22.11.1971
Neðri deild: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

71. mál, innlent lán

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft þetta frv. til athugunar, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt, Sigurður E. Guðmundsson skrifar undir með fyrirvara, en minni hl. skilar séráliti. Það var nú ekki komið á mitt borð, þegar ég fór í pontuna.

Ég vil geta þess, að n. ræddi þetta á nokkrum fundum og kvaddi til viðtals bankastjóra frá Seðlabankanum og frá viðskiptabönkunum. Það hefur verið venja til margra ára að standa undir framkvæmdum, sem gerðar eru á vegum ríkisvaldsins, með innlendu lánsfé, fengnu með líkum kjörum og hér er gert ráð fyrir. Þm. hafa í megindráttum verið sammála um þessa fjáröflunarleið. Þó hefur nokkur ágreiningur verið á þingi undanfarið, um afgreiðslu þessara frv., en meginágreiningurinn hefur verið í sambandi við þau ákvæði fyrri frv., að þessi bréf skyldu vera undanþegin framtalsskyldu. Nú er nokkuð komið til móts við þá, sem gagnrýndu þetta, með þeim hætti, að bréfin hljóða nú á nafn, en voru áður gefin út á handhafa.

Við 1. umr. þessa frv. hér í hv. d. og svo í fjhn. kom fram nokkur gagnrýni, einkum á tvö atriði: Annars vegar það, að ekki lægi nægilega ljóst fyrir, til hvers ríkisstj. hygðist verja þeim fjármunum, sem afla á með innlenda láninu, og hins vegar var það gagnrýnt, að fyrirhugað væri að selja þessi bréf nú þegar á þessu ári, og það var gagnrýnt á þeim forsendum fyrst og fremst, að slík sala þrengdi að viðskiptabönkunum og væri ekki heppileg af þeim sökum. Ég vil fara örfáum orðum um þessi atriði. Ég vil víkja fyrst að fyrra atriðinu. Það hefur verið ýmis gangur á afgreiðslu lántökuheimilda á undanförnum þingum, að því leyti, að framkvæmdaáætlun hefur verið misjafnlega langt á veg komin, stundum jafnvel alls ekki verið búið að leggja hana fram, þegar frv. um lántökuheimild voru til meðferðar. Það er kannske ekki svo óeðlilegt, þó að nú sé lagt fram frv. um lántökuheimild, áður en framkvæmdaáætlun liggur fyrir, þegar þess er gætt, að nú situr ný ríkisstj. sem tók við völdum á miðju síðasta sumri. Fjárlagaafgreiðslan út af fyrir sig er ærið verkefni. Nú er það vitað, að það er verið að undirbúa mjög þýðingarmiklar breytingar á tekjustofnakerfinu. Það er stefnt að því nú, eins og verið hefur lengi, að afgreiða fjárlög fyrir áramót, og ég held, að það séu ekki skiptar skoðanir um það, að að því beri að stefna. Nú er þannig komið undirbúningi fjárlaga, eins og venja er á þessum tíma, að þar er allt í miðjum kliðum. Fjvn. situr að störfum, og stórir málaflokkar, eins og t.d. skólabyggingamálin öll, hafnamálin og raunar fleiri, eru alls ekki komnir til n. frá viðkomandi rn. Á meðan fjárlagaafgreiðslan stendur þannig sem hæst og er ekki lengra á veg komin en raun her vitni, sem er nákvæmlega það sama og verið hefur á undanförnum þingum, þá er skiljanlegt, að það sé nokkuð erfitt að leggja fram sundurliðaða framkvæmdaáætlun. Þarna grípur hvað inn í annað, og einkum er það skiljanlegt, eins og ég sagði áðan, þegar um er að ræða nýja ríkisstj., sem hefur eðlilega mjög mörg járn í eldi, og þess vegna von meiri breytinga en þegar ríkisstj. hefur setið mörg ár, og starfar eftir óbreyttri stefnu.

Í annan stað er þess að geta, sem kom hér fram við 1. umr., að frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins er til umr. í Ed. einmitt núna í dag. Hæstv. fjmrh. upplýsti við 1. umr. málsins, að ætlunin væri að lögfesta það frv. nú á fyrri hluta þings og þeirri stofnun væri síðan ætlað að taka þátt í að undirbúa endanlega framkvæmdaáætlun, sem svo yrði lögð fyrir á síðari hluta Alþ., eftir að fjárlög hafa verið afgreidd. Ég skal viðurkenna, að þetta er ekki æskilegt en það er varla stórkostlega ámælisvert, þegar það er haft í huga sérstaklega, að hér situr ný ríkisstj., og þess þá jafnframt minnzt, að framkvæmdaáætlun og fjárlög hafa ekki fylgzt að á undanförnum árum. En það væri æskilegra, að saman færi afgreiðsla fjárlaga og framkvæmdaáætlunar, og það verður vafalaust að því stefnt, að svo megi verða, þegar tímar líða fram.

Nú er það hins vegar svo, að þótt ekki sé á þessu stígi hægt að leggja fram ákveðnar till. um framkvæmdaáætlunina í einstökum liðum og þ. á m. um ráðstöfun þeirra fjármuna, sem hér um ræðir, þá er auðvitað vandalaust að minna á ótal verkefni, sem sinna þarf og þetta fé verður notað til að meira eða minna leyti. Það má minna á verkefni eins og vegamál, flugmál og hafnamál, raforkumálin, byggingu sjúkrahúsa og skólamannvirkja og fleiri opinberar framkvæmdir. Og það má einnig minna á það, að venja hefur verið á undanförnum árum að nota hluta af fé framkvæmdaáætlunarinnar til að standa straum af tilteknum þáttum í kostnaðarsömum rannsóknum.

Varðandi síðara atriðið, sem einkum hefur verið gagnrýnt, það að stefna að því að bjóða út innlent lán nú seint á þessu ári, þá var það atriði sérstaklega rætt í fjhn., og n. ræddi það við þá bankastjóra, sem þar mættu, frá Seðlabankanum og frá viðskiptabönkunum. Nú er það svo, að kaupgeta virðist gífurlega mikil, og nægir til rökstuðnings þeirri umsögn að minna á það eitt, að innflutningur til landsins á þeim mánuðum, sem skýrslur liggja nú fyrir um, hefur aukizt alveg gífurlega, eða um 45% að sagt er. Það virðist þess vegna vera um að ræða mikið fé í umferð og því mjög eðlilegt að stuðla að aukinni sparifjármyndun og á þann hátt, sem gert er ráð fyrir með þessu frv.

Eins og ég sagði, var þetta atriði sérstaklega rætt í fjhn. Bankastjóri sá, sem mætti frá Seðlabanka Íslands, mælti eindregið með þessari leið. Og skoðun hans var sú, að það fjármagn, sem kæmi til með að nást inn til opinberra framkvæmda með þessum hætti, væri ekki nema að takmörkuðu leyti dregið út úr veltu viðskiptabankanna. Bankastjórar viðskiptabankanna voru aftur á móti uggandi um það, að mikill hluti fjárins yrði frá þeim tekinn og kynni að valda þeim erfiðleikum. Nú má vitanlega rökræða og deila um það, hve mikill hluti komi raunverulega frá viðskiptabönkunum og hvað komi annars staðar frá. En í því sambandi má minna á það, að með þeirri breytingu, sem nú er gerð á afurðalánunum, þá léttir nokkuð á viðskiptabönkunum, vegna þess að afurðalán þau, sem Seðlabankinn lætur í té, hækka verulega. Það kemur nokkuð til léttis hjá víðskiptabönkunum. Nú hafa slík útboð sem hér er gert ráð fyrir farið fram áður oftlega, og ég hef spurzt nokkuð fyrir um það, hvort fyrir liggi nokkrar tölulegar upplýsingar um bein áhrif þeirra útboða hverju sinni á innlán í viðskiptabönkunum, en ég hef ekki getað fengið neinar ákveðnar upplýsingar, sem sanni eða bendi til þess, að það fé, sem tekið er að láni á þennan hátt, beinlínis sogist út frá viðskiptabönkunum. Ég hef ekki getað fengið það. Það var mat meiri hl. fjhn., að skynsamlegt væri að leita fyrir sér nú um innlenda lántöku í því formi, sem þetta frv. markar. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en eins og ég gat um, ritar Sigurður E. Guðmundsson undir nál. með fyrirvara.