þágu þeirra starfa, sem nauðsynlegt er að vinna í þjóðfélaginu.

Ég ítreka það svo að lokum, að við Alþfl.-menn munum gera það, sem í okkar valdi stendur, þrátt fyrir þessar aths. okkar, til þess að frv. megi hljóta afgreiðslu fyrir þinghlé.