17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3676)

178. mál, varnir gegn ofneyslu áfengis

Flm. (Hjördís Hjörleifsdóttir):

Herra forseti. Háttvirtir alþingismenn. Mér finnst við hæfi, þegar þm. kveður sér í fyrsta sinn hljóðs í þessu virðulega húsi, að þá varði málflutningur hans þau efni, sem öllum ættu að brenna jafnt í huga, en ekki eru innan neinna pólitískra landamæra. Þótt fætur vorir séu stundum e.t.v. of skjótir til ills, þá er til stjórnmála— og valdabaráttu tekur, ættu þeir og öllu fremur að vera snöggir til góðs, ef um örlagaspursmál er að tefla.

Áfengisvandamálið, títt er það nefnt, en oft höfum við eyru, sem heyra ekki, og augu, sem sjá ekki. Víst blygðast ég mín hvergi fyrir ætt mína né uppruna, en hversu miklu fremur hefði ég samt kosið, að einhver sá, er kann betur að hitta með orðsins brandi og er kunnari hér á meðal ykkar en ég, þrumaði nú héðan úr þessu stæði svo ákaft og svo eftirminnilega, að aldrei framar gleymdist. En nú og hér á ég aðeins völ á sjálfri mér, því að svo sannarlega kom ég fram á hinni elleftu stundu, og mér þykir það nær vissa, að er dyr þessa húss lokast í síðasta sinn í fyrirsjáanlegri framtíð á hæla mér hér í dag, komi hin stærri málin, er svo eru kölluð, skattamál og annað slíkt, þingheimi í það uppnám, að efni af þessu tagi þoki enn um set aftur í krókbekk hins íslenzka mannlífs. Vegna þessa gruns, já, beinlínis vissu, bar mér að standa upp, og á því bið ég engrar velvirðingar, jafnvel þótt mér vefjist einhvers staðar tunga um tönn frammi fyrir öllu þessu þing þjálfaða fólki, og þó að undirbúningstíminn hafi verið helzt til skammur. Ég tala svo sem samvizka mín segir mér. Enginn getur betur en það.

Þriðjudagurinn 15. febrúar 1972 mun að líkindum síðar meir verða í minnum hafður, þá er þingheimur sameinaðist um framgöngu Íslendinga í landhelgismálinu. Þá var bjart í þessu húsi. Ég ætla, að þá hafi þessi hlýja, gleðigefandi tilfinning, ég er Íslendingur, stigið upp úr vitund hvers einasta manns hér inni, þessi sterka vissa um, að á örlagastundu berum við aðeins samheitið Íslendingar, og þá skiptir fámennið ekki máli. Það mál, sem ég nú ber fram fyrir þingheim, sýnist e.t.v. öllu minna, en í mínum augum er það hreint ekkert smærra og ekki ómerkara. Hvers hönd skrifaði Mene tekel forðum á vegg? Bifast hún enn? Eru fingur hennar kannske að teygja sig upp á þiljur íslenzks þjóðlífs í dag? Eigum við að sitja með hendur í skauti og stafa okkur fram úr orðunum, ef þau skyldu birtast?

Háttvirtu þingmenn, mér er alvara. Og ég er hér ekki að hafa kúnstir né stóryrði upp á sport. Mér er heit og brennandi alvara í huga og skeyti því engu, þótt einhver krimti. Ég fullyrði: Nú er aftur samstöðu þörf engu síður en í landhelgismálinu. Munurinn er eingöngu sá, að á þessum vettvangi verður að berjast við óvin, sem býr á meðal okkar sjálfra, í þankagangi okkar og lífsháttum, hefur um langa stund fengið príðis næði til þess að koma sér fyrir á flestum þeim stöðum, er honum hefur hugnazt bezt. Þessi óvinur er ekki búinn sýnilegum vopnum hers og hótana. Þvert á móti. Tunga hans er silkimjúk, og lokkandi spretta orð undan tungurótum: Fáðu þér einn sopa, vinur. Sopinn sá arna gerir hvorki til né frá. Hann heitir vináttu sinni og vellíðan hvers þess, er gengur á hans fund, og gestrisni án enda. Hver er hann þá? Hvað heitir hann þá sá hinn mikli valdamaður, sem er allra vinur, en því miður engum trúr? Bakkus. Bakkus konungur er hann stundum kallaður, guð víns og vellistinga, en einnig sársauka og þjáninga, svo ólýsanlegra, að ekkert, hreint ekkert einasta orð þessarar einstæðu tungu kann til fulls að tjá. En þá fyrst er hann þjáir, kastar hann af sér silkiklæðum, og í ljós kemur afskræmt og glottandi skrímsl. Þá fyrst er hann kvelur, hættir hann að lokka. Hann skipar, og þótt gestinn fari þá margt að gruna, á hann þess oft ekki lengur kost að afþakka veitingar.

Háttvirtu alþingismenn, herrar mínir og frúr. Hvernig á ég að tala, svo að þér heyrið, heyrið í alvöru? Hvernig á ég að mála mynd, svo að þér sjáið, sjáið rétt? Hér inni má ugglaust ekki æpa, og til hvers væri það? Menn æpa sjaldnast, þá er þeim býr harmur í hjarta. Anzi er ég líka hrædd um, að það gagni ekki stórt á tímum, þar sem orð eins og ofsafenginn og æðislegur merkja nánast ekki nokkurn skapaðan hlut, tímum sem hafa gert þau hin stóru orðin merkingarlaus, tilfinninguna sljóa. Það er dýrt spaug og er þegar farið að sýna sig, að hella árum saman orðum og myndum frá vettvangi óímyndanlegra hryðjuverka út í ljósvakann og yfir þjóðir og ætlast svo til, að tilfinningar venjulegra manna sljóvgist ekki til muna. Kannske er nú á þessu andartaki innan þessara fjögurra veggja á flögri einhver hugsun, er svo hljóðaði, ef sögð væri upphátt: Hver er hún, þessi konukind? Var ekki einhver að segja, að hún væri að vestan? Er það ekki þessi, sem kom inn fyrir hæstv. félmrh., herra Hannibal Valdimarsson? Ætli hún hafi nokkurt vit á þessu blessuð manneskjan? En hún verður víst að fá að halda sína jómfrúræðu, ekki satt? Ég held samt, að ég bregði mér snöggvast fram fyrir. Ég missi vart af miklu, ef framhaldið verður eins og fororðin. Það er eitthvað svo öfgakennt við þetta, og svo finnur hún líklega sjálfsagt nokkuð til sín. Það er óneitanlega nokkur virðingarauki að því að fá að messa yfir höfðum hv. þm. og ráðh.

Já, háttvirta rödd, sért þú til staðar. Ég finn til mín á vissan hátt á þann hátt einan, að aldrei finnst mér smæð mín hafa verið meiri en nú og hér í þessari pontu, sem ég stend vart upp úr, pontu valdsins og mikilvægisins í þessu þjóðlífi. Hingað hafa margir verið kallaðir, og héðan hafa hljómað, ef við hugsum okkur í burt veggina og táknorðið sjálft eitt í staðinn, héðan hafa hljómað í þúsund ár raddir margra hinna vitrustu og beztu manna, sem skáru úr um það hver á sínum tíma, að við héldum áfram að vera þjóð, þjáningum hlaðin og kaunum slegin á stundum, en þó ævinlega íslenzk þjóð, sem bognaði oft, en brotnaði aldrei.

Satt er það, ég kem að vestan, utan úr hinum nafnlausa fjölda, sem unir daglega við lítt áberandi iðju, sem hefur þó um nokkra hríð verið talsvert á vörum fólks. En sú iðja er almennt kölluð kennsla, og við, sem hana stundum, kennarar. Og kannske er það starfsheitið kennari, sem hleypir í mig þeim kjarki, já, beinlínis leggur mér þá skýlausu skyldu á herðar að tala og leggja fram alla þá vitneskju, sem ég nú hef yfir að ráða um þessi mál beint og krókalaust, svo sem þau koma mér fyrir sjónir. Má vera, að ég hafi byrjað á endinum og endað á byrjuninni. En út skal það samt. Það er nefnilega ekki hægt að segja við kennara, sem hefur verið trúað fyrir ungmennum í 15 ár og það í heimavistarskóla, að hann hafi ekki aflað sér nægilegrar yfirsýnar yfir málin, þau vaxandi vandamál, er vín neyzlu fylgja. Það er ekki hægt.

Í upphafi kennsluferils míns hugleiddi ég ekki, að slík vandamál gætu sprottið upp. Það gafst einfaldlega ekkert tækifæri til þess. Aðeins s.l. 4—5 árin hefur þeim teiknum brugðið á loft, er spurninguna kveikti, hvað er að gerast? Og þeim fjölgar æ, en fækkar ekki, þessum spurningum, því að nú er svo komið, að í hópi ungmenna er það nánast orðið hlálegt að stunda svo kallað skemmtanalíf án liðveizlu víns. Það er óhjákvæmilegt að vera eins og hinir, allir hinir. Annars er maður bara settur hjá og getur þá fullt eins vel setið heima.

Ég sagði, þeim fjölgar, ungmennunum, en ætli ég hefði ekki fyrst átt að nefna okkur, hið svo kallaða fullvaxta fólk, fyrirmyndirnar? Sálfræðingar segja okkur, að atferli barna og unglinga fari að miklu leyti eftir því, hvað þau sjái fyrir sér á æsku— og mótunarskeiði. Af því dreg ég þá ályktun, að í lífi okkar og atferli sé orsakanna að leita. Og þegar ég hugleiði það, finnst mér meinsemdin sjálf, er sjaldnast er þó til umræðu, koma berlega í ljós, þ.e. tómleiki, nöturleiki, haldleysi mannsins í dag, flóttinn frá sjálfum sér, undan sjálfum sér, athvarfsleit hjá einskis nýtum skurðgoðum. Er ekki hagvöxtur annars merkilegt fyrirbrigði? Við skulum hugsa mikið um hann, svo að við getum örugglega lifað lífi því, er þetta þokukennda hugtak, mannsæmandi, á að tákna. Sæmdin, sálin, sjálfur neistinn og forsenda þess, að nokkurt farsælt mannlíf geti átt sér stað, það er eitthvað svo óraunverulegt og enda engar sannanir fyrir, að slíkt sé til. Heyrðu mig nú heldur, guð Mammon. Kaupið mitt er ekki nógu hátt, og þú þarna guðinn Bakkus, mér leiðist. Láttu mig nú fá einhverja skemmtan fyrir þessa fáu aura, sem ég get við mig losað. Nei, heyrðu mig nú, bróðir eiturlyf. Þér þarf ég endilega að kynnast. Hann Bakkus þarna er orðinn hálfleiðinlegur. Við höfum þekkzt svo lengi, og hann er hættur að finna upp á einhverju nýju.

Allt ber að sama brunni. Blekking á blekkingu ofan, hræsni og tízkutildur, æðisgenginn dans hins friðvana manns í friðvana heimi, metorð, auður, metorð, áhrif, ekkert dugar. Sálarangistin eykst, einmanaleikinn eykst, en, „athvarf mitt jafnan er til sanns undir purpurakápu hans.“ Hlálegt, ekki satt? Menntað fólk kraflar sig sjálft áfram, finnur sjálft úrræðin. Og svo er líka til hið opinbera. Einfeldningar hafa þetta kannske stöku sinnum yfir. Já, og svo auðvitað eitthvað af gamla fólkinu, því, sem við höfum hvolft yfir stampi, huldumanneskjurnar í þjóðfélaginu. Það hefur svo góðan tíma til að rifja upp eitt og annað. Annars er bezt, að prestarnir tuldri þetta á stórhátíðum. Þeir eru jú lærðir upp á það. Flaskan er betri. Flaska er mér auðfengin, og flaska er ginnandi. Ekki að stanza og enn síður að hugsa. Það gæti einhver farið að hlæja, og hver vill gera sig hlálegan nú til dags innan um danskar mublur á dúnmjúku gólfteppi frá Bretanum með fulla frysikistu af svínakjöti og kjúklingum ofan í kjallara. Ó þú þarna, alvaldi Bakkus, komdu nær, láttu mig gleyma, að ég geti hugsað, geymdu ótta minn um stund og svo næstu stund líka. Stattu mér einnig nær, konungur og bezti bróðir eiturlyf, ef og þegar vínguðinn bregzt. Voldugir vinir, sterkir vinir, ekki satt?

Háttvirtu alþingismenn, íslenzkt fólk. Takið þið nokkurt mark á þessu? Hlustar nokkur í alvöru? Heldur ekki kæruleysislegt ráf út og suður áfram eftir sem áður? Er ekki hvískrað og malað um einhvern Jón Jónsson að austan, sem vantar aura í íshúsreksturinn sinn, eða Pál og Pétur að vestan, sem ætla að setja á laggirnar iðnfyrirtæki, er sýnist svolítið vit í. Ekkert hefur að líkindum innan stundar gerzt hér, og ekkert hefur að líkindum setið eftir annað en þokukennd minning um einhvern kvenmann, sem spreytti sig á hefðbundinni jómfrúræðu. Sagði hún nokkuð nýtt?

Það er svo oft búið að þrugla um þetta. Ætli hún hafi ekki bara verið að mála skrattann á vegginn? Sumir hafa það sér til dundurs, ef þeir vita ekki, upp á hverju þeir eiga að taka eða vilja láta einhvern taka eftir sér, þótt ekki sé nema fyrir vitleysurnar. Þær eru stundum líka svo fjári öfgafullar, kerlingarnar, þegar þær taka sig til.

Nei, því miður. Þessi orð mín draga varla nokkurs manns höfuð upp úr sandinum. Það má kannske teyma hestinn að lindinni, en hvorki ég né aðrir geta fengið hann til að drekka, viti hann ekki af því, að hann er þyrstur. Enn um stund mega líklega lítil íslenzk börn vefja sig upp að henni mömmu sinni og hrópa í kvöl: „Við erum hrædd við hann pabba, þegar hann er svona“. Og hefur kannske enn meiri harm borið að garði? Þurfa þau e.t.v. fleiri og fleiri að bæta við: „Og við hana mömmu líka.“

Það er einhvern veginn svo tilgangslaust að taka dæmi. Þið þekkið þau öll, þessi himinhrópandi vandamál, er sigla í kjölfar vínsins, bara ef þið viljið við þau kannast og þorið að þekkja á þeim full deili. Þetta er reyndar full hógvarlega að orði kveðið, er ég nefni þetta vandamál. Þetta er kaun, kýli, sem fyrir löngu er farið að leggja svo dauninn af, að það þarf meira en hestaheilsu til að þola hann.

Rétt er ég var nú að ganga inn í þingsalinn, barst mér dagblaðið Tíminn upp í hendurnar, tölublað þessa dags. Þar stendur þessi grein, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, og ég les hana alla: Fyrirsögnin er á þessa leið:

„Geðsjúkir, drykkjusjúkir og töfluætur fylla slysadeildina.

Á síðasta fundi heilbrigðisráðs var lögð fram fundargerð framkvæmdanefndar Borgarspítalans. Haukur Benediktsson framkvæmdastjóri gerði grein fyrir fundargerðinni ásamt borgarlækni. Í sambandi við 6. tölulið samþykkir heilbrigðisráð að fela yfirlækni slysadeildar og framkvæmdastjóra Borgarspítalans að taka upp viðræður við heilbrigðisyfirvöld um lausn þess mikla vanda, sem steðjar að slysadeild vegna sívaxandi aðsóknar fólks undir áhrifum áfengis og lyfja. Fundargerðin var að öðru leyti samþykkt með samhljóða atkvæðum“

Þar með er nú komin þarna enn ein samþykkt um að vísa máli, sem enga bið þolir, til viðkomandi yfirvalda, og verður málið væntanlega tekið þar til athugunar, þegar þar að kemur, sem síðan verður falið einhverjum til athugunar.

S.l. sumar skrifuðum við heilbrigðismálaráði bréf vegna aðsóknar drykkjumanna, töfluæta og geðveiks fólks, en mér vitanlega hefur ekkert gerzt í því máli. Það er hreinlega sofið á því. Þetta sagði Haukur Kristjánsson yfirlæknir slysadeildar í gær. Í stað þess að sjá einhvern árangur af kvörtunum okkar í sumar hafa vandræðin farið vaxandi. Með hverri vikunni sem líður fjölgar þeim vesalingum, sem hent er inn á okkur, geðveiku fólki, drykkjusjúklingum og töfluætum, og fer þetta reyndar oft saman. Það er bara komið með þetta fólk til okkar, stundum kemur það sjálft, aðstandendur koma með það, læknarnir segja því að fara á slysadeildina. Þeir fara ekki alltaf heim til þessa fólks, þegar þeir eru kvaddir til þess. Þeir vita, að þeir geta ekkert gert. Það er hvergi hægt að koma þessu fólki inn. Þetta fólk hópast inn til okkar, og við sitjum uppi með það eins og illa gerðir hlutir. Sumt af þessu fólki kemur oft nótt eftir nótt. Það vill enginn taka við því. Við höfum ekkert pláss og vitum ekkert, hvað við eigum við það að gera. Suma þarf að vakta. Stundum er það hávært og lætur öllum illum látum, og verður jafnvel að fá lögregluvakt inn á slysadeildina.

Við rekum slysadeild, eins og nafnið gefur til kynna. Þetta er engin geðveikradeild. Fólk lítur svo á, að þetta sé ein allsherjar lækningastöð og eigi sérstaklega að nota hana á nóttunni og kvöldin. Margir koma um miðjar nætur með gömul meiðsli og heimta af sér myndatökur og alls konar rannsókn vegna kvilla, sem það er kannske búið að ganga með í marga mánuði.

Það er alltaf að þrengjast að okkur, og ásókn þessa fólks tefur mjög fyrir þeim störfum, sem slysadeildinni eru ætluð. Ég veit ekki, hvar þetta endar, ef ekki verður að gert. Það er þegar orðið algert neyðarástand hjá okkur. Iðulega senda aðstandendur okkur fólk í leigubílum, sem er viti sínu fjær vegna drykkjuskapar eða töfluáts, og síðan er fólkinu rúllað inn á slysadeildina, og við sitjum uppi með það. Það kemur einhver og einhver með það inn og skilur það eftir, og fylgdarmennirnir hverfa. Við vitum ekkert, hvað að þessu fólki er oft og tíðum. Það er meira og minna ósjálfbjarga. Það eina, sem við getum gert, er að láta það sofa úr sér og senda það síðan heim aftur og fá það svo kannske aftur í sama ástandi næstu nótt.

Herra forseti, háttvirtir alþingismenn. Máli mínu er því nær lokið. Mér er það meira en ljóst, að ekki gerir einn þröstur vor. En þess fleiri sem þeir verða, þeim mun meiri líkur eru á, að frerinn fari úr jörðinni og að manneskjan geti vongóð snúið bakinu við dökkvanum, lotið höfði og hlúð að frjóöngunum, sem upp spretta. Trú mín á mannlega snilli hefur allmjög þorrið hin síðari árin. Tunglfarir hræra ekki við neinum streng í brjósti mér, nema þá helzt á þann veg, að stundum furðar mig fávíst pot sumra mitt í öllu miskunnarleysinu og stríðsæðinu, sem svo auðsjáanlega hefur tekið sér bólstað á þessari plánetu. Hins vegar hefur mér smám saman aukizt trú og skilningur á því, að það gagnar stutt að vera „töff“, en ef við höfum fyrir satt orð Matthíasar Jochumssonar, að

í almáttugri hendi hans

er hagur þessa kalda lands

Þá munu vandamálin þau hin stóru, svo sem það, sem ég hef hér nú um rætt, leysast óyggjandi, leysast þannig, að eftir standi heilbrigðari, glaðari og hógværari þjóð en nú byggir þetta elskulega land, landið okkar, Ísland.

Að svo mæltu þakka ég áheyrn og bið ykkur öllum, sem hér eruð inni, farsældar í hverju góðu máli, sem þið verðið kölluð til að leysa um ókomna framtíð.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til, að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.