14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (3669)

197. mál, radarsvari við Grindavík

Flm. (Karl G. Sigurbergsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. l0. landsk. þm., Geir Gunnarssyni, að flytja hér í Sþ. till. til þál. um radarsvara við Grindavík. Till. er á þá leið, að Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að settur verði radarsvari við innsiglinguna til Grindavíkur.

Útgerð hefur verið rekin frá Grindavík í áratugi og aldir með misjöfnum árangri eins og gengur og oft með allmiklum fórnum á mannslífum og tjóni á forgengilegum verðmætum. Á síðustu árum hafa sem betur fer orðið færri mannskaðar þar en áður og einnig færri skiptapar, sem leiðir af aukinni tækni og bættum skipakosti. Samt held ég, að fullyrða megi, að oft hafi þar verið mjótt bil á milli lífs og dauða. Eins og við flm. tökum fram í grg., hefur þar í mörgum tilfellum eingöngu reynt á hjálpfýsi og þekkingu heimamanna til að bjarga frá stórtjónum og slysum. Við Grindavík eru staðhættir þannig, að um langa leið er að sigla, sem segja má, að varasöm sé í vondum veðrum, og reynir þá á nákvæmni í staðsetningu. En í dimmviðri er ekki um margt að ræða, sem nota má til staðarákvarðana, sökum þess hve ströndin er lág.

Þótt nú kunni að vera til önnur tæknileg lausn til að auðvelda ferðir skipa á þessum stað, þá teljum við að radarsvari komi þarna að beztum notum, vegna þess að flest ef ekki öll fiskiskip hafa í dag þau tæki, sem nota þarf í sambandi við radarsvara og það allt niður í smábáta, sem flestir hafa orðið radar af einhverri gerð til að sigla eftir. Við teljum, að leita beri álits heimamanna hvað varðar val tækis og staðar í þessu sambandi, þótt við bendum í okkar till. á ákveðna lausn, sem að þessu lýtur. Við höfum ekki kannað til hlítar kostnað í sambandi við uppsetningu radarsvara í Grindavík, en álítum og það með rökum, að kostnaðurinn verði aldrei nema örlítið brotabrot af þeim þjóðartekjum, sem þar eru fluttar að landi. Auk þess teljum við þetta ekki nema smávegis viðurkenningu til þeirra, sem undanfarin ár hafa staðið þarna í Grindavík að öflugri uppbyggingu atvinnulífs á þjóðlegan og þjóðhollan hátt, en treysta ekki eingöngu á útanaðkomandi öfl til stundarbjargar hverju sinni.

Ég hefði nú kannske haft tilhneigingu til þess að fara fleiri orðum um það atriði málsins, en læt hér staðar numið, en bendi á, að það er lofsvert af Grindvíkingum, hvort sem þar er um menn að ræða, sem stundað hafa sjó, eða þá, sem í landi vinna að verkun aflans, það er lofsvert að vita til þess, að þeir hafa ekki byggt afkomu sína á þeim, eins og ég nefndi áðan, stundarfyrirbrigðum, sem margir hverjir aðrir telja meiri hag í, sem auðvitað er léttara að hagnýta sér í vissum tilvikum. Þeir hafa stefnt að því að byggja upp atvinnulífið á þjóðlegan hátt og rekið þarna það sem kalla má frumvinnsluatvinnu í sjávarútvegi, og það ber að stefna að því að mínu viti að styðja við bakið á slíkum mönnum til þess að efla atvinnuvegina enn þá betur en gert hefur verið.

Við leggjum áherzlu á það, eins og ég gat um áðan, að haft verði fullt samráð við heimamenn, sérstaklega um staðarval, hvar slíkt tæki yrði sett niður, og vil ég undirstrika það aftur, að það er beiðni mín og eins samflm. míns, að þetta samráð við heimamenn verði haft í hávegum.

Herra forseti. Ég legg til, að till. þessari verði vísað til fjvn.umr. lokinni.