12.05.1972
Sameinað þing: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (3652)

42. mál, opinberar framkvæmdir í Suðurlandskjördæmi

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft þessa till. til athugunar. En tillgr. hljóðar þannig: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa áætlun til langs tíma um opinberar framkvæmdir fyrir Suðurlandskjördæmi. Verk þetta verði unnið í náinni samvinnu við Samtök sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi.“

Álit fjvn. er prentað á þskj. 690 og er aðeins fimm orð: „Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar.“

Menn eru meira og meira að komast á þá skoðun, að skynsamlegt sé að skipuleggja í stórum dráttum og gera áætlanir um, hvernig þjóðin eigi að búa um sig í landinu, þannig að henni megi vegna sem bezt og gæði landsins verði nýtt á skynsamlegan hátt og skilyrði til hagnýtingar landsins geti batnað án þess að rýra náttúrugæðin, heldur verði ávallt unnið að því að bæta landið.

Í grg. með till. eru nefnd nokkur helztu verkefni í Suðurlandskjördæmi, sem þarf fljótlega, ekki sízt vegna fólksfjölgunar í þeim landshluta, að skipuleggja og gera áætlanir um, hvernig hyggilegast verði að leysa og hvað helzt verði að ganga fyrir öðru.

Á Suðurlandi eru áreiðanlega lífsskilyrði fyrir mikla íbúafjölgun. Þar eru mestu jarðhitasvæði landsins með næstum því óþrjótandi orku, og samanlögð vatnsorka er þar miklu meiri en í öðrum landshlutum. Landbúnaðarskilyrði eru góð miðað við íslenzkar aðstæður, enda er framleiddur þar nú 1/3 hluti allrar landbúnaðarframleiðslunnar. Fiskimiðin eru nærri og oftast mjög gjöful, en góðar hafnir vantar nema þá í Vestmannaeyjum. Þar má segja, að sé góð höfn. Þessi landshluti hefur því ekki aðeins vegna þeirra, sem þar búa, heldur vegna þjóðarbúsins í heild mikla og vaxandi þörf fyrir skipulegar áætlanir, og þeirri áætlanagerð þarf að flýta að dómi flm.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um till. fleiri orð. Fyrsti flm„ hv. 1. þm. Sunnl., flutti um þetta mál ágæta ræðu, þegar málið var til umr. hér í vetur, og ég sé ekki ástæðu til þess að bæta við það.