07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (3639)

60. mál, opinberar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 65 hafa þm. Reykjaneskjördæmis leyft sér að flytja þáltill. um áætlun um opinberar framkvæmdir fyrir Reykjanessvæðið sunnan Hafnarfjarðar. En í till. segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um opinberar framkvæmdir fyrir Reykjanessvæðið sunnan Hafnarfjarðar. Verk þetta skal unnið í samráði við sveitarstjórnirnar á svæðinu og byggt m.a. á þeim athugunum, sem unnið hefur verið að á vegum Samtaka sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi um framtíðarþróun þessa svæðis.“

Með þessari till: fylgir grg., þar sem gerð er ítarleg grein fyrir því, með hvaða hætti gert er ráð fyrir, að hér fari fram áætlunargerð varðandi opinberar framkvæmdir í þessum hluta Reykjaneskjördæmis. En á s.l. árum hefur það færzt mjög í vöxt, að gerðar hafa verið áætlanir um ýmsar opinberar framkvæmdir, þar sem sveitarfélög í einstökum landshlutum eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Í Reykjaneskjördæmi hafa samtök sveitarfélaganna stofnað samband sín í milli, en sveitarfélögin sunnan Hafnarfjarðar hafa innan þessara samtaka sett á stofn samstarfsnefnd, þar sem þessi sveitarfélög eiga töluvert annarra hagsmuna að gæta en önnur sveitarfélög í kjördæminu.

Við áætlunargerðir, sem hér er gert ráð fyrir, hefur verið horfið að því ráði að afla fjár með sérstökum hætti og þess vegna verið mögulegt að ráðast í stærri verkefni og þá um leið ákvarðað, með hvaða hraða verkin skuli unnin og þá hvernig.

Þessi hluti Reykjaneskjördæmis er, eins og ég gat um áðan, töluvert sérstæður með tilliti til annarra sveitarfélaga, en á þessu svæði búa um það bil 11 þús. íbúar. Hér er um að ræða sveitarfélög í Gullbringusýslu svo og Keflavíkurkaupstað, þó ekki öll sveitarfélögin í Gullbringusýslunni, aðeins þau, sem eru sunnan Hafnarfjarðar, en það er Vatnsleysustrandarhreppur, Grindavíkurhreppur, Hafnahreppur, Miðneshreppur, Gerðahreppur og Njarðvíkurhreppur ásamt og með, eins og ég sagði áður, Keflavíkurkaupstað.

Það má geta þess hér í leiðinni, að þm. þessa kjördæmis hafa einnig flutt till., sem er á dagskrá þessa fundar, um breytingu á lögsagnarumdæmum í þessu kjördæmi, og er að því stefnt, að hrepparnir sunnan Hafnarfjarðar verði skildir frá Garða- og Bessastaðahreppi, þannig að Gullbringusýslan yrði aðeins sunnan Hafnarfjarðar.

Því er ekki í móti mælt, að hér er um að ræða mjög þýðingarmikið svæði landsins. Fyrir utan strendur þessa svæðis liggja þýðingarmestu fiskimið okkar, og byggðarlögin á Reykjanesi eru í miklum uppvexti og þess vegna þýðingarmikið, að þau sameiginlega svo og stjórnvöld önnur komi sér saman um, með hvaða hætti opinberar framkvæmdir skuli vera, og reynt sé að vinna þannig að þessum málum, að það verði gert á sem skipulegastan og skynsamlegastan hátt.

Það er fjölmargt, sem hér um ræðir, þ.á.m. samgöngumál en þar í eru vega— og hafnamál ásamt fjarskiptaþjónustu, og það hefur verið mjög á dagskrá þar syðra að hraða lagningu varanlegs slitlags þar á vegina og þess vegna mjög eðlilegt, að þessi sveitarfélög ráðist nú í það sameiginlega og ákveði, með hvaða hætti þetta verk skuli unnið, með hvaða hraða og þá í hvaða röð.

Þá má nefna menntamál og heilbrigðismál. Þessi byggðarlög hafa tvímælalaust margt sameiginlegt í sambandi við skólamálin. Má þar nefna, að nú þegar hafa þau komið sér saman um byggingu iðnskóla, og vonumst við til þess, að við afgreiðslu fjárlaga nú verði veitt fjármagn til þess að hefja byggingu þess skóla. Þar hafa öll þessi sveitarfélög náð samstöðu, og það, sem fyrir þm. kjördæmisins vakir, er að farið verði eftir því samstarfi og samstarfið geti náð til fleiri greina. Það er tvímælalaust þessum byggðarlögum fyrir beztu og hagkvæmast fyrir alla þá aðila, sem fjármagn þurfa að veita í opinberar framkvæmdir þar.

Á vegum samtaka sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi svo og á vegum Reykjavíkurborgar hafa verið gerðar athuganir á þróun fólksfjölgunar á þessu svæði, og þá yrðu þær rannsóknir, sem þar hafa verið gerðar, tvímælalaust hafðar til viðmiðunar í sambandi við þær framkvæmdir, sem þarna verður ráðizt í.

Sú samstarfsnefnd, sem ég gat um áðan, hjá þessum sveitarfélögum er grundvöllur þess, að þarna geti náðst skynsamlegt samstarf á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna, og ég er þeirrar skoðunar og við reyndar allir, að eftir að sú samstarfsnefnd komst á laggirnar, verði mun hægara og þægilegra að vinna að þessum málum hjá byggðarlögunum sjálfum og þá um leið af hálfu ríkisvaldsins, eftir því sem það kemur til kasta þess.

Ég þarf ekki að benda á fremur en ég hef gert, hversu þýðingarmikið það er fyrir þessi byggðarlög, að skipulega sé unnið að þessum málum, og vonast til þess, að sú till., sem hér er flutt, fái samþykki Alþingis.

Ég legg svo til herra forseti, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.